19.12.1977
Efri deild: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1514 í B-deild Alþingistíðinda. (1208)

98. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Eins og kom fram hjá hv. frsm. sat ég hjá við afgreiðslu málsins í n. og mun gera það einnig hér. Ég geri það vegna þess að ég óttast að með þessu leyfi sé verið að veita fordæmi sem geti orðið varhugavert. Ég geri mér að vísu grein fyrir því, að loðnan mun ekki ofveidd nú og æskilegt er að fá meira af loðnu á land til vinnslu en við náum með okkar skipum eins og er. Ég hygg þó að óðum nálgist þau mörk, að einnig þurfi að gæta sóknar í loðnuna. Í því sambandi verðum við að sjálfsögðu að gæta þess vandlega, að réttar til veiða á loðnu njóti eingöngu skip sem íslensk eru að öllu leyti og hér skráð.

Þetta skip, sem hér er til umr., er að hluta í eigu Íslendings og með íslenskri áhöfn, en er skráð erlendis. Það hefur þess vegna leyfi til veiða t.d. innan landa Efnahagsbandalagsins og jafnvel fleiri landa, sem íslensk skip hafa ekki. Þetta skip nýtur því sérstakra forréttinda. Ég get vel hugsað mér, að önnur svipuð tilfelli geti komið upp, skip í erlendri eigu með íslenskri áhöfn sæki hér eftir veiðiheimildum, og það sýnist mér vera fordæmi sem mjög beri að varast.