19.12.1977
Neðri deild: 39. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

87. mál, rannsóknarlögregla ríkisins

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég skal ekki flytja langt mál um þetta efni, það er augljóst og skýrt.

Í fyrsta lagi er það um aðalstarfsstöð rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég hygg að það sé erfitt að kveða á um það með fullri vissu, hvar hún sé endilega best staðsett á þessu Stór-Reykjavíkursvæði sem hún á að starfa á. En enginn vafi er á því, að sú staðsetning, sem þarna er um að ræða, hefur ýmsa kosti, þ. á m. þann kost, að þessi staður liggur við eina af hraðbrautunum, sem liggja í gegnum þetta svæði. Þegar af þeirri ástæðu virðist staðsetningin æskileg.

Varðandi 2. gr. frv., sem varðar skipun yfirmanns rannsóknarlögreglu ríkisins og vararannsóknarlögreglustjóra, þá er hér fyrst og fremst um það að ræða, að skipaður sé vararaunsóknarlögreglustjóri, í stað þess að það þurfi að gera það hverju sinni ef yfirmaður rannsóknarlögreglunnar forfallast af einhverjum ástæðum. Það þarf að starfa hratt í þessum málum og þess vegna eðlilegt að ganga þannig frá þessu embætti, að formsatriði tefji ekki fyrir eðlilegum og fljótum vinnubrögðum þegar á þarf að halda.

En það er miklu fremur málsmeðferðin sem mig langar til að minnast á. Ég á ekki sæti í hv. allshn., en það hefur ekki farið fram hjá mér, að hv. formaður allshn. hefur verið lítill áhugamaður um að hraða þessu máli, ef litið er á sögu málsins og meðferð þess frá byrjun til enda. Og ég vildi aðeins láta það í ljós, að ég sé ekki betur en hann hafi verulegan vilja á því að þvælast fyrir málinu eins og hann frekast getur án þess að verða sér til skammar sem formaður allshn.