20.12.1977
Sameinað þing: 34. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1317)

1. mál, fjárlög 1978

Frsm. minni hl. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Fyrir 2. umr. um fjárlagafrv. var minni hl. fjvn., eins og kunnugt er, neitað um upplýsingar um áhrif breyttra forsendna á einstaka útgjaldaþætti frv., enda þótt hæstv. ríkisstj, hafi haft þær upplýsingar undir höndum um nokkurt skeið og þær verið ræddar á þingflokksfundum stjórnarflokkanna. Þetta, sem aldrei hefur áður gerst, varð til þess að minni hl. fjvn. ákvað að fresta útgáfu nál, þar til þessar upplýsingar hefðu verið látnar af hendi. En af hálfu meiri hl, n. kom fram við 2. umr., að minni hl. hefði verið ætlað að fá þessar upplýsingar fyrst í nál. meiri hl. sem útbýtt var eftir hádegi daginn fyrir 2. umr. Þessar upplýsingar og enn fremur niðurstaða um afstöðu hæstv. ríkisstj. til afgreiðslu fjárlagafrv. liggur nú fyrir, og hefur minni hl. n. nú fyrir 3. umr. gefið út nál. á þskj. 230.

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um störfin í fjvn. milli 2. og 3. umr. Kosnar höfðu verið undirnefndir m.a. til að fjalla um lánsfjáráætlun og orkumál, ein veigamestu málin. Þær voru aldrei kallaðar saman og þau málefni, sem þær áttu að fjalla um, aldrei rædd í fjvn.

Ákvörðun meiri hl. n. um hvernig skyldi afgreidd áætlun um fjárfestingu, rekstur og alla afkomu Pósts og síma var sýnd einum fulltrúa minni hl. eftir að næstsíðasta fundi n. lauk s.l. laugardag.

Ég held að ég ræði ekki frekar starfshætti í n. að þessu sinni. N. sjálf er líklega réttari vettvangur til þess. En um of sækir í það horf, að einstök erindi eru alls ekki rædd í n. allri eða undirnefnd þar sem bæði meiri hl. og minni hl. eiga sæti.

En um þetta skal ég ekki hafa fleiri orð, en sný mér að þeim grundvallaratriðum sem ráða mestu um þróunina í afgreiðslu fjárlaga, þ.e.a.s. ytri ástæðum og áhrifum stjórnarstefnunnar.

Á s.l. tveim árum, 1976 og því ári sem nú er að ljúka, hafa ytri aðstæður batnað mjög verulega. Á árinu 1976 hækkaði útflutningsverðlag um 18% í erlendri mynt og heildarverðmæti vöruútflutnings jókst um 36–37% í erlendum gjaldeyri. Gert er ráð fyrir að verðlag alls útflutnings hækki að meðaltali um 17– 18% í erlendum gjaldeyri á þessu ári frá árinu 1976 og að magni til um 13%, en þetta er verulega hagstæðari þróun en spáð var við gerð fjárlaga fyrir bæði árin 1976 og 1977. Þróunin hefur verið afar hagkvæm. Þjóðartekjur hafa verið meiri, hvort sem reiknað er í heild eða á hvert mannsbarn, en áður hefur verið um að ræða. En niðurstaðan í ríkisbúskapnum hefur samt sem áður verið sú, að aukin skattheimta með ári hverju til viðbótar við miklu hagstæðari þróun en nokkur hafði gert ráð fyrir hefur ekki dugað til þess að þeim árangri yrði skilað að grynnka á stórfelldri skuld ríkissjóðs við Seðlabankann, heldur hefur verið aukið við hana.

Skuldin við Seðlabankann, sem nú nemur um 13,5 milljörðum kr. hefur sífellt hækkað, enda þótt skattlagning á landsmenn hafi verið við það miðuð að grynna á þeirri stórfelldu skuldasúpu sem stofnað var til á árinu 1975, þegar halli á ríkissjóði nam upphæð sem á núverandi verðlagi er jafngildi um 13 milljarða kr.

Þrátt fyrir stóraukið verðmæti útflutnings, sem bæði á rætur að rekja til hækkandi verðlags og aukins magns, hafa erlendar skuldir þjóðarinnar verið stórauknar og nema nú 36% þjóðarframleiðslunnar í stað 22% árið 1973 eða eru 64% stærri hluti þjóðarframleiðslunnar en fyrir fjórum áður. Og fjárlagaafgreiðslan nú og lánsfjáráætlun er við það miðuð að á næsta ári verði enn teknir 20 milljarðar kr. að láni erlendis.

