19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég skil ekki hver ástæða er fyrir því, að hv. þm. Halldór Blöndal reynir að snúa út úr þessari tillögu til samkomulags. Hann ætti að geta lesið út úr þessari till. nákvæmlega sama og allir aðrir, ef allt væri með felldu. Það segir í 1. mgr. í till., sem ég hef flutt, að verðlag á kjötvörum skuli lækka sem nemur niðurfellingu söluskatts, — verðlag á þessum vörum skuli lækka frá því, sem nú er, sem nemur niðurfellingu söluskatts, og það sé heimilt að framkvæma þessa lækkun, segir svo aftur í 2. mgr., með niðurgreiðslum, að sjálfsögðu með auknum niðurgreiðslum. Þetta held ég að þurfi ekkert að fara á milli mála, því að þetta stendur svo skýrt sem verið getur í fyrri mgr. og þarf því ekki að vera neinum vafa undirorpið.

Varðandi það atriði, að þetta beri að gera í fjárl., þá er það út af fyrir sig rétt, að auðvitað yrði að gera ráð fyrir því við endanlega afgreiðslu fjárl. og taka þetta með inn í dæmið. Ef þetta yrði samþykkt, þá tækju fjárl. breytingum sem því svaraði. Það er hins vegar alveg nauðsynlegt að taka skýrt fram, að þessi hugsanlega aukning niðurgreiðslna, ef sú leið yrði farin, ætti að beinast að þessu marki sérstaklega, að afnema söluskatt á kjöti.