19.12.1977
Efri deild: 43. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1519 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

117. mál, íslenskur iðnaður

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég get lýst stuðningi mínum við fjölmargt sem hv. frsm, sagði í ræðu sinni áðan. Vafalaust er að ekki hefur tekist að efna þau hin mörgu loforð sem íslenskum iðnaði voru gefin þegar við gengum í EFTA. Einn glöggur maður sagði þá hér á þingi, að við inngöngu í EFTA yrði nauðsynlegt að breyta um búskaparhætti. Ég hygg að það hafi verið orð rétt mælt. En því miður hefur þetta ekki tekist og er of langt mál að fara að ræða það hér, hvað því hefur valdið.

Íslenskur iðnaður hefur tvímælalaust orðið undir í samkeppni við erlendan innflutning og hefur ekki tekist að hasla sér svo völl á erlendum markaði sem að var stefnt. Ég vil ekki flytja langt mál um þetta nú, en vil segja að ég er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegi muni verða að grípa til ýmissa ráðstafana og það fljótlega, ef rétta á hlut íslensks iðnaðar í þessari vaxandi samkeppni, sem enn eykst nú eftir áramótin ef tollar verða felldir niður samkv. þeim samningum, sem gerðir hafa verið.

Ég hef lagt töluverða áherslu á að kynna mér þessi mál upp á síðkastið. M.a. er ein af bókunum, sem hv. frsm. er með, frá mér komin og mikill fróðleikur í henni. Ég vil hins vegar láta það koma fram, að af kynnum mínum af þessum málum er ég í vafa um að rétta leiðin sé að fresta með löggjöf þessum tollalækkunum. Mér sýnist ekki öruggt að það muni ekki valda okkur verulegum vandræðum, jafnvel í sambandi við útflutning sjávarafurða, og á ég þar við bókun 6 hjá Efnahagsbandalaginu. Þetta þarf að liggja fyrir allvel kannað áður en slík ákvörðun er tekin. Einnig get ég tekið undir það, sem komið hefur fram í umr. um þetta mál, að það er ávallt mjög hvimleitt að standa ekki við samninga sem gerðir hafa verið, Mér sýnist hins vegar að í þeim upplýsingum, sem m.a. hv. frsm. er með í sínum 15 kg, geti verið ýmsar hugmyndir sem megi framkvæma.

Það er rétt, sem hv. ræðumaður sagði, að aðrar þjóðir hafa farið fjölmargar krókaleiðir til að bæta samkeppnisaðstöðu iðnaðar síns. Hann nefndi dæmi frá Svíþjóð um sérstakan styrk á hvern vinnandi mann í iðnaði. Svipað er gert í Noregi, Þar er veittur mjög mikill styrkur til iðnaðar með sérstakri löggjöf frá norska Stórþinginu, og mun sá styrkur, ef færður er á núverandi gengi og miðað við fólksfjölda yfir á íslenskar aðstæður, nema um 4 milljörðum kr. á ári, sem sagt það samsvarar 4 milljörðum ísl. kr. á ári sú aðstoð sem Norðmenn veita sinum iðnaði. Einnig hefur komið fram, t.d. á fundum hjá Fríverslunarbandalagi Evrópu upp á síðkastið, að viðurkennt er að reglur um jöfnun samkeppnisaðstöðu hafa verið þverbrotnar með ýmsum slíkum aðferðum og ýmissi slíkri aðstoð, þótt hún sé falin undir aðgerðum viðkomandi stjórnvalda til þess að tryggja örugga atvinnu í landi sínu. Ég tel lifað þetta mál beri að skoða mjög vandlega. Fyrir liggja miklar upplýsingar, sem auðvelt á að vera að vinna úr, m.a. vegna þess að íslenskir iðnrekendur hafa þegar lagt í úrvinnslu þessara upplýsinga mjög mikla vinnu sem liggur fyrir vel fram sett og aðgengileg. Ég vil lýsa því hér, að ég treysti því, að í þeirri athugun og aðgerðum vegna allra íslenskra atvinnuvega, sem boðað hefur verið að sinnt muni verða af kappi nú í þinghléi, verði einnig þessi mál íslensks iðnaðar vandlega skoðuð.

Ég vil í þessu sambandi benda á jöfnunargjald sem tíðkast víða erlendis, m.a. í Finnlandi, og hefur ekki verið talið brot á reglum fríverslunarbandalaganna. Mér sýnist vel koma til greina að leggja slíkt gjald á hér. Æskilegt hefði verið að það gjald væri á lagt um leið og tollalækkun kemur til framkvæmda, og raunar mjög leitt að svo skuli ekki geta orðið. Ég vil láta þá skoðun mína koma hér fram. Tollalækkunin mundi leiða til ákveðinnar lækkunar á verði innfluttrar vöru, en jöfnunargjaldið síðan aftur til hækkunar. Ég held að það sé að öllu leyti skynsamlegri og eðlilegri ráðstöfun að þetta tvennt haldist í hendur. Slíkt jöfnunargjald má síðan nota til að bæta aðstöðu íslensks iðnaðar, og raunar liggja fyrir till, frá íslenskum iðnrekendum einmitt um það atriði málsins.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, stóð upp fyrst og fremst til að lýsa áhyggjum mínum einnig um þá þróun sem orðið hefur gagnvart íslenskum iðnaði. Það er ákaflega alvarleg þróun og mun leiða til vaxandi vandræða ef ekki verður fljótlega eitthvað að gert.

Ég get ekki fylgt setningu laga um frestun tolla, eins og lagt er til af hv. flm., en mun hins vegar leggja áherslu á og mun beita mér fyrir, eins og ég get, ýmsum öðrum aðgerðum til styrktar íslenskum iðnaði í vaxandi samkeppni.