Við þessar stórbættu ytri aðstæður, þegar þjóðartekjur á mann hafa aukist um 14% frá árinu 1972, hefur ríkissjóður þannig enn aukið skuldir sínar við Seðlabankann, og hafa verklegar framkvæmdir þó verið skornar niður, erlendar skuldir þjóðarinnar hafa vaxið og aldrei verið hærra hlutfall þjóðarframleiðslu en nú. Hér hefur ríkt óðaverðbólga, þótt verðlag innflutnings hafi einungis hækkað um 5–6% á ári s.l. 3 ár. Afleiðingarnar eru m.a. þær, að forsvarsmenn allra aðalatvinnuvega þjóðarinnar gera nú kröfur um sérstakar efnahagsráðstafanir til að tryggja áframhaldandi rekstur.

Þetta er árangurinn af stjórnarsamstarfi Sjálfstfl.- og Framsfl. á kjörtímabilinu. Ríkisstj. þessara flokka er nú að afgreiða fjórðu fjárl. sín, nær fimm sinnum hærri að krónutölu en fjárl.ársins 1974, 55.1% hærri en núgildandi fjári., en það mun vera mesta hækkun fjárlaga milli ára sem átt hefur sér stað nokkru sinni, ef undan er skilin afgreiðsla fjárlaga fyrir árið 1975. Fjárl. hækka nú á einu ári um 50 milljarða kr. eða um nokkru hærri upphæð en nemur heildarupphæð fjárl. fyrir árið 1975, fyrir aðeins þrem árum.

Þessi þróun er síðan básúnuð út í málgagni hæstv. fjmrh. sem árangur sérstakrar aðhaldsstefnu í fjármálum ríkisins. Það er síst að undra þótt skattþegnar í landinu segi: Heyr á endemi. Jafnvel borgarstjórnin í Reykjavík, sem ekki er ýkjafræg fyrir aðhaldssemi í útgjöldum, lætur sér nægja um 38% hækkun tekna í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og styðst við óbreytta tekjustofna, þegar hæstv. fjmrh. dugar ekki minna en 55% hækkun og lætur samþykkja stórfelldar nýjar skattálögur til að standa undir útþenslunni í ríkisrekstrinum.

Einkenni þeirra fjárlaga, sem nú er verið að samþykkja og eru um 50 milljörðum kr. hærri en núgildandi fjári., eru hin sömu og hinna þriggja sem núv. ríkisstj, hefur staðið að: Heildarhækkun umfram almenna verðlagshækkun í landinu, nýjar skattaálögur, niðurskurður verklegra framkvæmda og enn aukinn þáttur rekstrarliða.

Miðað við þær þjóðhagsforsendur, sem fjárl. næsta árs eru byggð á, mun hlutfall ríkisútgjalda af þjóðarframleiðslu verða hærra á næsta ári en í ár og einnig bærra en á árinu 1976, enda þótt þjóðarframleiðsla hafi aukist um 4,2% 1977 og muni samkvæmt þjóðhagsspá aukast um 3.5 – 4% á næsta ári. Samkvæmt nýjustu forsendum væntanlegra fjárlaga og niðurstöðutölum útgjaldahliðar munu ríkisútgjöld á næsta ári verða hærra hlutfall þjóðartekna en áður hefur þekkst, ef undan eru skilin árin 1974 og 1975, en þjóðarframleiðsla á næsta ári er áætluð 8.5% meiri en 1974.

Ef hugað er að útþenslunni í skattheimtu ríkissjóðs með því að bera saman, hve mörg árslaun verkamanna fyrir 8 klst. vinnu í 50 vikur á ári hefur þurft á ári hverju miðað við kauptaxta verkamanna á viðkomandi ári, kemur í ljós, að árið 1974 námu slík árslaun verkamanna 533 þús. kr., en skattheimta ríkisins nam 35.8 milljörðum kr. Það þurfti því um 67 200 árslaun á verkamannataxta til að standa undir skattheimtunni. Á árinu 1977 nema árslaunin 1310 þús kr., en skattheimta ríkisins mun nema um 96.5 milljörðum. Í ár þarf því um 74800 árslaun á móti 67 200 1974. Skattheimta ríkisins jafngilti á árunum 1972–1974, að báðum meðtöldum, 66 900 árslaunum verkamanns fyrir 8 klst. vinnudag, en á árunum 1975 – 1977 72 800. Það er því sama hvernig málið er skoðað, útþenslan er staðreynd.

