19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Karvel Pálmason:

Hæstv. forseti. Strax við 1. umr. um þetta mál hér í d. lýsti ég andstöðu minni við þá grein frv. sem gerir ráð fyrir því að skylda lífeyrissjóði í landinu til að ráðstafa 40% af ráðstöfunarfé sínu til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum. Ég þarf því í raun og veru ekki miklu við það að bæta, sem ég þá sagði, og með hliðsjón af þeirri afstöðu minni lýsi ég auðvitað samþykki við þá till.

minni hl. fjh: og viðskn. sem gerir ráð fyrir að fella þetta ákvæði burt úr frv. En vegna þess, sem hefur borið á góma í umr. í dag, langar mig til þess að segja örfá orð.

Þegar ljóst var að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að halda á málinu með þessum hætti, þá mætti það mikilli andspyrnu. Því var harðlega mótmælt hér við 1. umr. málsins, og ég var satt að segja að vona, með hliðsjón af því sem áður hefur gerst, að þess mætti vænta að hæstv. ríkisstj. sæi að sér og felldi þetta ákvæði frv. burt. Það hefur komið fram í þessum umr., að þeir aðilar, sem hér eiga hlut að máli, þ.e.a.s. framkvæmdastjórn SAL og aðrir þeir lífeyrissjóðir sem koma til með að falla undir þetta ákvæði, hafa mótmælt því, að nú skuli eiga með lagaskyldu að þvinga fram ákvörðun eins og hér er gert ráð fyrir. Bæði hæstv. forsrh. og einnig hv. þm. Tómas Árnason létu að því liggja eða töldu það í raun og veru fyrst og fremst rök með þessu ákvæði í frv., að hér ætti fyrst og fremst að ávaxta fé fyrir lífeyrissjóðina þannig að þeir gætu gegnt sínu áætlunarverki. Þetta er auðvitað hin mesta firra. Það, sem hér er að gerast, er fyrst og fremst það, að ríkissjóður ætlar að taka traustataki fjármuni sem hann í raun og veru hefur ekkert yfir að segja. Það er þetta, sem er að gerast, en ekki er um að ræða sérstaka umbyggju fyrir lífeyrissjóðunum eða sjóðfélögum þeirra.

Það liggur fyrir og hefur margoft verið upplýst, að með frjálsu samkomulagi hafa lífeyrissjóðirnir keypt verðtryggð skuldabréf fyrir um sem svarar 20% af ráðstöfunarfé á undanförnum árum. Það hefur verið gert samkv. sérstöku samkomulagi sem komst á við gerð kjarasamninga. Raunar hafa lífeyrissjóðirnir gert nokkru meira en þetta, þannig að það liggur fyrir að lífeyrissjóðirnir í landinu hafa verið og eru til viðtals um að ávaxta fé með þessum hætti að því marki sem þeir telja sér fært. Hitt hefur einnig komið fram, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki staðið við þá samninga, sem gerðir hafa verið varðandi þessi skuldabréfakaup, með því að auka byggingu á félagslegu húsnæði, eins og gert var ráð fyrir og samkomulag varð um tvívegis. Það er því hæstv. ríkisstj. sem hefur brugðist að þessu leyti, en lífeyrissjóðirnir hafa fyllilega staðið við sitt.

Það hefur einnig verið upplýst í þessum umr., að það er alveg vitað að tiltölulega lítill hluti af lífeyrissjóðunum í landinu getur orðið við þessu, þó að þeir fegnir vildu. Mér er alveg sama þó að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson bendi á þá brtt sem hæstv. forsrh. hefur hér flutt nú. Hún breytir engu um þetta. Það er staðreynd, að það eru örfáir, — ég þori ekki að fara með tölur í þeim efnum, — það eru örfáir lífeyrissjóðir sem gætu orðið við þessu, miðað við það að þeir ætluðu sér að gegna þeirri skyldu sinni að láta þá sjóðsfélaga, sem réttindi eru búnir að vinna sér í sjóðunum, hafa fyrirgreiðslu í lánaformi, fyrst og fremst til byggingar íbúðarhúsnæðis.

