19.12.1977
Efri deild: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1515 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

117. mál, íslenskur iðnaður

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 139 að flytja hér frv. til l. um aðgerðir til stuðnings íslenskum iðnaði. Það er aðalefni þessa frv., að tollalækkunum, sem taka eiga gildi um n.k. áramót, um áramótin 1978–1979 og um áramótin 1979–1980, verði frestað um sinn meðan leitað er eftir því, að aðlögunartími íslensks iðnaðar gagnvart samkeppni frá EFTA- og EBE-löndum verði framlengdur, í öðru lagi, að þeim tolltekjum, sem af samþykkt þessa frv. leiðir, verði varið til að halda niðrí innlendu verðlagi og til að létta útgjöldum af innlendri iðnaðarframleiðslu, og í þriðja lagi, að veitt verði nauðsynleg rekstrarlán til iðnaðarins eftir nánari reglum sem ríkisstj. setur, þannig að út á alla innlenda framleiðslu, svo fremi að unnt sé að sýna fram á örugga sölu innanlands eða utan, fáist nauðsynleg rekstrarlán.

Aðild Íslands að EFTA var ákveðin haustið 1969. 41/2 ári seinna var gerður viðbótarsamningur við Efnahagsbandalag Evrópu þess efnis, að gagnkvæmar tollalækkanir ættu sér stað. Það skal strax minnt á, að Alþb. var andvígt aðild Íslands að EFTA, þegar sá samningur var gerður árið 1969, og varaði mjög eindregið við afleiðingum þess samnings fyrir íslenskan iðnað. Hins vegar samþykkti Alþb, viðbótarsamninginn við Efnahagsbandalag Evrópu 41/2 ári síðar enda þótt um áþekka samninga væri að ræða, einfaldlega vegna þess að það var sjónarmið okkar, að úr því að ákveðið hefði verið að erlend samkeppni yrði opnuð á innlendan iðnað, þá hreytti það ekki ýkjamiklu hvort um væri að ræða samkeppni frá þremur þjóðum eða tíu þjóðum eða tólf þjóðum og það væri þá betra að íslenskur iðnaður fengi aukna markaðsmöguleika á stærra svæði, ef samkeppnin við okkar agnarsmáu þjóð hefði á annað borð verið opnuð, — það breytti ekki svo ýkjamiklu þótt eitthvað bættist við af samkeppnisaðilum erlendis, hitt skipti meira máli, að okkar litli iðnaður fengi þá stærra svæði til athafna á erlendum markaði, því að samkeppnin eykst ekki við það að samningslöndunum fjölgar, en við það aukast útflutningsmöguleikarnir.

Haustið 1976, þegar fjórar tollalækkanir voru framundan: 1977, 1978, 1979 og 1980, komu í fyrsta skipti fram eindregin andmæli af hálfu íslenskra iðnrekenda við því, að svo héldi fram sem ráðgert var, og segja má að andmæli íslenskra iðnrekenda gegn áframhaldandi tollalækkunum hafi farið harðnandi ár frá ári. Hins vegar hefur Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna nýlega varað mjög eindregið við því, að frestað verði áformuðum tollalækkunum. Ég held að þessi afstaða einstakra atvinnuvega til þessara væntanlegu aðgerða sé nokkuð dæmigerð um eðli þessa máls. Enginn vafi er á því, að vissar greinar fiskiðnaðarins hafa ákveðinn hagnað af aðild Íslands að EFTA-samningnum og samningnum við Efnahagsbandalagið og sá hagnaður nær reyndar yfir útflutningsiðnaðinn almennt. Hitt er ljóst, að um mjög ískyggilegt tap er að ræða fyrir flestan annan iðnað og þá einkum iðnað fyrir innlendan markað.

Ég vil í þessu sambandi rifja upp bréfaviðskipti sem áttu sér stað milli formanns Félags ísl. iðnrekenda, Davíðs Schevings Thorsteinssonar, á s.l. ári og ráðuneytisstjóra viðskrn., en þessi bréfaskipti áttu sér stað í okt. og nóv. fyrir rúmu einu ári. Í bréfi formanns Félags ísl. iðnrekenda til viðskrn. voru ítrekaðar óskir íslenskra iðnrekenda um framlengingu á aðlögunartímabilinu.

Í svari ráðuneytisstjórans til formanns Félags ísl. iðnrekenda segir ráðuneytisstjórinn m.a., með leyfi forseta, að hægt sé að fá samþykki EFTA fyrir því að framlengja aðlögunartímann fyrir ákveðnar vörutegundir, ef sýnt sé fram á með skýrum rökum og upplýsingum að tollalækkanir hefðu valdið miklum samdrætti, atvinnuleysi eða gjaldþroti í viðkomandi iðngrein sem við teldum æskilegt að vernda. Þessu bréfi svaraði formaður Félags ísl. iðnrekenda með því að vara við því, eins og segir í bréfinu, „að beðið sé eftir því að tollalækkanir valdi miklum samdrætti, atvinnuleysi eða gjaldþroti í viðkomandi iðngrein“, og bendir réttilega á, eins og segir í bréfinu, að hyggilegt sé að byrgja brunninn áður en barnið sé dottið ofan í, frekar en eftir á, eins og hafi komið fram í bréfi ráðuneytisstjórans.