En samtímis síaukinni skattheimtu og útþenslu fjárlaga umfram verðlags- og launaþróun hafa hinir veigamestu þættir verklegra framkvæmda rýrnað. Ef miðað er við byggingavísitölu annars vegar í nóv. 1973 og hins vegar í nóv. 1977 og fjárveitingar á fjárl. 1974 og á þeim fjárlögum, sem hér er verið að afgreiða, ætti t.d. framlag til byggingar grunnskóla að nema um 2700 millj. kr. á næsta ári í stað 1376 millj. kr. Upphæðin þyrfti að hækka um ríflega 96% til þess að vera jafngild. Framlag til iðnskóla þyrfti að vera 103 millj. í stað 63 millj., framlag til hafnarmannvirkja sveitarfélaga um 1530 millj. kr. í stað 1170, og voru þó 1974 að auki veittar fjárveitingar að jafngildi um 1360 millj. kr. á verðlagi í dag til sérstakra hafnarframkvæmda í Þorlákshöfn, Grindavík og Höfn í Hornafirði.

Þegar ríkisstj., sem styðst við 70% þm., er að skila af sér í einhverju mesta góðæri, sem þjóðin hefur lifað, einhverjum hagstæðustu ytri aðstæðum, sem hér hafa þekkst, er árangurinn þessi: Hér ríkir óðaverðbólga og efnahagsöngþveiti samtímis því sem innflutningsverðlag hefur aðeins hækkað um 5–6% á ári s.l. þrjú ár.

Þrátt fyrir síaukna skattheimtu og hagstæðari ytri aðstæður en skattheimtan var miðuð við hækkar sífellt skuld ríkissjóðs við Seðlabankann og vaxtagreiðslur vegna þessara skulda munn nema 4700 millj. kr. á því kjörtímabili sem nú er að ljúka, eða 40% hærri upphæð en framlög ríkissjóðs hafa verið til hafnarframkvæmda sveitarfélaga á þessum sama tíma.

Þrátt fyrir hærra hlutfall ríkistekna af þjóðarframleiðslunni en áður og sívaxandi skattheimtu miðað við þróun verðlags og launataxta minnkar sífellt framlag ríkisvaldsins til stuðnings sveitarfélögum við uppbyggingu hinna mikilvægustu framkvæmdaþátta. Þrátt fyrir síaukin framleiðsluverðmæti í sjávarútvegi vegna aukinnar framleiðslu og hæsta afurðaverð, sem þekkst hefur, er stjórnarstefnan að valda stöðvun fiskvinnslunnar svo sem í öðrum atvinnuvegum í landinu. Þegar slíkt skipbrot blasir við, algjört efnahagslegt öngþveiti í einu mesta góðæri sem þjóðin hefur lifað, grípa stjórnarflokkarnir til einnar afsökunar fyrir ófarnaðinum: kaupgjald hafi hækkað langt umfram verðmætaaukningu. Þetta er hin gamalkunna skýring atvinnurekendaflokka á öllum efnahagsvanda. Sú staðhæfing út af fyrir sig, að launaþátturinn megi ekki aukast umfram verðmætaaukningu á sama tíma, felur í sér eftirlætiskenningu og grundvallarboðskap kapítalismans um að friðhelgi gróðans sé grundvöllur og undirstaða þjóðfélagsins og að skerfur launafólks af þeim þjóðartekjum, sem fást fyrir störf þess, sé endanlega og eilíflega afskammtaðu.r af náð og miskunn atvinnurekenda og ríkisstjórnar þeirra. Það er hvorki staður né stund til að ræða þann boðskap hér, en sú skýring, að allt hafi farið í öngþveiti í góðærinu vegna þess að laun hafi hækkað umfram verðmætasköpun, er hið mesta öfugmæli.

