19.12.1977
Neðri deild: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1538 í B-deild Alþingistíðinda. (1246)

113. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Ég vil aðeins láta þess getið í sambandi við afgreiðslu málsins í iðnn. Nd., að það var aðeins haldinn einn fundur um málið og þar mættu ráðuneytisstjóri iðnrn. og framkvæmdastjóri Rafmagnsveitna ríkisins. Ég spurði þá sérstaklega um þá skiptingu sem fram kemur í frv., að 20% af verðjöfnunargjaldi eigi að renna til Orkubús Vestfjarða, og þeir gátu hvorugur gert neina grein fyrir hvernig þessi prósenta væri fengin. Þarna er því, eins og ég gat um í ræðu minni áðan, um algjört fálm í myrkri að ræða.