Í bréfi formanns Félags ísl. iðnrekenda koma fram þær athyglisverðu upplýsingar, að útflutningur almenns iðnaðar á Íslandi til EFTA- og Efnahagsbandalagslanda hafi aðeins aukist um 577 millj. kr. milli áranna 1974 og 1975, á sama tíma og innflutningur frá sömu ríkjum hafi aukist um 6000 millj. rúmar. Sem sagt, iðnfyrirtæki aðildarríkja EFTA og Efnahagsbandalagsins hafa augljóslega hagnast býsna vel á EFTA- aðildinni og samningum okkar við Efnahagsbandalagið meðan íslenskir iðnrekendur og íslenskur iðnaður hafa bersýnilega ekki hagnast að sama skapi. Þetta er vafalaust meginkjarni þess máls sem hér um ræðir, að innlendur iðnaður hefur ekki haft þann hag af aðildinni að þessum tveimur bandalögum og hann er bersýnilega enn vanbúinn að mæta óheftri samkeppni innfluttra vara og margar iðngreinar eru í verulegri hættu þegar tollverndin hverfur með öllu. Það er því hersýnilegt að íslenskur iðnaður þarf lengri aðlögunartíma og hann býr ekki enn við þau starfsskilyrði, að hann standist erlenda samkeppni framleiðenda sem standa að flestu leyti miklu betur að vígi.

Það hefur verið fullyrt að till. sú, sem hér hefur verið lögð fram, og aðrar slíkar till., séu brot á samningum Íslendinga við EFTA og það muni hafa alvarlegar afleiðingar ef Íslendingar reyni að knýja fram framlengingu aðlögunartímans. Ég vil sérstaklega gera þetta atriði að umtalsefni, vegna þess að flest bendir til að hér sé um mjög augljósa og alvarlega blekkingu að ræða, það mat, sem menn leggja hér á, sé rangt. Þetta hafa forustumenn iðnrekenda sérstaklega lagt áherslu á að sýna fram á, og í því sambandi hafa þeir bent mér á að hægt sé að sýna fram á að ríki Efnahagsbandalagsins og EFTA hafi í frammi stórfelldar ráðstafanir til þess að styrkja iðnað sinn og að þessar ráðstafanir hljóti að teljast brot á Efnahagsbandalagssamningunum og EFTA-samningnum, ef ströngustu túlkun þessara samninga sé fylgt.

Ég þykist vita að mönnum hafi runnið kalt vatn milli skinns og hörunds þegar þeir sáu mig ganga hér til pontu með þykka doðranta mér við hlið á báðar hendur, og lái ég það engum, vegna þess að engum þykir lakara en mér að sitja undir mjög löngum ræðum. En þess vegna hef ég haft þessa doðranta með mér í ræðustól, að ég býð mönnum að taka þá með sér til heimanáms ef þeir verða andvaka um nætur, því að í þessum doðröntum öllum eru fólgnar upplýsingar um það sem aðrar þjóðir gera til styrktar sínum iðnaði, og þær reglur allar, sem fólgnar eru í doðröntum þessum, mundu að sjálfsögðu teljast brot á EFTA-samningum, ef ströngustu túlkun þessara samninga væri fylgt.

Ég ætla að fría hv. þm. Ed. við því að lesa upp úr þessum gögnum, þó að margt merkilegt komi fram í þessum skjölum, en aðeins leyfa mér að nefna eitt dæmi af þeim hundruðum dæma sem finna má í þessum gögnum um stuðning erlendra ríkja við iðnað sinn. Það er dæmi sem tekið er beint frá Svíum.

Staðreyndin er sú, að Svíar greiða í beinan styrk til fjölmargra iðngreina 15 kr. sænskar eða 650 kr. íslenskar fyrir hvern unninn tíma í viðkomandi iðnaði. Ástæðan fyrir þessum greiðslum er auðvitað engin önnur en sú, að þeir telja óhjákvæmilegt að beita slíkum greiðslum sem nokkurs konar verndartolli af nýrri gerð sem geri þeim fært að standast samkeppni við ódýrari erlendan innflutning.

Mér er sagt að bókakostur sá, sem ég hef tekið með mér hér í pontu, sé 15 kg að þyngd, og ég hef hér aðeins nefnt eitt úrræði erlendum iðnaði til styrktar. Ég þykist vita að um það efni sé aðeins fjallað á tiltölulega fáum blaðsíðum í þessum bunkum sem ég er með, þannig að menn geta séð að þetta eina dæmi, sem ég nefni um það, hvernig farið er í kringum EFTA-reglurnar svonefndu, er sennilega aðeins örlítill partur af þeim skógi öllum sem umlykur EFTA-reglur og ræktaður hefur verið upp til þess að fara í kringum þær. Og að halda því fram með strangri lagatúlkun, að við Íslendingar megum þá ekki doka við og fresta hörðustu ákvæðum EFTA-aðildar í þeim tilgangi að vernda okkar iðnað, það er auðvitað ekkert annað en sjálfsmorðsviðleitni íslenskra embættismanna gagnvart eigin iðnaði, fáránlegur kredduboðskapur, sem þm. gæddir hæfilegri heilbrigðri skynsemi ættu að kveða niður.

