24.10.1977
Neðri deild: 5. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til I. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Engin lög eru til um Sinfóníuhljómsveitina og þetta frv. hefur ekki áður verið flutt á Alþ., en Sinfóníuhljómsveitin hefur hins vegar starfað hátt á þriðja áratug. Mér er ekki kunnugt um neinn tónlistarmann sem dregur í efa mikilvægi hljómsveitarinnar fyrir tónlistarlífið í landinu. Mikilvægi tónmennta, iðkunar tónlistar, fyrir uppeldi þjóðarinnar verður ekki dregið í efa. Það er ekki lengur deilt um tilverurétt Sinfóníu­ hljómsveitar íslands, og nauðsyn lagasetningar um svo viðamikla starfsemi á vegum opinberra aðila fær varla dulist. Þeir, sem kosta reksturinn, jafnt og hinir, sem við hljómsveitina starfa, þurfa að hafa sitt á hreinu. Rétt er að gera grein fyrir tilkomu frv. og helstu efnisatriðum þess.

Þetta frv. er samið af n. sem menntamrh. skipaði 27. okt. 1976. Í n. áttu sæti þessir menn: Birgir Thorlacius ráðuneytisstjóri, formaður, Andrés Björnsson útvarpsstjóri, Ólafur B. Thors, forseti bæjarstjórnar Reykjavíkur Pálmi Jónsson alþm. og Örn Marinósson þáv. skrifstofustjóri í fjárlaga- og hagsýslustofnun. Í grg. n., sem prentuð er í aths. með frv., eru raktir nokkrir þættir úr forsögu hljómsveitarinnar, eins og þar er komist að orði. Hefur Guðmundur Jónsson óperusöngvari tekið þá saman fyrir n. Þar segir, að árið 1876 hafi að líkindum verið gerð fyrsta tilraun hérlendis til að mynda hljómsveit, og síðan er sagt frá ýmsum atburðum, sem hér verða ekki raktir, ekki í þessari ræðu, allt fram til ársins 1950, en þá er talið, að Sinfóníuhljómsveitin hafi verið stofnuð. En fyrstu hljómleika sína hélt hún 9, mars 1950.

Frá upphafi var litið svo á, að hljómsveitin væri sérstök stofnun, en í nánum tengslum við Ríkisútvarpið. Að henni stóðu í upphafi auk Ríkisútvarpsins Þjóðleikhúsið, Tónlistarfélagið hér í Reykjavík, Reykjavíkurborg og ríkið. Og hljómsveitin fékk í tekjustofn í byrjun 10% álag á skemmtanaskatt. Í fyrstu var þátttaka ríkisins aðeins óbein með álagningu skemmtanaskattsins, en árið 1952 er fyrst veittur beinn ríkisstyrkur til hljómsveitarinnar.

Nú mun ég ekki rekja þessa sögu í einstökum atriðum, en vísa til aths. með frv. Þó vil ég geta þess, að nú um alllangt skeið hefur Ríki:,útvarpið annast daglegan rekstur hljómsveitarinnar, og greiðsluhlutföllin hafa verið þannig síðustu missirin, að ríkissjóður greiðir 50.6% af mismun tekna og gjalda hljómsveitarinnar, Ríkisútvarpið 28%, Borgarsjóður Reykjavíkur 214%, en fram til 1971 greiddi Þjóðleikbúsið 14% og ríkissjóður þá þeim mun minna. En síðan 1971 hefur Þjóðleikhúsið keypt hljómlistarflutning á frjálsum markaði, en ekki verið beinn aðili að rekstri hljómsveitarinnar.

Heildarkostnaður við Sinfóníuhljómsveit Íslands á síðasta ári nam tæplega 136 millj. kr. Er það nánar sundurgreint á reikningum sem prentaðir eru með frv. sem fskj. I.

Það er eftirtektarvert og sýnir þróun tónlistarmála í landinu, að um hríð voru hljómleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar fremur fásóttir. En þetta hefur nú gerbreyst. Hljómleikarnir hafa hin síðari ár verið haldnir í Háskólabíó, sem tekur nærri 1000 manns í sæti, og hefur húsið yfirleitt verið þéttsetið.

