19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1526 í B-deild Alþingistíðinda. (1226)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Ellert B. Schram:

Hæstv, forseti. Lög um rannsóknarlögreglu ríkisins voru afgreidd á síðasta þingi. Þá hafði frv. til l. um þessa stofnun legið fyrir á tveimur þingum og ljóst var að mikill vilji og áhugi var á því, að þetta embætti yrði sett upp og gerðar yrðu breytingar á lögreglumálum í þá átt sem frv. gerði ráð fyrir. Hins vegar var það eftir nokkurn þæfing sem tókst að ná samkomulagi um frv. eins og það var endanlega afgreitt á síðasta þingi. Þar á meðal var ákvæði í 1. gr. þeirra laga þar sem tekið var fram, að rannsóknarlögregla ríkisins hefði aðsetur í Reykjavík.

Það var aðeins stuttu eftir að þetta frv. hafði verið samþ. hér á hinu háa Alþ. og afgreitt sem lög að fréttir bárust um það, að undir forustu dómsmrn. væri ætlunin að festa kaup á húsnæði í byggðarlagi utan Reykjavíkur. Ég skal ekki fara leynt með þá skoðun mína, að ég taldi þetta vera óeðlileg vinnubrögð, að ganga til framkvæmda á lögum, sem Alþ. var nýbúið að samþ., á þann veg að virða þetta ákvæði algjörlega að vettugi, ákvæði um aðsetur þessarar nýju stofnunar.

Það má vera að til þess liggi einhver rök að festa kaup á húsnæði í Kópavogi og að setja stofnunina þar niður. En ég hefði haldið að það hefði átt að taka tillit til og virða þetta ótvíræða lagaákvæði og gera nokkra tilraun til þess að útvega rannsóknarlögreglu ríkisins húsnæði og aðsetur í Reykjavík, eins og lögin gerðu ráð fyrir.

Það hefur komið fram í málflutningi þeirra, sem þurfa að starfa við þessa stofnun og hefja hana til vegs og virðingar, að af þessari hreytingu geti orðið ýmislegt óhagræði. Sannleikurinn er sá, að það húsnæði, sem nú er ætlunin að kaupa og er búið að ganga frá með þeim fyrirvara að Alþ. samþykki það, það húsnæði er í allhráu iðnaðarhverfi í Kópavogi, svo ekki sé meira sagt, og vissir erfiðleikar á því að starfa þar og fá fólk þangað til yfirheyrslu eða upplýsinga.

Ég held því að það sé óhjákvæmilegt fyrir þá n., sem fær frv. til athugunar, að spyrjast fyrir um hvernig að þessu máli var staðið, hvort auglýst hafi verið eftir húsnæði í Reykjavík, af hverju húsnæðið í lögreglustöðinni í Reykjavík sé ekki notað til þess arna, einkum þegar það er haft í huga að hér er vonandi um að ræða bráðabirgðahúsnæði þar sem Alþ. var nú þegar búið að samþykkja að byggt skuli dómhús hér í Reykjavík á allra næstu árum. Upplýst er af hæstv. ráðh., að húsnæðið kosti 115 millj. kr. og það þurfi að verja tæplega 100 millj. í breytingar á því til þess að það sé nothæft. Ég skal ekki draga í efa að hér geti verið um hagkvæm kaup að ræða. Engu að síður eru þetta allverulegar upphæðir og spurningin sú, hvort það hefði nýst betur með kaupum eða leigu á húsnæði í Reykjavík á þeim stað þar sem búið var að ákveða með lögum að rannsóknarlögreglan hefði aðsetur. Þetta er rétt að athuga, og ég held að n. þurfi meira en einn dag til að fá þessar upplýsingar.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því í þessu frv. að skipuð sé staða vararannsóknarlögreglustjóra. Hef ég í sjálfu sér ekkert við það að athuga, enda eru það tilmæli frá starfsmönnum rannsóknarlögreglunnar að þessi breyting sé gerð á. Í því sambandi held ég að sé líka ástæða til að athuga hvort ekki sé rétt að hafa sama hátt á varðandi þetta embætti og mörg önnur hliðstæð, þ.e.a.s. að í staðinn fyrir að fulltrúar séu kallaðir fulltrúar og hafi þann titil, þá verði á því breyting, eins og t.d. fulltrúar borgardómara í Reykjavík fengu þá breytingu fram að þeir heita nú borgardómarar, yfirmaður þeirra yfirborgardómari, sömuleiðis hjá sakadómi, þá er þar starfandi yfirsakadómari og svo hans menn sakadómarar, þá verði þeir rannsóknarlögreglustjórar, en ekki fulltrúar rannsóknarlögreglustjóra. Mér finnst eðlilegt að það sé athugað, hvort þeir lögfræðingar, sem starfa hjá rannsóknarlögreglustjóra, fái þá ekki annan titil en þeir hafa nú. En þetta er nú til athugunar líka, og skal ég ekki tjá mig um það frekar á þessu stigi málsins. Það er rétt að kanna það mál til hlítar. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni þar sem ég á sæti í þeirri n. sem fær þetta frv. til meðferðar.