20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (119)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Flm. (Magnús Kjartansson) :

Hæstv. forseti. Ég hlustaði með mikilli undrun á ræðu hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Ég hef að vísu fylgst með því undanfarin ár hvernig þessi hv. þm. hefur í sífellu verið að þróast í íhaldsátt, en að hann væri orðinn svo steinrunnið íhald eins og fram kom í ræðu hans úr þessum ræðustóli kom mér hreinlega á óvart. Hann sá ekkert annað en formsatriði. Hann talaði um millilandasamning um Norðurlandaráð eins og einhvern helgan dóm og yrði því að flytja till, sem fæli í sér að breyta þeim milliríkjasamningi. Sér er nú hver íhaldssemin! Millilandasamningurinn um Norðurlandaráð er samningur sem auðvelt er að breyta, og það skiptir máli að menn geri sér grein fyrir því, hvernig þeir vilja breyta honum. Að tala um hann sem eitthvað sem alls ekki megi breyta er svo steinrunnin íhaldssemi að það er átakanlegt til þess að vita að maðurinn, sem talar þetta, skuli telja sig vera sósíaldemókrata.

Það er auðvelt verk að breyta samningnum um Norðurlandaráð ef vilji er fyrir því meðal Norðurlandaþjóðanna. En til þess að samningnum verði breytt þurfa menn að sjálfsögðu að gera sér grein fyrir því, í hvaða átt þeir vilja breyta honum. Það er málefnið sem skiptir máli, en ekki formið. Það eru bara íhaldskurfar sem sjá ekki annað en form og skilja ekki málefnið.

Það er ekki rétt hjá þessum hv. þm., að engar óskir um þetta hafi komið fram af hálfu Grænlendinga. Ég hef rætt um þetta mál við forustumenn í samtökum ungra Grænlendinga sem berjast fyrir auknu sjálfstæði, og þeir hafa sagt mér að þetta væri þeim mikið áhugamál. Það hefur kannske ekki borið formlega á fjöru hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar, en ég veit þetta. Ég hef talað við þessa menn. Og við vitum ósköp vel hvernig stofnun Norðurlandaráðið er. Það er umræðustofnun. Hún hefur ekki vald. Hún gerir ályktanir. En það er komið undir ríkisstj. meðlimalandanna hvort þær taka tillit til þessara ályktana eða ekki. Þær hafa gert það í mörgum tilvikum, sem betur fer. Og ég tel þetta vera ákaflega mikilvæga stofnun. En einmitt af þessari ástæðu tel ég að þjóðernisminnihlutar á Norðurlöndum og þá fyrst og fremst Grænlendingar, því þeir búa við verra hlutskipti en nokkrir aðrir, eigi að hafa þarna fulltrúa sem geti gert grein fyrir grænlenskum málefnum og viðhorfum Grænlendinga, til þess að þeir þm., sem þarna sitja, fái vitneskju um það og séu ekki að blaðra um einhver formsatriði án þess að vera menn til að setja sig inn í raunveruleikann.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hafði vinsamlega afstöðu til Grænlendinga, en afstaða hennar var ákaflega þröng. Ég minnist á það í grg. með till., kemst svona að orði: „Danskir ráðamenn segja oft að vandamál Grænlendinga séu „danskt innanríkismál“, og er vonandi ógeðfellt fyrir alla Íslendinga að hlusta á slíkan málflutning.“ Ég hélt að þetta væri ógeðfellt fyrir alla Íslendinga. En hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir virðist telja þetta eðlilegt sjónarmið. Hv, þm. segir að slíkar till. ættu að koma frá Dönum, en ekki öðrum — (RH: Grænlendingum.) þeir eru hluti af Danaveldi eins og er — og að við kynnum að vera að efla úlfúð með því að flytja þessa till. Ég vil minna á okkar eigin sjálfstæðisbaráttu. Við vorum einu sinni hluti af Danaveldi einnig, og sem betur fór voru þá til aðilar sem hjálpuðu okkur í sjálfstæðisbaráttunni, norskir aðilar, þýskir aðilar, menntamenn víða um lönd. Þeir voru okkur ákaflega dýrmætur stuðningur í sjálfstæðisbaráttu okkar. Á sama hátt eigum við að hegða okkur gagnvart Grænlendingum sem búa við hlutskipti sem er algjör lega ósæmandi innan Norðurlanda.

