19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Frsm. (Jón G. Sólnes):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur fjallað um frv. það, sem hér er til umr. Samkomulag náðist ekki í n. um afgreiðslu málsins, en meiri hl. n. leggur til að frv. verði samþykkt með breytingu, sem n. ber fram á þskj. 256 og er svo hljóðandi:

„Við 2. gr. Í stað „1. jan. 1979“ í 2. málsl. 2. mgr. komi: 1. febr. 1979.“

Með þessari breytingu Leggur meiri hl. fjh.- og viðskn. til að frv. verði samþykkt. Einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., en hv. þm. Albert Guðmundsson mun skila séráliti.

Áður en ég skilst við þetta mál vil ég, herra forseti, greina frá því, að ég leitaði undirtekta hv. fjh: og viðskn. við þær aths. mínar og ábendingar sem ég bar fram hér í d. þegar þetta mál var til 1. umr., en þá benti ég á að ég óskaði eftir að n. tæki til athugunar að gera þá breytingu á 1, gr. frv., að strikuð yrðu út orðin: „og ekki eru orðnir 67 ára fyrir 1. jan. 1978“. Þessi aths. mín eða öllu heldur ábending fékk ekki hljómgrunn meðal nm., og þar sem svo áliðið er þingsins og mikið annríki vil ég ekki tefja fyrir framgangi þessa máls með því að bera fram brtt., eins og ég hefði þó helst kosið. En ég vil leggja áherslu á að ég tel óeðlilegt, þegar um slíka þegnskyldu er að ræða sem ákveðið er í þessu frv., að þá séu slík ákvæði bundin við eitthvert sérstakt aldurstakmark. Ég held að þar eigi tekjutakmörk einstaklinganna að ráða stefnunni, en ekki aldurstakmark.