19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1539 í B-deild Alþingistíðinda. (1256)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þetta frv. er flutt að beiðni fulltrúa í Verðlagsráði sjávarútvegsins, en þeir hafa sent sjútvrh. bréf með tillögu um þessa breytingu á lögum um löndun á loðnu til bræðslu. Undir það bréf rita allir aðilar Verðlagsráðsins: fulltrúar sjómanna, undirmanna og yfirmanna, fulltrúar verkalýðs og fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna.

Það má segja að þessi breyting á lögum um löndun á loðnu til bræðslu sé mjög í samræmi við það frv. sem flutt var í fyrra, en náði aðeins til stærri skipanna og náði ekki fram að ganga. Nú hafa þessir aðilar komið sér saman um þessa breytingu, og við í sjútvrn. sjáum ekki ástæðu til annars en að verða við heiðni þeirra.

Frá því að lög um löndun á loðnu tóku fyrst gildi í byrjun árs 1973 hefur heimild loðnunefndar til þess að stöðva löndun í einstakar verksmiðjur nánast takmarkast við það að tilkynna flotanum, hvenær móttökugeta einstakra verksmiðja væri þrotin og hvenær móttaka gæti hafist aftur. En með þessari breytingu á lögunum er loðnunefnd gefin heimild til þess að stöðva löndun í verksmiðjur sem næstar eru veiðisvæðum hverju sinni, enda þótt þróarrými sé fyrir hendi hjá þeim en láta veiðiskip þess í stað flytja loðnu til annarra verksmiðja sem annars væru verkefnalausar.

Tilgangurinn með þessari breytingu laganna er að stuðla að því, að vinnslugeta verksmiðja í landinu verði nýtt betur en verið hefur undanfarin ár, og auka þannig aflamöguleika loðnuflotans í heild yfir vertíðina. En reynslan á undanförnum árum og þá ekki síst á síðustu vetrarvertíð sýnir að þær verksmiðjur, sem næstar eru veiðisvæðum hverju sinni, yfirfyllast, en aðrar verksmiðjur bíða algjörlega verkefnalausar.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokinni þessari umr. leggja til að málinu verði vísað til sjútvn.