Í grg. frv. er vikið að fjárhagslegum afleiðingum af samþykkt frv., og þar er, í stuttu máli sagt, einfaldlega bent á að áformaðar tollalækkanir nemi á núverandi verðlagi um 900 millj. kr. á ári. Fjárhagslegar afleiðingar af samþykkt frv. eru því þær, að á fyrsta árinu sparast 900 millj., öðru árinu 1800 millj, og þriðja árinu 2700 millj., eða á þremur árum 5400 millj. Og eins og áður er sagt er það hugmynd okkar Alþb: manna, að fé þetta verði notað fyrst og fremst í þeim tilgangi að halda niðri innlendu verðlagi og um leið til þess að létta útgjöldum af innlendri iðnaðarframleiðslu.

Rétt er að minna á í framhaldi af þessu, að fjöldamörg önnur vandamál há innlendum iðnaði en hörð erlend samkeppni. Í fyrsta lagi er þar um að ræða mjög hátt verð fyrir orku á sama tíma og erlend stóriðja í landinu nýtur vildarkjara. Í öðru lagi er það staðreynd, að vextir af stofn- og rekstrarlánum eru margfalt hærri hjá innlendum iðnaði en hjá sambærilegum fyrirtækjum í öðrum löndum. Þriðja stórmálið er svo það, að rekstrarlán út á innlenda iðnaðarvöru eru enn mjög af skornum skammti og að því víkur 3. gr. þessa frv., þ.e.a.s. að taka af skarið um það, að þessi atvinnuvegur fái þau rekstrarlán sem hann sannarlega að flestra dómi þarf á að halda ef um á að vera nokkurn veginn eðlilegan rekstur.

Ég held að það sé a.m.k. áratugur liðinn síðan því var lýst mjög hátíðlega yfir af forustumönnum þáv. stjórnarflokka, að innlendum iðnaði yrðu veitt viðunandi rekstrarlán. Af því varð ekki á þeim tíma, þ.e.a.s. í stjórnartíð viðreisnarstjórnarinnar sálugu. Á vinstristjórnartímanum var þetta máf tekið sérstaklega upp með lögum nr. 47 1972, um verðtryggingu iðnrekstrarlána. Reyndin varð hins vegar sú, að þau lög komu ekki að því gagni sem vonast var til vegna þess að baukakerfið sýndi óeðlilega andstöðu og tregðu, og aðeins lítill hluti innlends iðnaðar hefur síðan þetta frv. varð að lögum notið þeirra réttinda sem var þó ætlunin að iðnaðurinn fengi með samþykkt þess frv. Þess vegna er einfaldlega lagt til í þessu frv., að því verði slegið föstu í eitt skipti fyrir öll, að iðnaður á Íslandi, sem getur talið sig sannanlega hafa örugga sölu innanlands eða utan á framleiðsluvörum sínum, fái þau rekstrarlán sem eðlileg verða talin, en hann sé ekki settur til hliðar sem einhvers konar annars flokks atvinnuvegur sem aðeins njóti rekstrarlána í undantekningartilvikum.

Menn segja kannske að það sé nú hægara um að tala en í að komast og hvar eigi að taka fjármagnið til þessara hluta og hvort ekki sé verið að ausa olíu á verðbólgubálið með því að gera kröfur af þessu tagi. Ég hef því reynt að gera þessari hlið málsins nokkur skil í grg. frv., þar sem víkið er að hugsanlegri fjármögnun rekstrarlána. Á það er bent þar, að iðnaðurinn nýtur tiltölulega litilla lána eða nánar tiltekið aðeins 2394 millj. kr. lána af heildartölu lána sem er upp á 22 þús. millj. kr. rúmlega, og til samanburðar við þessa tölu er á það bent, að íslenska ríkið hefur tekið að láni í Seðlabankanum á undanförnum þremur árum um 11 þús. millj. kr. Það er ekki minnsti vafi á því, að ef aðeins helmingur þess fjár, sem ríkisvaldið hefur tekið til sinna rekstrarlána gagnstætt lögum og gagnstætt allri hefð, hefði gengið til rekstrarlána í þágu atvinnuveganna og þá sérstaklega þeirra atvinnuvega sem verst eru settir, landbúnaðar og iðnaðar, þá væri vandinn, sem hér er um að ræða, fyrir löngu leystur. Ég tel ekki aðeins sjálfsagt, heldur og óhjákvæmilegt og raunar augljósa lagalega skyldu, að Seðlabankinn innheimti skuldir sínar hjá ríkisvaldinu tafarlaust, og tel, að þegar þær 11 þús. millj. kr. koma til skila, vonandi á næstu mánuðum eða missirum, þá megi heita víst að nægilegt fjármagn verði til fjármögnunar rekstrarlána fyrir þá tvo atvinnuvegi, sem verst eru settir í þessu efni, þ.e. iðnað og landbúnað.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. vísað til hv. iðnn.