19.12.1977
Neðri deild: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1271)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Guðmundur H. Garðarsson:

Virðulegi forseti. Ég held að frv. hafi farið eitthvað öfugt ofan í hv. síðasta ræðumann, ef hann heldur að sjóðfélagar í lífeyríssjóðunum séu að glata einhverjum rétti við það að þetta frv. yrði samþykkt. Það er öðru nær. Það mundi frekar tryggja þann rétt sem sjóðfélagar töldu sig vera að fá með því að gerast aðilar að lífeyrissjóðunum, sem er það að reyna að tryggja að þeir peningar, sem sjóðirnir þurfa að ávaxta, verði verðtryggðir í þeirri verðbólgu sem við búum við þannig að meiri líkur séu fyrir því, að þeir geti borgað verðtryggðan ellilífeyri.

En það var ekki aðallega út af ræðu síðasta hv. ræðumanns sem ég stóð upp til að tala hér, heldur var það út af ræðu Eðvarðs Sigurðssonar, hv. 7. þm. Reykv. Ég hef aldrei iðkað þá list að boxa, en stundum er talað um það, þegar menn iðka þá íþrótt, að slegið sé undir beltisstað. Ég verð nú að segja það, að það gerði hv. þm. áðan þegar hann fór að fjalla um mál eins tiltekins lífeyrissjóðs. Ég hafði ekki átt von á því, enda hefði ég auðvitað komið með gögn um starfsemi og rekstur þess sjóðs lengra aftur í tímann ef ég hefði vitað það fyrir þennan fund. Ég hef gætt þess í umr. hér að ræða ekki um mál einstakra lífeyrissjóða, eftir því sem hægt er að lesa um þau af þeim skjölum sem hér liggja fyrir eða maður kann að hafa fengið vitneskju um eftir öðrum leiðum, og ég hélt satt að segja að það væri ekki háttur hv. þm. að ræða um jafnviðamikið mál með þeim hætti. En mér finnst samt rétt að gefnu tilefni að geta þess í fyrsta lagi varðandi reglugerð Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þar sem hv. þm. talaði um að sú reglugerð væri þrengri en reglugerð almennu lífeyrissjóðanna, að það er rétt og veit ég það manna best, vegna þess að ég var einn af þeim sem tóku þátt í því að semja reglugerð ásamt hv. þm. og fleirum fyrir SAL-sjóðina og tel þá reglugerð mjög til fyrirmyndar.

Varðandi reglugerð Lífeyrissjóðs verslunarmanna vil ég upplýsa hv. þm. um það, að nýverið hefur nefnd lokið við að semja uppkast að nýrri reglugerð fyrir Lífeyrissjóð verslunarmanna sem er sambærileg við reglugerð SALsjóðanna. Þetta plagg fer núna til þeirra aðila sem eru samningsaðilar að Lífeyrissjóði verslunarmanna. Vænti ég þess að sjálfsögðu að það verði samþykkt af þeim, þannig að reglugerð Lífeyrissjóðs verslunarmanna verði fullkomlega sambærileg og hugsanlega jafnvel betri en reglugerð SAL-sjóðanna. Í þessu uppkasti okkar eru ýmis ný ákvæði, og gæti ég t.d. nefnt sem dæmi, að við gerum ráð fyrir því samkv. okkar reglugerðarhugmyndum, hvort sem það nær fram að ganga eða ekki, að þarna verði um fulla verðtryggingu að ræða til ellilífeyrisþega. Gengur uppkastið að því leyti til lengra en reglugerðir almennu sjóðanna. Í öðru lagi er eitt reglugerðarákvæði um það, að lagt er til að Lífeyrissjóður verslunarmanna geti staðið fyrir byggingum á leiguíbúðum fyrir ellilífeyrisþega eða öryrkja sem ekki njóta slíks. Gengur það mun lengra en þekkist í núgildandi reglugerðum.

Þetta er nú aðeins til þess að upplýsa þingheim um það og hv. þingmann, að við höfum ekki setið alveg auðum höndum í þessum efnum.

En því miður er þetta ekki enn komið í höfn. Það er háð samþykki þeirra sem eru samningsaðilar að þessum ágæta lífeyrissjóði.