Ég hygg að öllum sé ljóst, að þær vaxandi skuldbindingar, sem lífeyrissjóðirnir hafa tekið á sig og þyngjast nú með ári hverju, ásamt því að geta liðsinnt sjóðfélögum við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, slaga hátt upp í það fé sem lífeyrissjóðirnir hafa til ráðstöfunar á sínum vegum. Það liggur því alveg fyrir um mikinn meiri hluta lífeyrissjóðanna í landinu, að verði þeir skikkaðir til þessa, þá verður það á kostnað sjóðfélaganna sjálfra. Mér kæmi ekki á óvart þó að mikill meiri hluti lífeyrissjóðanna gæti ekki sinnt nema 50–60% af þeim beiðnum sjóðfélaga sem fyrir hendi væru á hverjum tíma, ef við það verður haldið að skikka lífeyrissjóðina með lögþvingun til að inna þetta verk af hendi. Það er því augljóst, að hér er hæstv. ríkisstj. að gera tilraun til að taka traustataki fjármuni sem lífeyrissjóðirnir í raun og veru hafa ekki til þess að inna af hendi samkv. þessari kvöð. Hér er sannarlega um lögþvingun að ræða, því að vitað er um andstöðu og það mikla andstöðu hjá lífeyrissjóðunum gegn þessu ákvæði frv.

Ég tek undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Eðvarð Sigurðssyni fyrr í kvöld, að það var ómaklega mælt af hæstv. forsrh., eða a.m.k. ég tók það svo, að í orðum hans hér fyrr í kvöld væri ýjað að því, að lífeyrissjóðirnir hefðu ekki og mundu ekki standa við það sem hefur í mörgum tilfellum verið gert, þ.e.a.s. að leggja sitt lóð á vogarskálina til þess að full atvinna væri í landinu. Ég hygg að flestir, ef ekki allir lífeyrissjóðir hafi á einn eða annan hátt og að meira eða minna leyti ráðstafað fé til atvinnufyrirtækja til þess að tryggja atvinnu hver á sínum stað. Það er lífalveg ljóst, að í þessari till. er ekki um að ræða umhyggju hæstv. ríkisstj. fyrir lífeyrissjóðunum og sjóðfélögum þeirra, heldur er hér fyrst og fremst verið að seilast í fjármuni sem lífeyrissjóðirnir hafa sjálfir umráðarétt yfir. Þeir eiga með frjálsu samkomulagi að segja til um hversu mikið af ráðstöfunarfé sínu þeir telja sig geta látið til þessa tekjuliðar. Ég fullyrði, að það er fullur vilji til þess hjá lífeyrissjóðum almennt að sinna þessu verkefni, að svo miklu leyti sem þeir telja síg geta.

Það hefur einnig komið fram og liggur fyrir, að sú er ætlan hæstv. ríkisstj. að rýmka nú þau ákvæði sem hafa gilt varðandi bankana. Nú á að rýmka fjárráð bankanna um 5%, á sama tíma og lagt er til að tilhlutan hæstv. ríkisstj. að þrengja fjárhagsafkomu eða ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna í landinu um 20%. Flestir ef ekki allir lífeyrissjóðir hafa keypt fyrir a.m.k. 20% af ráðstöfunarfé sínu verðtryggð skuldabréf. Ég vil því ítreka andstöðu mína við þetta ákvæði frv.

Ég bið menn að athuga hvaða afleiðingar það getur haft, ef hæstv. ríkisstj. ætlar sér í raun og veru í stríð við lífeyríssjóðina í landinu. Það er ekki einungis um það að ræða, að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í lífeyríssjóðunum séu andvígir þessu, heldur er einnig um að ræða algera andstöðu hins aðilans, sem hlut á að máli varðandi lífeyrissjóðina, vinnuveitenda. Það er því ekki útséð um það, hverjar afleiðingar ráðstöfun af þessu tagi kann að hafa í framtíðinni, því að það liggur fyrir, að verði þetta samþykkt er því þvingað inn á lífeyrissjóðina. Ég er ekki í neinum vafa um að þessir aðilar finna mótleik gegn þessu, því að hér er verið að taka rétt af þeim sem hafa haft hann frá því að sjóðirnir voru stofnaðir. Sá réttur verður ábyggilega ekki af hendi látinn með neinni blíðu. Það er enginn vafi á því, að ef hæstv. ríkisstj. ætlar að halda sér við þetta, þá verður svarað á verðugan hátt af þessum aðilum, ekki vegna þess að þeir séu mótfallnir því að leggja það af mörkum sem þeir treysta sér til, heldur vegna þess grundvallaratriðis, að þetta á ekki að ákvarða með löggjöf. Hér á að fara samkomulagsleiðina og gera frjálst samkomulag milli þessara aðila, sem ákvarðast af því, hversu mikinn hluta lífeyrissjóðirnir almennt telja sig geta látið af hendi rakna til þessa.

Ég ítreka því andstöðu mína gegn þessu og vænti þess að hæstv. ríkisstj., þó seint sé, sjái að sér og breyti þessu á þann veg að taka þetta út úr frv., en leiti heldur samkomulags við lífeyrissjóðina um að fjármagn að þeim hluta sem þeir telja sig geta það sem hér er gert ráð fyrir að gera.1265