Sinfóníuhljómsveitin hefur stöku sinnum farið hljómleikaferðir út fyrir höfuðstaðinn og raunar nokkuð oft styttri ferðir, en sjaldan hringinn í kringum landið. Nú í sumar var farin ein hringferð og komið víða við. Á sumum þessara viðkomustaða hafði hljómsveitin ekki leikið alllengi. Aðsókn á hljómleikana spáir góðu, en nauðsynlegt er að ekki líði allt of langur tími á milli slíkra hljómleikaferða af skiljanlegum ástæðum.

Þess má geta, að á þessu ári fór hljómsveitin sína fyrstu hljómleikaferð út fyrir pollinn, þ.e. til Færeyja, eins og hv. þm. er raunar kunnugt af blaðafréttum. Heppnaðist sú för frábærlega vel og var hljómsveitinni ákaflega vel tekið meðal frænda okkar í Færeyjum.

Ég tel að ekki verði hjá. því komist að treysta stöðu hljómsveitarinnar og einkum fjárhagsgrundvöll hennar með lagasetningu eitthvað á borð við þá sem þetta frv. fjallar um. En frv. er fremur fáort, byggt upp sem rammi um rekstur og stöðu og snertir minna innra starf.

Ég vil þá í stuttu máli greina frá nokkrum helstu efnisatriðum frv.

1. gr. þess kveður á um óbreytt nafn og heimilisfang og að hljómsveitin heyri undir menntmrn. svo sem hún hefur gert. Það breytir hins vegar ekki því, að kjaramál eru eins og önnur slík á sviði fjmrn., og er vikið að því síðar í frv.

Í 2. gr. er tilgangurinn með starfi hljómsveitarinnar greindur, sem „er að sjálfsögðu sá að glæða og efla áhuga á æðri tónlist í landinu,“ eins og segir í aths., „veita mönnum þá menntun og gleði sem góðri tónlist er samfara, stuðla að því að hún verði veigamikill þáttur í menningarlífi þjóðarinnar og búa íslenskum hljómlistarmönnum og tónskáldum starfsvettvang. l.eggja ber áherslu á að sem flestir landsmenn geti notið starfs hljómsveitarinnar, t.d. með því að hún efni til hljómleika oft og víða,“ segir enn fremur í þessum aths.

Þá er í frv. fjallað um, hver skuli vera greiðsluhlutföll milli aðila þeirra sem standa að rekstri hljómsveitarinnar. Samkv. þeirri skiptingu, sem frvgr. gerir ráð fyrir, fellur meginhluti kostnaðarins eða 75% á ríkissjóð. Ríkisútvarp, Þjóðleikhús, Borgarsjóður Reykjavíkur og bæjarsjóðir nágrannabyggðanna nokkurra bera hins vegar til samans 25%, og gætu síðar bæst í þennan aðilahóp fleiri sveitarfélög. Hér er sem sagt gert ráð fyrir því, að Þjóðleikhúsið verði á ný aðili að Sinfóníuhljómsveitinni og nokkur sveitarfélög hér í nágrenninu bætist í aðilahópinn.

Það er rétt að geta þess, að í framkvæmd hefur ríkissjóður talið skemmtanaskattsframlagið hluta af sínu framlagi, en frv. gerir ráð fyrir að skemmtanaskattsframlagið komi nú til greiðslu sameiginlegs kostnaðar við hljómsveitina, en það, sem á vantar, skiptist milli greiðsluaðila.

Í frv. er ákvæði um stjórn hljómsveitarinnar og gert er ráð fyrir að hún sé í höndum 5 manna nefndar sem menntmrn. skipar samkv. tilnefningu frá sveitarstjórnum, starfsmannafélagi hljómsveitarinnar, frá fjmrn. og Þjóðleikhúsinu. Þá á útvarpsstjóri sæti í stjórninni samkv. stöðu sinni og er hann jafnframt formaður og fulltrúi menntmrn.

Í frv. er ákvæði um ráðningu framkvæmdastjóra og gert ráð fyrir að hann sé ráðinn til fjögurra ára í senn, en endurráðning heimil.