Það var annað atriði í sambandi við ræðu hv. þm. þar sem hann fjallaði nokkuð um þau hagsmunasamtök sem lífeyrissjóðirnir eru í. lífeyrissjóður verslunarmanna er í sambandi lífeyrissjóða, því sambandi sem stofnað var, að því er mig minnir eins og hv. þm. sagði, árið 1964. Það var stofnað m, a. til þess að koma fram fyrir hönd aðildarsjóða gagnvart stjórnvöldum. Það er ekki að jafnaði sama staða og umfang lífeyrissjóða árið 1977 — eða réttara sagt 1978 — og árið 1964. (Gripið fram í.) . Ég skal koma að líflíka — eða jafnvel 1974, vegna þess að árið 1974 var raunverulega fyrsta eða annað árið sem greitt var fullt iðgjald í annan lífeyrissjóðanna. Stærð lífeyrissjóða og umfang árin 1964 og 1974 er því ekki sambærileg stærð þeirra 1977, — ég tala nú ekki um árin 1978 og 1979 eða næstu fjögur ár fram í tímann. En við erum, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og ég, enn þá saman í nefnd sem fjallar um þessi mál, og ég vænti þess, að við trúum því báðir að á næstu tveimur árum takist okkur að ná samkomulagi um hvernig á að leiða lífeyrissjóðina út úr þeim ógöngum sem þeir eru í dag, og skapa hið fullkomna kerfi. Ég er sannfærður um að hv. þm. er sammála mér um að það verkefni verður ekki leyst nema í samstarfi við hv. Alþ., þegar þar að kemur, vegna þess að þetta mál er það flókið og margbrotið, eins og margoft hefur komið fram í ræðum og einnig h já honum, að það verður ekki leyst í innbyrðis samkomulagi milli sjóðanna og vinnuveitenda og launþega, þótt við vildum helst að þannig væri hægt að haga málum. Það er vegna þess að sjóðirnir eru svo ólíkir að stærð og aldursdreifing og fleira er svo gerólíkt í sjóðunum, að það verður ekki leyst nema ofan frá. Og þá verður það gert með þeim hætti, að einhver telur sig hafa tapað einhverju þegar upp verður staðið. Aðalatriðið er þó auðvitað það, að þeir, sem mesta þörfina hafa, sem eru ellilífeyrisþegar og örorkulífeyrisþegar, fái betri stöðu. Um það erum við, hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og ég, örugglega sammála, að þannig viljum við vinna að málum.

Ég held að ég hafi aldrei sagt það í ræðu minni áðan, að ég teldi það ólýðræðislegt athæfi að stjórnir sjóðanna fjölluðu um útlánamál eða útlánastefnu sjóðanna. Það held ég að ég hafi aldrei sagt. Ég sagði hins vegar að ég teldi það óhjákvæmilegt, að við viðurkenndum þá staðreynd að almannavaldið, þ.e.a.s. þing og ríkisstj., hlyti að koma að þessum málum og þá með svipuðum, en ekki endilega þessum hætti sem við erum að fjalla um núna. Ég tók það einnig fram, að ég væri ekkert að fullyrða að 40% framlag af ráðstöfunarfé sjóðanna til kaupa á verðtryggðum skuldabréfum væri nákvæmlega hin eina og rétta prósenta. Ég tók það skýrt fram. Ég tók einnig mjög skýrt fram, að það væri auðvitað til endurskoðunar að fenginni reynslu. Ég undirstrika þetta hér og ítreka það. Ég sagði í minni ræðu að ég teldi að sjóðstjórnirnar yrðu að taka tillit til almannahagsmuna og þjóðarhagsmuna með víðari sjóndeildarhring en bara er innan stjórnanna sjálfra.

Ég verð að segja það, að það er ekki af fjandskap við lífeyrissjóðina sem ég tala svona, nema síður sé. Ég er í forsvari fyrir mjög stórum lífeyrissjóði, og mér dettur ekki í hug að tala gegn hagsmunum þeirra sem ég er umbjóðandi fyrir á þessu sviði. Ég tel að með þessu sé að vissu marki verið að skapa leið sem á að tryggja betur hagsmuni sjóðanna, og ég tef hina leiðina það flókna og erfiða, sem felst í almennum samningum, að það verður að koma einhver leiðbeining. Ég lit á það fyrst og fremst sem leiðbeiningu sem fram kemur í þessu frv.

