24.10.1977
Neðri deild: 5. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

29. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég skal nú ekki verða langorður um þetta frv. Það er nokkuð ljóst að frv. fer til n. sem ég á sæti í, og ég mun sem formaður þeirrar n, reyna að beita mér fyrir því, að þetta mál verði þar rækilega rætt, og ég vona, að svo megi takast að nm það verði samkomulag að afgreiða það sem lög.

Þó að það sé kannske stórt orð að vera að tala um tímamót í þessu tilfelli, vegna þess að Sinfóníuhljómsveitin er staðreynd og hefði sjálfsagt lifað áfram án þessa lagafrv. eða laga, ef að I. verður, þá er þetta eigi að síður mjög merkur áfangi í sögu Sinfóníuhljómsveitarinnar, sem sjálfsagt er fyrir okkur alþm. að taka vel eftir og reyna að setja okkur inn í. Ég álít að þær hugleiðingar sem hv. síðasti ræðumaður var hér með, hafi vissulega verið mjög athyglisverðar og margt af því ágætt og eðlilegt að benda á. Ég er honum t.d. alveg sammála um það, að stuðningur við leiklist í landinu þarf að vera miklu meiri en nú er, ekki síst við leiklistaráhuga almennings eða réttara sagt við áhugamannaleikhúsin eða áhugamannaleikfélögin, og einnig kemur það til, sem ég þekki nokkuð vel til og ber fyrir brjósti, leikhúsið á Akureyri, að það þarf sannarlega miklu meiri stuðnings við ef það á að geta haldið í horfi.

Mér er nú einhvern veginn þannig farið, að ég álít að stuðningur við listastarfsemi almennt í landinu þurfi að vera miklu meiri og eigi að vera miklu meiri en er. Mér hefur alltaf fundist, svo lengi sem ég hef hugleitt þessi mál og ekki síst eftir að ég kom hingað á Alþ., að það sé furðulegt hvernig tekið er hér á menningarmálum almennt. Það er eins og það sé alltaf verið að ræða einhver aukamálefni, ef þau ber á góma, og gert að einhverjum vorkunnarmálum ævinlega ef minnst er hér á eitthvað annað en það daglega þref og þras um kaup og kjör og svokölluð efnahagsmál. Þetta finnst mér ákaflega einkennilegt, og ég hef grun um, satt að segja, að þjóðþing okkar Íslendinga sé að mörgu leyti einsdæmi hvað þetta snertir. Ég fagna því í hvert skipti sem svona mál koma inn í þingið og eru rædd. Jafnvel þó að ég hafi enga löngun til þess að taka upp á því aftur að skrifa z, þá er ég feginn því þegar menn fara að ræða um z og stafsetningu hér á þinginu. Eins og fram hefur komið hjá mörgum öðrum ágætum þm., álít ég það engan veginn neitt vandræðamál eða vorkunnarmál þó að við eyðum einhverjum tíma í þess háttar hugleiðingar, og er satt að segja mikil tilbreyting frá því oft lítilfjörlega og heimskulega snakki sem hér viðgengst um efnahags- og kjaramál. Þess vegna fagna ég þessu frv. og mun persónulega styðja það og beita mér sem formaður í menntmn. fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga í öllum meginatriðum.

Hv. 9. þm. Reykv. tók hér til máls og studdi þetta frv, í orði og mun auðvitað gera í verki, þó gerði hann athugasemd við 6. gr. um fjölda hljóðfæraleikaranna. Ég held að það sé ekki skaði þó þessi tala sé nefnd, og ég held að það sé ekkert óeðlilegt þó að þessi tala sé nefnd sem fjöldi hljóðfæraleikara í Sinfóníuhljómsveitinni. Eftir því sem fram kemur í grg. með frv. eru nú starfandi í hljómsveitinni 59 hljóðfæraleikarar auk hljómsveitarstjóra, þannig að þarna er um talsverða aukningu að ræða ef þessi tala verður 65. Þarna segir að vísu „allt að“, þannig að hugsanlegt er að þeir verði eitthvað færri. Hins vegar verð ég að lýsa því sem skoðun minni, og ég held að flestir átti sig á því þegar þeir fara að athuga málið, að það er fáránlegt að hugsa sér að fjvn. fari að ákveða hvað margir skuli starfa í Sinfóníuhljómsveitinni á ári hverju. Ég held að þetta sé nú eitthvað það fáránlegasta sem komið hefur upp í svona till., ég verð að segja það. Og hvar haldið þið að slíkt mundi enda? Ef fjvn. ætti að fara að ákveða hvað margir ættu að starfa í hljómsveitinni á hverju ári, hvers vegna á fjvn. þá ekki líka að ákveða tölu starfsmanna í öðrum stofnunum frá ári til árs? Ég spyr. Ég bið menn að athuga það, að þó að þessi till. sé gerð af mikilli ábyrgðartilfinningu og tilfinningu fyrir því að við þurfum að fara vel með fjármál ríkisins, þá er þetta nú jafnframt ákaflega einkennileg till. og satt að segja fáránleg og óframkvæmanleg. Ég held að svona till. mundi aldrei koma fram í þinginu nema af því að um er að ræða menningarmál.

En hvað sem því líður, þó að þetta sé að vísu mikið fjárhagsmálefni og dýrt að halda þessu uppi, þá held ég að við verðum að hressa okkur og manna okkur upp í það að halda úti Sinfóníuhljómsveitinni sem starfað hefur nú í aldarfjórðung og vel það og hefur farið vaxandi og sýnt að hún er þess verð að hún sé studd, hún fái að lifa. Ég vona að Alþ. leggist ekki svo lágt að beita sér fyrir því, að dregið verði úr þessari starfsemi eða að einhverju leyti gengið af henni dauðri.

Ég er persónulega sannfærður um það, jafnvel þó að erfiðlega gangi nú í efnahagslífinu eins og ævinlega hjá okkur, þá verði þetta ekki það sem veltir ríkissjóði eða veltir þjóðarbúskapnum um koll, þó að við höldum þessari starfsemi áfram.

Ég er alveg sannfærður um það, og ég vil bæta því jafnframt við það, sem ég sagði áðan, að ég held að stuðningur við listastarfsemina megi aukast stórlega og eigi að aukast stórlega og að við, sem í stjórnmálum stöndum, verðum að finna einhverja leið til þess að nálgast listamennina í landinu og gefa þeim tækifæri til að njóta sín og til að verða sá þáttur af þjóðlífinu sem þeir ættu að vera. Ég veit að þetta er ekki að öllu leyti auðvelt mál. Hins vegar virðist mér sem áhugamanni um þetta og þó leikmanni, að það sé einhvers konar sambandsleysi á milli ráðamanna þjóðfélagsins og þeirra sem fást við listastarfsemi. Ég held að við þyrftum að finna leið til þess að rjúfa þetta sambandsleysi og koma á betri og greiðari leiðum til samskipta í þessum efnum.