19.12.1977
Efri deild: 42. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1507 í B-deild Alþingistíðinda. (1191)

130. mál, skyldusparnaður og ráðstafanir í ríkisfjármálum

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð vegna ummæla hv. 10. landsk. þm. og hv. 2. þm. Vestf.

Hv. 10, landsk. þm., Halldór Blöndal, lýsti sig andvígan skyldusparnaði og var till. minni sammála, en hann mundi þó greiða atkv. gegn sannfæringu sinni vegna þess mikla launaskriðs sem væri í gangi í þjóðfélaginu í dag. Ég held að hv. 10. landsk. þm. átti sig ekki á því, hvað er að ske.

Á bls. 4 í grg. með frv. er fjallað um fyrri álagningu skyldusparnaðar, 5% árin 1975 og 1976, en í lok þessarar grg. um 1. gr. kemur svo eftirfarandi: „Við fyrri álagningu skyldusparnaðar var kveðið á um útgáfu sérstakra skyldusparnaðarskírteina. Þetta fyrirkomulag hefur ekki gefið góða raun“ Og svo heldur áfram. Hv. þm. geta lesið það sjálfir, ef þeir hafa áhuga á því. En mergurinn málsins er sá, að við erum að komast í sama vitahring með þennan skyldusparnað og verðtryggðu spariskírteinin sem gefin voru út, rétt áður en gjalddagi er hverju sinni þarf að gefa út fleiri og meiri og hærri upphæðir í skyldusparnaði. Nú eru þessi 5%, sem voru 1976 og 1975, orðin að 10% til þess að geta staðið í skilum m.a. með greiðslur, sem skulu að eiga sér stað 1. febr. 1978. Því til viðbótar hefur ríkisstj., samkv. því sem hér stendur í grg., hugsað sér að ná inn nærfellt einum milljarði til ráðstöfunar fyrir ríkisstj, Við erum því að komast hér með skyldusparnaðinn í sama vítahring og við vorum í með verðtryggðu spariskírteinin áður. Ég er að vara við þessu.

Ég bjóst við því að hv. 2. þm. Vestf. féllist á þær brtt. sem hv. þm. Ragnar Arnalds hefur lagt fram varðandi flugmálin, enda lýsti hann sig honum sammála um þá till., en ætlar þó að greiða atkv. gegn henni vegna þess að honum finnst ekki nógu langt gengið, ekki farið nógu vítt í að gera till. sem gætu orðið til þess að fé rynni til flugmála. Mér finnst stangast þarna á — einhvers staðar verður að byrja. Það er ekki alltaf nauðsynlegt að byrja með því að gera heildartillögur. Hér er um að ræða einn lið af mörgu öðru. Ég er sammála hv. þm., en ég vona að hann fari frekar eftir sannfæringu sinni en því sem flokkurinn skipar honum.