Ef athugaður er kaupmáttur kauptaxta, þar sem saman eru vegnir kauptaxtar verkafólks, iðnaðarmanna, verslunar- og skrifstofufólks og opinberra starfsmanna, kemur fram af tölum Þjóðhagsstofnunar að kaupmáttur þessa kauptaxta er lægri nú á árinu 1977 og verður lægri á næsta ári en á hvoru árinu 1972 og 1973 fyrir sig. Hér er ekki verið að miða við kaupmátt launa eftir launahækkunina 1974, heldur við tvö næstu ár þar á undan, taxtana áður en launahækkunin varð vorið 1974. Sé kaupmáttur kauptaxta settur sem 100 1972 var hann 101.1 1973, en verður einungis 91.4 á þessu ári og 96.8 á næsta ári, þegar komnar eru að fullu fram allar þær umsömdu kauphækkanir, sem nú er gert sem mest úr í málgögnum stjórnarflokkanna og þar talið að hafi verið svo miklar að þær hafi sett allt efnahagskerfið úr böndum. Staðreyndin er sú, að kauptaxtar hafa ekki á þessu ári og munu ekki á næsta ári ná kaupmátti áranna 1972 og 1973, þegar þjóðarframleiðslan og þjóðartekjurnar voru þó lægri en nú.

Ef athuguð er þróun þjóðartekna á mann afraksturinn af þjóðarbúinu, kemur í ljós, að séu þjóðartekjur á mann taldar 100 1972 verða þær 110.8 á þessu ári og 114 á næsta ári samkvæmt þeim þjóðhagsforsendum sem fjárlagaafgreiðslan er byggð á. Þetta þýðir, að samtímis því að þjóðartekjur á mann hafa frá árinu 1972 til loka þessa árs aukist um 10.8% hefur kaupmáttur samanvegins kauptaxta launafólks lækkað um 8.6%. Ef kaupmáttur kauptaxta hefði breyst í réttu hlutfalli við þjóðartekjur á mann ætti kaupmátturinn nú að vera 21.1 % bærri en bann er eftir þá kjarasamninga sem gerðir hafa verið í ár. Sé miðað við árið 1973 er kaupmáttur kauptaxta í ár 9.6% lægri en 1973, en þjóðartekjur á mann hafa hækkað um 2.6% á sama tíma.

Nú eru ekki allar umsamdar kauphækkanir komnar fram og e.t.v. kynnu einhverjir að halda að þetta snúist við á næsta ári. En hvað sýnir sú þjóðhagsspá sem byggt er á í fjárlagaafgreiðslunni sem hér fer fram nú? Hún sýnir að þegar komnar verða fram allar umsamdar grunnkaupshækkanir, verðbótahækkanir og þær verðlagsbreytingar, sem reiknað er með, verður kaupmáttur kauptaxta enn 3.2% lægri en 1972 og 4.3% lægri en 1973. Þjóðartekjur á mann verða hins vegar 14% hærri en 1972 og 5.6% hærri en 1973. Þegar þjóðartekjur á hvert mannsbarn í landinu hafa aukist um 14% árið 1978 frá árinu 1972 hefur kaupmáttur launataxta lækkað um 3.2% á sama tíma, og verða þá allar umsamdar launahækkanir ásamt verðlagsbótum komnar fram.

Ef kaupmáttur kauptaxta hefði tekið sömu breytingum og þjóðartekjur á mann frá 1972 til loka ársins 1978 ætti kaupmátturinn að vera 17.8% hærri en hann verður þrátt fyrir þessar umtöluðu kauphækkanir.

Sú kenning stjórnarflokkanna og sú afsökun, sem þeir hafa helst haft á lofti fyrir ófarnaðinum í efnahagsmálum þjóðarinnar í góðærinu, að launafólk hafi aukið svo mjög hlut sinn miðað við vinnuframlag, stenst því ekki, heldur hefur þróunin verið þveröfug. Þjóðartekjur á mann hafa aukist á sama tíma og kaupmáttur launataxta hefur minnkað, hvort sem miðað er við árið 1972, 1973 eða 1974 og þótt reiknað sé með öllum kauphækkunum, sem um hefur verið samið á þessu ári, og þeim sem eiga eftir að koma fram á næsta ári.