Ég minntist á það áðan, að það eru fleiri minni hlutar á Norðurlöndum sem ég tel að ættu að fá beina aðild að Norðurlandaráði, og eins og hæstv. utanrrh. benti á er staða Sama sú, að þeir geta ekki komið málum sínum fram í Norðurlandaráði með aðstoð neinnar einstakrar þjóðar vegna þess að þeir búa í þremur ríkjum. En vissulega þurfa Samar að eiga fulltrúa sína í Norðurlandaráði og gera grein fyrir vandamálum sínum. Þar er um að ræða þjóð sem er trúlega skyldari okkur Íslendingum en margir gera sér grein fyrir. Þar er um að ræða þjóð sem býr að nokkru leyti enn þá við lífshætti og atvinnuhætti sem eru ákaflega fornir, og það væri mjög ánægjulegt verkefni að aðstoða Sama við að ná góðri fótfestu í nútímanum án þess að rjúfa allt of mikið tengsl sín við fortíðina. Ég held að þetta sé hægt hjá Sömum vegna þess að þeir hafa ekki orðið að þola sama átakanlega hlutskiptið og Grænlendingar hafa orðið að þola.

Hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði að þessi till. mín væri ekki formlega rétt. Formsatriðin vaða uppi hér í dag. Hún segir að það sé ekki formlega rétt að skora á ríkisstj. í þessu sambandi. Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, að Norðurlandaráð starfar því aðeins að ríkisstj. Norðurlanda taka fullan þátt í því starfi. Ráðh. mæta þar á fundum, þeir halda ræður, þeir hafa að vísu ekki atkvæðisrétt, enda mundi ekki starfa neitt Norðurlandaráð ef ríkisstj. teldu það ekki hluta af verkefnum sínum að sinna störfum Norðurlandaráðs. Menn mega ekki einblína svo ógnarlega á formsatriði að þeim sjáist yfir einföldustu hluti.

Fulltrúar ríkisstj. á Norðurlöndum, Íslendinga og annarra, hittast ákaflega oft í sambandi við Norðurlandaráð. Það eru meira að segja sérstakir ráðh. í öllum ríkisstj. Norðurlanda sem mynda sérstaka n. um þessa norrænu samvinnu, og að sjálfsögðu getur íslenskur ráðh. í þeirri n. og fleiri n. lagt fram sjónarmið Íslendinga hvað þetta snertir, þannig að það er ekkert óeðlilegt við það að skora á hæstv. ríkisstj. í þessu sambandi.

En mér þykir leiðinlegt að heyra þennan formsatriðatón, sem var viðurstyggilegur sérstaklega í máli hv. þm. Gylfa Þ. Gíslasonar. Við eigum að vera menn til þess að hugsa um Grænlendinga sem minni hluta sem á í miklum erfiðleikum og hefur verið leikinn ákaflega grátt. Við eigum að líta á það sem skyldu okkar að gera það sem við megum til þess að rétta hlut þeirra. Með þessum orðum mínum er ég ekki að efna til úlfúðar milli Norðurlanda, eins og hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir sagði áðan.

Hún minnti á að það hefði verið uppí úlfúð milli Dana og Íslendinga, og hún var vissulega ekki ástæðulaus. En sú úlfúð er nú horfin og hvers vegna? Vegna þess að við Íslendingar höfum náð rétti okkar. Eina ráðið til þess að kveða niður úlfúð, sem er uppi núna milli Grænlendinga og Dana, er að Grænlendingar nái rétti sínum. Landfræðilega má segja að Grænland sé hluti af Ameríku. En saga Grænlendinga hefur verið samtvinnuð sögu Norðurlandaríkjanna í næstum því 1000 ár. Ég er þeirrar skoðunar framtíð Grænlendinga sem sjálfstæðrar menningarþjóðar, grænlenskrar menningarþjóðar, væri best tryggð með því að halda sem bestum samskiptum við Norðurlönd. Vestan megin við þá eru risar sem eiga kannske erfitt með að skilja, hvað 40000 manna þjóðfélag þarf á að halda, eða virða menningu slíks minni hluta. Ég er þeirrar skoðunar, að Norðurlandaþjóðirnar séu líklegri til þess að geta aðstoðað Grænlendinga við að ná tökum á því verkefni að lifa í nútímaþjóðfélagi. Þess vegna er ég ekki að tala um það, að Grænlendingar eigi að kljúfa sig frá öðrum Norðurlandabúum, þvert á móti. Ég er að gera till. um að við reynum að halda þannig á málum, að Grænlendingar telji bæði eðlilegt og eðlilegt hagsmunamál að halda áfram að vinna með öðrum Norðurlandaþjóðum. En það getur því aðeins tekist að við tryggjum Grænlendingum fullt jafnrétti á þessum sviðum.