Um útlánastefnu einstakra sjóða á undangengnum árum ætla ég ekki að vera langorður. Ég hef ekki þau plögg í höndunum sem æskilegt væri að hafa til þess að gera þeim málum skil. Ég get þó ekki látið hjá líða að undirstrika það, að við, sem erum í frjálsu sjóðunum, þ.e.a.s. sjóðunum sem stofnaðir voru fyrir 1910, höfum haft aðrar skyldur að vissu leyti gagnvart atvinnuvegunum en sjóðirnir sem stofnaðir voru eftir 1970. Það er viðurkennd staðreynd að þessir sjóðir, en hinir helstu eru Lífeyrissjóður samvinnustarfsmanna, Lífeyrissjóður verslunarmanna og fyrirtækjasjóðirnir, hafa allir orðið að taka ákveðið tillit til þeirra atvinnugreina og þeirra fyrirtækja sem hafa greitt iðgjöld í þessa sjóði. Þetta er staðreynd. Lífeyrissjóður verslunarmanna komst ekki hjá því að taka afstöðu til þessa frekar en hinir sjóðirnir.

Kem ég þá að útlánastefnu þessa sjóðs. Hún hefur byggst á þessari afstöðu, þessari meginstefnu sem hafði verið mörkuð af öðrum sjóðum, eldri en Lífeyrissjóði verslunarmanna. Þess vegna hefur hann orðið að lána til þess atvinnuvegar sem sjóðurinn er sprottinn upp úr, er verslunarinnar í landinu og helstu þjónustufyrirtækja. Nefni ég þar m.a. fyrirtæki eins og Flugleiðir o.fl. Það hefur haft í för með sér, að þegar verið er að ákveða hvernig eigi að ráðstafa okkar fjármagni, þá höfum við orðið að taka það inn í okkar útlánaáætlun. Niðurstaðan af þessu er sú, að á því tímabili sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson vakti athygli á að Lífeyrissjóður verslunarmanna hefði ekki keypt af Framkvæmdasjóði og Byggingarsjóði nema fyrir um 270 millj., á sama tíma sem Lífeyrissjóður Dagsbrúnar og Framsóknar keyptu fyrir 305 millj., þá lánuðum við til þessarar atvinnugreinar, verslunar og þjónustufyrirtækja, og þar er með talinn þessi stóri atvinnurekandi, Flugleiðir, 279 millj., þ.e.a.s. á þessu sama tímabili hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna lánað til Byggingarsjóðs og til atvinnuveganna 549 millj., en Dagsbrún og Framsókn 305 millj. En þar með er ekki öll sagan sögð. Það gleymdist nefnilega hjá hv. þm. að geta þess, hversu mikið hefur runnið úr Lífeyrissjóði verslunarmanna í sameiginlegan tryggingasjóð verkalýðshreyfingarinnar, sem er sá sami sem greiðir viðbótarellilífeyri. Ég er aðeins með töluna fyrir árið 1976. Á því ári greiddi Lífeyrissjóður verslunarmanna til þessa sjóðs 20 millj. umfram það sem hann fékk til baka, en á sama tíma fengu lífeyrisþegar úr Lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar 22.3 millj. umfram það sem þeirra sjóður greiddi. Á árinu 1977 geri ég ráð fyrir að Lífeyrissjóður verslunarmanna greiði nettó, til þess að styrkja þennan lífeyrisgrundvöll hinna almennu lífeyrisþega, 30 millj., en ég geri ráð fyrir að mínustalan verði svipuð ef ekki hærri hjá lífeyrissjóði Dagsbrúnar og Framsóknar. Mér finnst því að í þessari umr. ætti að draga fram öll hin helstu atriði til þess að hv. þm. fái af því rétta mynd hvernig þetta streymi er.

Svo að við víkjum að lokum að því atriði sem fjallar um svokallaða frjálsa samninga, ef sú meginregla er ekki viðurkennd og í heiðri höfð að hver sjóður hafi sjálfstæðan samningsrétt eða samningsgrundvöll, þá sé ég harla lítinn mun á því að láta landssamtökin ein fjalla um þessi mál fyrir hönd allra sjóðanna eða samþykkja umrætt frv. í þessu máli. Staðreyndin er nefnilega sú, og skal ég ekki fara nánar út í það, að minni hl. 1 þessum samtökum hefur yfirleitt þurft að hlíta ákvörðunum meiri hl. En það þýðir ekki endilega að stærstu sjóðirnir hafi verið í meiri hluta í þeirri ákvörðunartöku, því að þar hafa aldrei verið greidd atkv. eftir höfuðstóli sjóðanna, heldur höfðatölunni.

Ég vona að hv. þm. skilji hvað ég er að fara með þessu. Það er hægt að tala um réttlæti með ýmsum hætti, og ef óskað er eftir nánari skilgreiningu á því, hvað ég á við með þessum síðustu orðum mínum, þá vona ég að hv. þm. Eðvarð Sigurðsson verði staddur hér í salnum á eftir og heyri skilgreiningu mína á því hugtaki.