Því síður verður þróun innflutningsverðlags kennt um. Verðhækkun innflutningsvöru hefur verið tiltölulega lítil miðað við verðhækkun innanlands. Verðhækkanir innanlands eru 56 sinnum meiri á ári en nemur breytingum á innflutningsverði í erlendum gjaldeyri. En eins og áður hefur verið getið hefur verð innflutningsvöru einungis hækkað um 5–6% á ári s.l. þrjú ár á móti 36% árið 1914. Þegar verðbreytingar innanlands eru nú 5–6 sinnum meiri en hækkun innflutningsverðlags geta landsmenn séð og gert sér í hugarlund, hvað mundi gerast í því efnahagsástandi sem nú ríkir, ef innflutningsverð hækkaði um 36% í erlendum gjaldeyri á einu ári, eins og gerðist árið 1974, í stað 5–6%, eins og verið hefur s.l. þrjú ár.

Nei, ófarnaðurinn í efnahagsmálum í góðærinu, óðaverðbólgan og ógöngur í ríkisfjármálum verða ekki rakin til neins annars en markvissrar verðbólguræktunar hæstv. núv. ríkisstj.

Allar ráðstafanir og aðgerðir stjórnarflokkanna í efnahagsmálum og almennt í málefnum ríkissjóðs hafa verið þess eðlis, að þær hafa beinlínis kynt undir verðbólgunni og hafa jafnan valdið meiri vanda en leystur hefur verið. Hér má nefna, að til að standa undir litt skipulagðri fjárfestingu hafa gengdarlaust verið tekin erlend lán svo að greiðslubyrði þjóðarinnar hefur aldrei verið jafnmikil, en engar ráðstafanir hafa verið gerðar til að tryggja heilbrigðan sparnað innanlands. Fyrirtæki hafa í mjög stórum stíl sloppið við alla skattgreiðslu, en afrakstri þeirra verið varið í hvers kyns verðbólgufjárfestingu. Í óðaverðbólgunni leitar það fjármagn almennings, sem er umfram daglega neyslu, í hvers kyns verðtryggingafjárfestingu, í steinsteypu og varanlegum neysluvörum.

Þjónustugjöld opinberra stofnana hafa hækkað langt umfram almennt verðlag í landinu. Vextir hafa verið stórhækkaðir og keðjuverkunin í óðaverðbólgunni kallar sífellt á nýjar vaxtahækkanir. Þrátt fyrir að framlög til nauðsynlegustu samfélagslegra framkvæmda hafi að raungildi jafnt og þétt verið skorin niður á fjárl. hefur stjórnarflokkunum ekki tekist að sjá um ríkisbúskapinn með þeim tekjustofnum sem ríkissjóður byggði á þegar þessir flokkar tóku við völdum, og hafa þjóðartekjur þó aukist á tímabilinu og þeir tekjustofnar því gefið meira af sér en áður. Sífellt hefur verið hætt við nýjum tekjustofnum og skattheimtan aukin.

Fyrsta verk hæstv. ríkisstj. var að hækka söluskatt. Síðan hefur hver skattaaukningin rekið aðra. Viðlagasjóðsgjald, sem jafngilti 2 söluskattstigum og ætlað var til að mæta skakkaföllum af völdum náttúruhamfara, hefur verið hirt í ríkissjóð til að mæta skakkaföllum af óstjórninni í ríkisfjármálum. Mestur hluti olíugjalds hefur verið hirtur í ríkissjóð. Sérstakt vörugjald var lagt á til bráðabirgða, það er nú fastur tekjustofn og mun nema nær 6000 millj. kr. á þessu ári. Þetta gjald veltir síðan upp á sig álagningu í smásölu og heildsölu og söluskatti ofan á allt saman. Lagt hefur verið á sérstakt sjúkratryggingagjald, sem nemur í ár tæpum 20f00 millj. kr. og er nú fest í skattheimtukerfinu með ákvörðun stjórnarflokkanna um tvöföldun þess á næsta ári.

Öll hefur þessi verðbólguræktun hæstv. ríkisstj. borið þann árangur sem nú blasir við: Óðaverðbólga þrátt fyrir að innflutningsverð hafi hækkað mjög litið. Gengi krónunnar hefur verið fellt og valdið stórfelldum verðhækkunum. Óðaverðbólgan innanlands og aukinn tilkostnaður umfram jafnvel hina miklu verðhækkun og verðmætisaukningu útflutningsafurða hefur síðan orðið stjórnvöldum tilefni til stöðugs gengissigs og víxlhækkunum í verðlagsmálum verði þannig tryggilega haldið í fullum gangi.

