20.10.1977
Sameinað þing: 7. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

13. mál, aðild Grænlendinga að Norðurlandaráði

Utanrrh. (Einar Ágústsson) :

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að bæta ýkjamiklu við það sem ég sagði hér í fyrri ræðu. Sú orðahöll, sem hv. 9. þm. Reykv. byggði, var bæði hátimbruð og glæsileg, eins og hans var von og vísa, enda er hann orðasmiður góður. En það var á henni sá galli, sem trúlega bagar hana, eins og margar slíkar byggingar, að hún var byggð á sandi, a.m.k. að því er snertir það sem hann vék að mér. Ég ætla bara að svara þeim tveimur atriðum, sem sérstaklega sneru að mínum málflutningi, og láta að öðru leyti málið fram hjá mér fara.

Ég hygg, að það hljóti að hafa verið misheyrn hjá hv. 9. þm. Reykv., ef hann telur sig hafa heyrt mig segja að Færeyingar og Álandseyingar ættu fulla aðild nú þegar að Norðurlandaráði. Hafi ég sagt það, — ég hef ekki skrifaða ræðu, þá er það mismæli og ég get tæpast trúað að ég hafi sagt það þannig að menn hafi ekki þá tekið eftir því mismæli, því ég lagði einmitt sérstaka áherslu á það í framhaldi af þessum aths., að Færeyingar hefðu nú uppi kröfur um að fá fulla aðild. Það mundu þeir tæpast gera ef þeir hefðu hana nú þegar, og meira að segja ég ætti að geta skilið það. Þess vegna held ég að þetta hljóti að vera byggt á misskilningi. Það kemur í ljós þegar við fáum útskriftina á morgun, þá mun ég ganga úr skugga um það, hvort ég hef mismælt mig hér eða ekki. Það var a.m.k. ekki meining mín að halda því fram, og ég hygg að það hafi komið fram í framhaldi ræðunnar að það gat tæpast verið.

Þá vil ég enn fremur mótmæla því, að það sé byggt á misskilningi hjá mér að vilja að þessi till. fái jákvæðar undirtektir hér, því allt það, sem hv. 9. þm. Reykv. var að tala um að þyrfti að koma til þess að Grænlendingar gætu fengið þá aðild sem hér er um rætt, felst innan þeirrar till. sem hér er til umr. Till. er svona. Hafi menn ekki lesið bana, þá er efni hennar það, að beita sér fyrir því að Grænlendingar fái fulla aðild að Norðurlandaráði og velji fulltrúa sína sjálfir. Það er ekki skilgreint hér hvað það er sem þarf til þess að gera það. Það er sagt að það þurfi að skapa þau skilyrði að þetta sé hægt, og ég held að ég hafi áreiðanlega sagt það í máli mínu hér áðan, að áður en þetta gæti orðið þyrftu Danir að gera stjórnskipulegar breytingar í samskiptum sínum við Grænlendinga — og þess er þörf. Það er rétt, ef þeir eiga að fá þó ekki sé nema takmarkaða aðild, hvað þá heldur fulla, þá þarf að gera þarna stjórnskipulegar breytingar. En ég tók þessa till. fyrst og fremst þannig, að Alþingi Íslendinga vildi lýsa yfir vilja sínum til þess að Grænlendingar fengju þá aðstöðu, sem hér er um að tefla, og að þær ráðstafanir, hvort sem þær eru stjórnskipulegar eða þá að það eru fundarsköp og starfsreglur Norðurlandaráðs sem þarf að breyta, að þá verði þeim breytt á þann veg að þessi tilgangur geti náðst. Það var a.m.k. meining mín með stuðningi við þessa tillögu.