Í 6. gr. er fjallað um tölu hljóðfæraleikara og sagt að „stjórn hljómsveitarinnar ræður, að fengnum till. framkvæmdastjóra, allt að 65 hljóðfæraleikara til fastra starfa við hljómsveitina, auk hljómsveitarstjóra, ritara og umsjónarmanns.“ Þetta er hið fasta starfslið sem frv. gerir ráð fyrir. Nú ber að geta þess, að ekki varð fullt samkomulag um þetta atriði í þeirri n. sem undirbjó frv. Pálmi Jónsson og Örn Marinósson gera grein fyrir skoðun sinni á þessu atriði á þskj. II sem prentað er með frv. Segir þar m.a. orðrétt: „Við teljum eðlilegt, að fjöldi hljóðfæraleikara, samkv. 6. gr., sé ákveðinn með afgreiðslu fjárl. hverju sinni.“

Nú má vitanlega deila um það, hver sé eðlilegur og um leið viðráðanlegur fjöldi fastráðinna hljóðfæraleikara við Sinfóníuhljómsveit Íslands — ég meina fjárhagslega viðráðanlegur. Mér er kunnugt um það, að hljómlistarmenn ýmsir telja varhugavert að binda þessa tölu í lögum og of lágt að nefna þá 65. Þeir telja að beri að setja í lögin þó nokkru hærri tölu sem hámark, ef hámark verði sett, og það eins þótt ekki yrði strax farið í þann fjölda hljómlistarmanna. Ég tel hins vegar að rétt sé að fara að till. meiri hl. n. að þessu leyti og setja hámark og hafa það núna 65. Hitt er svo annað mál, hvort menn siðar, þegar við skulum segja ríkissjóði og öðrum aðilum vex fiskur um hrygg, ákveða hærri tölu. En aftur á móti sýnist mér að það sé nánast ekki unnt að fara að till. minni hl. n. og ákveða tölu hljóðfæraleikara í hljómsveitinni árlega um leið og fjárlög eru ráðin. Ég held, að það yrði allt of mikil lausatök og mjög erfiður starfsgrundvöllur fyrir stofnun eins og Sinfóníuhljómsveit Íslands að búa við það fyrirkomulag.

Þá er í frv. ákvæði um það, hvernig ákvarða skuli um efnisval, og fleiri slík ákvæði, er varða skipulag starfseminnar. Skal ég nú ekki tefja tímann við að rekja það nánar hér.

Ráðgert er að Ríkisútvarpið annist, svo sem verið hefur, skrifstofuhald fyrir hljómsveitina og fái útvarpið eðlilega greiðslu fyrir þetta framlag sitt. Má ætla að að því sé nokkurt hagræði, því að þannig yrði þá komist hjá stofnun nýrrar skrifstofu, en þetta er sem sagt óbreytt frá því sem nú gildir.

Ég vil að lokum vekja athygli á því, að áformuð eru með frv. náin og að sumu leyti kannske enn nánari tengsl en áður með þessum þremur menningarstofnunum: Sinfóníuhljómsveitinni, Þjóðleikhúsinu og Ríkisútvarpinu, og ég held að það sé nokkuð þýðingarmikið atriði. Ég vil einnig vekja athygli á því og ég tel það mikilvægt, að samstarf takist um rekstur hljómsveitarinnar með fleiri sveitarfélögum en Reykjavíkurborg einni. Það er eitt höfuðatriði þessa máls að tengja starfsemi Sinfóníuhljómsveitarinnar við byggðir og fólk sem allra víðast um landið sem allra traustustum böndum.

Ég tel æskilegt að þetta frv. verði nú tekið til efnislegrar meðferðar hér á Alþ. og afgreiðslu á fyrri hluta þingsins, þannig að niðurstaða liggi fyrir þegar gengið verður frá fjárl. fyrir næsta ár. Ég hygg að við skoðun þessa frv. komi í ljós, að þó að þar kunni að vera ágreiningsatriði, þá er málið ekki flókið í sjálfu sér, þannig að þetta ætti að vera gerlegt.

Virðulegi forseti. Ég vil svo leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til menntmn.