Öll hefur þessi ráðsmennska svo leitt til þess, að nú ríkir hér efnahagsöngþveiti og upplausn í hinu mesta góðæri sem þjóðin hefur notið og fjárlög hækka nú á einu ári um 50 milljarða kr. eða um 55.1%. Þau eyðingaröfl verðbólgunnar, sem hæstv. ríkisstj. hefur ræktað með stefnu sinni og ráðstöfunum, koma í veg fyrir að svo stórfelldur búhnykkur sem þjóðinni hefur hlotnast vegna stórhækkaðs afurðaverðs og aukins sjávarafla dugir ekki til þess að halda í horfi kaupmætti launataxta, heldur hefur raungildi launa beinlínis rýrnað frá árunum 1972, 1973 og 1974, né heldur hefur þessi búhnykkur nýst þjóðinni til aukinna samfélagslegra framkvæmda, heldur dragast þær sífellt saman.

Nú þegar verðlag útflutningsvöru og heildarafli er í hámarki stendur hæstv. ríkisstj. frammi fyrir afleiðingum stefnu sinnar og kemur ekki saman fjárlögum nema með enn nýrri skattheimtu. Til að brúa það bil, sem talið er vera milli tekna- og gjaldhliða fjárlagafrv. eftir endurmat á forsendum þess, er lagt til að lækka útgjöld um 3.7 milljarða króna. Þar af er helmingur leiðrétting á ofáætlun liðarins önnur laun og kemur fram í minni hækkun launaliða en ella. Þá er slegið á frest greiðsluhluta vanskilaskulda ríkisins við lífeyrissjóði, en sú skuld mun nema um 1100 millj, kr.

Af beinum lækkunum áður áætlaðra framlaga úr ríkissjóði ber hæst lækkun framlags til Byggðasjóðs um 330 millj, kr. Þá hafa stjórnarflokkarnir valið ákveðinn hóp manna sérstaklega til að taka á sig að spara ríkissjóði 500 millj, kr, á næsta ári. Þar er um að ræða sjúklinga sem þurfa á sérfræðiþjónustu eða lyfjum að halda, Útgjöld þessa fólks eru aukin um hálfan milljarð króna á næsta ári. Það, sem á vantar að endar nái saman, er fengið með nýrri skattheimtu og enn frekari skuldasöfnun ríkissjóðs með þeim hætti, að ríkissjóður aflar sér vaxtalauss lánsfjár með skyldusparnaði gjaldenda sem hafa tekjur yfir ákveðnu marki. Þá er sjúkratryggingagjald, sem áður var lagt á til bráðabirgða, tvöfaldað og fest í tekjuöflunarkarfi ríkissjóðs. Flatur tekjuskattur til ríkissjóðs, 3800 millj. kr. á næsta ári, er hér festur í sessi, eins konar ríkisútsvar, og þar farið inn á tekjuöflunarsvið sveitarfélaganna. Þessi ákvörðun hæstv. fjmrh. í tekjuskattsmálum er athyglisverð þegar höfð eru í huga margendurtekin fyrirheit hans um lögfestingu nýrra og endurbættra tekjuskattslaga.

Við 3. umr. um fjárl. haustið 1974 sagði hæstv. ráðh., að starfshópur mundi skila vafkostum í tekjuskattsmálum vorið 1975 og unnt yrði að taka endanlega ákvörðun um ný tekjuskattslög í síðasta lagi á þingi 1975–1976. Þessar hugmyndir um tekjuskattsálagningu voru sendar þingflokkunum vorið 1976, ári síðar en heitið var, og því þá lýst yfir, að þær yrðu lagðar fyrir í frv.-formi á því sama vori. En frv. var svo loks flutt á síðasta þingi eftir áramót og aldrei afgreitt og hefur ekki sést síðan.

Þessi hrakfallasaga loforða um ný tekjuskattslög er með endemum, ekki síst þegar það er haft í huga, að hæstv. núv. fjmrh. flutti á síðasta þingi áður en hann tók við embætti frv. um ný tekjuskattslög, þar sem gert var ráð fyrir mjög verulegri lækkun ríkistekna með niðurskurði tekjuskatts. Nú þegar kjörtímabilinu er að ljúka og ekkert bólar á tekjuskattsfrv. kemur hæstv. ráðh. með till. um aukna tekjuöflun tif ríkissjóðs með þeim hætti að tvöfalda þann flata tekjuskatt sem sjúkratryggingagjaldið er. Álagning tekjuskatts með þeim hætti gengur þvert gegn því sem fulltrúar Sjálfstfl. hafa haldið fram að væri stefna flokks þeirra í tekjuskattsmálum, að hann sé ekki lagður á almennar launatekjur eða a.m.k. ekki á það sem kalla mætti þurftartekjur. Ljóst er að sá flati tekjuskattur, sem sjúkratryggingagjaldið er, er lagður á miklu lægri tekjur einstaklinga en hinn afmenni tekjuskattur, og við álagningu sjúkratryggingagjalds greiða hinir tekjulágu jafnháa skattprósentu og hinir tekjuháu og ekkert tillit er tekið til fjölskyldustærðar. Við álagningu á þessu ári greiða 58 110 aðilar tekjuskatt en 95 577 greiða sjúkratryggingagjald, þ.e.a.s. á 37 467 gjaldendur, sem höfðu lægri tekjur en svo að þeir greiddu tekjuskatt, er í ár lagt sjúkratryggingagjald. Og enda þótt nú hafi verið gert ráð fyrir lagfæringum á ákvæðum laga um sjúkratryggingagjald frá ákvæðum frv, varðandi álagningu á lífeyrisþega, þá verður mikill munur á fjölda þeirra, sem greiða almennan tekjuskatt, og hinna, sem greiða hinn flata tekjuskatt, sjúkratryggingagjaldið.

Það er eftirtektarvert um stefnu stjórnarflokkanna, að þegar gjöld á sjúklinga eru hækkuð um 500 millj. kr. og tvöfaldaður er sá tekjuskattur, sem leggst á fjölda einstaklinga sem hafa lægri tekjur en svo að þeir greiði tekjuskatt, þá eru engar ráðstafanir gerðar gagnvart þeim 1600 fyrirtækjum sem velta um 160 milljörðum kr., en greiða engan eða svo til engan tekjuskatt til ríkisins. Þessi fyrirtæki, sem veltu á árinu 1976 meira en tvöfalt hærri upphæð en ríkissjóður, greiða engan eða nær engan tekjuskatt til ríkisins, og fyrirtækin greiða ekkert útsvar. Og engar till. eru gerðar um að af þeim verði neins frekar krafist nú. Það er því næsta fróðlegt, að á næsta ári er gert ráð fyrir að til viðbótar því, sem einstaklingar greiða í almennan tekjuskatt, greiði þeir í flatan tekjuskatt, sjúkratryggingagjald til ríkissjóðs, sem er 700 millj. kr. hærri upphæð en öll fyrirtæki í landinu eiga að greiða samtals í tekjuskatt til ríkissjóðs.

Með tvöföldun sjúkratryggingagjaldsins nær ríkissjóður viðbótartekjum að upphæð nálega 2000 millj. kr. á næsta ári, og öðrum 2000 millj. nær ríkissjóður af einstaklingum með því að miða skattvísitölu við breytingar á framfærslukostnaði, en ekki á breytingar á meðallaunum, eins og gert hefur verið undanfarin ár, þegar framfærsluvísitala hefur hækkað meira en laun. Ég rakti það við 1. umr. um fjárlagafrv., að hæstv. núv. fjmrh. og hæstv. núv. félmrh. hafa á Alþ. lagt áherslu á þá stefnu, að skattvísitölu eigi að miða við breytingu meðaltekna, og þeirri reglu hefur verið beitt þar til nú, að blaðinu er snúið við þegar það reynist ríkissjóði hagkvæmara að miða við framfærsluvísitölu, en ekki við breytingu meðaltekna.

Minni hl. fjvn. flytur ásamt hv. 5. þm. Vestf. till. um að skattvísitala skuli við álagningu á tekjur ársins 1977 miðuð við breytingar á meðaltekjum á árinu, þ.e.a.s. hækki um 42%.

Tillaga stjórnarflokkanna um að auka álagningu tekjuskatts á einstaklinga um nær 4 milljarða kr. umfram áhrif kaupgjaldsbreytinga gengur þvert gegn þeim fyrirheitum sem hæstv. ríkisstj. gaf verkalýðssamtökunum s.l. vor um að auka kaupmátt launa með því að draga úr álagningu beinna skatta. Þær ráðstafanir, sem fyrr voru gerðar í þá átt, eru með þessum aðgerðum teknar til baka og miklu meira en það. Sú aukna skattheimta, sem stjórnarflokkarnir standa nú fyrir til að ná endum saman á fjárl., er sama marki brennd og fyrri skattheimturáðstafanir þessara flokka: Hún bitnar harðast á þeim sem minnstar hafa tekjurnar og þyngstu framfærslubyrðina. En gróðafyrirtækjum er með öllu sleppt. Hálft annað þúsund þeirra greiða ekkert eða svo til ekkert í tekjuskatt. Þau koma afrakstrinum undan með afskriftum og skattfrjálsum varasjóðstillögum. Ríkisútvarpið, hinn nýi flati tekjuskattur, kemur ekki við þau. Þeim er ekki einu sinni ætlað að greiða skyldusparnað. Engar ráðstafanir eru heldur gerðar til að fylgjast betur með söluskattsskilum þeirra. Heimilt er þó að lögum að nota til þess sérstaka peningakassa þar sem stimpluð væru inn söluskattsviðskipti, en sú heimild er ekki notuð. Það munar þó ekki svo lítið um hverja prósentu sem ekki er skilað af söluskatti. Ef sá söluskattur, sem skilað er, væri t.d. 95% af því sem raunverulega er innheimt af viðskiptavinum, þá vantaði nær 2 800 millj. kr. upp á full skil. En jafnvel heimild í lögum til að fylgjast betur með þessum skilum er ekki notuð. Skattheimta af sjúklingum og af launum almennings er stjórnarflokkunum nærtækari.

Samtímis aukningu skattheimtu með beinum sköttum við afgreiðslu fjárl. er gert ráð fyrir verulegum hækkunum á þjónustugjöldum ríkisstofnana. T.d. er við það miðað í rekstraráætlun Pósts og síma, að afnotagjöld hækki um 40% 1. febr. n.k. og um 12% þar á ofan síðar á árinu, eða alls um 57% á næsta ári.

Eins og áður hefur verið rakið, eru ytri aðstæður nú hagstæðari þjóðinni en nokkru sinni fyrr. Þjóðartekjur á mann eru í ár nær 11% hærri og verða á næsta ári 14% hærri en 1972, ef svo fer sem spáð er. Kaupmáttur kauptaxta er á hinn bóginn lægri í ár og verður á næsta ári lægri en 1972. Þrátt fyrir allt þetta hefur stjórnarstefnan leikið efnahagskerfið og hag ríkissjóðs svo, að nú er lagt til við afgreiðslu fjárlaga að auka enn skatta, en skera niður samfélagslegar framkvæmdir.

Við þessa fjárlagaafgreiðslu er verið að láta almenning greiða þann hluta reikningsins af óstjórninni í efnahagsmálum sem varðar kostnaðinn við að krækja saman fjárl. fyrir næsta ár. Annar vandi efnahagslífsins er eftir skilinn. Þó svo vel ári, að verðlag og magn útflutnings sé í algjöru hámarki, hefur ráðsmennska hæstv. ríkisstj. og verðbólguræktun hennar undanfarin ár valdið því, að nú eru gerðar kröfur um aðstoð við alla aðalatvinnuvegi þjóðarinnar. Það hefur komið fram við fjárlagaafgreiðsluna, að þrátt fyrir álögurnar, sem hér er verið að samþykkja, og þá rýrnun kaupmáttar launa, sem þær valda, er gert ráð fyrir nokkuð annarri verðlagsþróun en núverandi aðstæður gefa tilefni til. Augljóslega er því gert ráð fyrir enn frekari aðgerðum. T.d. er upplýst að verð erlends gjaldeyris muni á næsta ári hækka um 18%, en það er um 50% meiri hækkun en verður á þessu ári.

Aðferðir núv. stjórnarflokka við að leysa þann vanda, sem þeir hafa komið ríkissjóði í, liggur nú fyrir. Skattlagningin, sem gripið er til, bitnar einhliða á launafólki, og harðast er sótt að þeim sem minnst mega sín. Hugur þeirrar íhaldsstjórnar, sem nú fer með völd, stendur án efa til þess að leysa með svipuðum hætti þann vanda sem eftir er skilinn. Viðbrögð verkalýðssamtakanna og þeirra stjórnmálaafla, sem styðja þau, munu ráða úrslitum um það, hvort sú aðför að hagsmunum launafólks tekst eða ekki.