20.12.1977
Sameinað þing: 34. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

1. mál, fjárlög 1978

Frsm. samvn. samgm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Áratugum saman hafa samgn. beggja þd., 14 þm. alls, haft mjög náið samstarf um úthlutun þess fjár sem látið er renna til flóabáta og vöruflutninga. Ég ætla að þessi samvinna hafi reynst vel, a.m.k. þykir engum ráðum ráðið, svo að vel fari, á þessu sviði, nema ákvörðun sé um það tekin af báðum nefndum í einni málstofu, helst með shlj. atkv. þó að út af því kunni að bregða í einstöku tilvikum er samstarf nm, í samvn. samgm. yfirleitt með ágætum.

Það er venja að setja í fjárlagafrv. þá heildartölu flóabátafjár sem stendur í fjárl. hvers árs, en þessi tala hefur yfirleitt hækkað mjög verulega við þinglega meðferð málsins. Á fjári. þessa árs er heildartalan 152 millj. 500 þús. kr. Svo sem kunnugt er er sú stefna yfirlýst við þessa fjárlagagerð, að styrkja beri fjárhag ríkissjóðs og stuðla með öllu móti að efnahagslegu jafnvægi, sporna við útþenslu ríkisbúsins og ríkisútgjalda, spara helst eitthvað svo að um muni og hætta að safna skuldum erlendis og innanlands. Um allt þetta er gott eitt að segja. En mjög margir fjárlagaliðir eru þó með því marki brenndir, að það er hægara sagt en gert að halda þeim í horfinu, halda þeim í skefjum, hvað þá lækka til stórra muna, ef veita á sambærilega þjónustu við það sem tíðkast hefur á liðnum áratugum.

Einn af þeim þáttum fjárlaga, sem jafnan stefna að mikilli hækkun árlega, eru þessi framlög til flóabáta og vöruflutninga. Fólkinu fjölgar, samskipti aukast og allir vilja og þurfa að komast leiðar sinnar, hvar á landinu sem þeir eiga heima. Þörfin til styrkja af þessu tagi er að vísu dálitið mismunandi eftir veðri og færð, ef svo má segja. Ég get sem dæmi nefnt hvernig eitt bréf, sem við fengum af Vestfjörðum, byrjar. Það hefst á þessum orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Heiðraða samvinnunefnd samgöngumála. Þeim gaf guð sem þurfti, varð mér að orði er ég fór að athuga hvernig síðasta styrk frá n. er varið, sem og leiddi til þessa bréfs. Var ég þá með í huga s.l. vetur, sem mætti kalla í annálum vetur hinn snjólausa.“

Samvn, samgn, hafa að vanda borist mörg erindi sem um hefur verið fjallað á nokkrum fundum. Á nefndarfundi hefur verið venja á undanförnum árum að kalla forstjóra Skipaútgerðar ríkisins til þess að gefa ýmsar upplýsingar. Nú var sá háttur hafður á, að á fundina var kölluð n. manna, hin svokallaða flóabátanefnd, er samgrh. skipaði með bréfi, dags. 17. jan. 1977, til að gera athugun á rekstri og þjónustu flóabátanna. Þessa n. skipa eftirtaldir menn: Halldór S. Kristjánsson deildarstjóri í samgrn., og er hann formaður n., Guðmundur Einarsson forstjóri Skipaútgerðar ríkisins, Tómas H. Sveinsson viðskiptafræðingur, Jón Helgason alþm., formaður samgn. Ed., og Friðjón Þórðarson alþm., formaður samgn. Nd. Alþ. Flóabátanefnd þessi hefur haldið marga fundi og safnað ýmsum gögnum, gert ýmsar athuganir, en hún hefur ekki enn þá lokið störfum til fulls.

Ég sagði að mörg erindi hefðu komið á borð okkar nm. Er þar fyrst að nefna hina stærri flóabáta, svo sem Herjólf, Akraborg, Baldur, Fagranes og Drang. Allir þessir bátar hafa sent umsóknir og ársreikninga og aðrar skýringar og gögn. Einnig hafa margir smærri aðilar sent umsóknir. Það eru aðallega þeir sem gera út snjóbifreiðar og önnur farartæki til vetrarflutninga á hinum ýmsu leiðum um gervallt landið. Umsækjendur að þessu sinni eru rúmlega 40 eða svipuð tala og undanfarin ár.

Það má segja að sameiginlegt sé flestum umsækjendum, sem halda uppi ferðum við óblíð skilyrði að mörgu leyti, að hagur þeirra er þröngur. Í þessar ferðir verður að hafa farartæki, sem á má treysta. Þau verða að vera sterkbyggð og þau eru þess vegna dýr, bæði í innkaupum og rekstri. En til þeirra verður oft að kalla fyrirvaralaust, ef bráðan vanda ber að höndum. Og ekki er um það að deila, að þau veita ákaflega mikilvæga öryggisþjónustu, sem í raun og veru verður ekki metin til fjár, þó að mikið fé þurfi til að halda henni uppi.

Ég vil sérstaklega taka fram að fjárveitingar þær, sem hér er um að ræða, eru aðallega rekstrarstyrkir. Þó hefur verið talið rétt að reyna að veita nokkurn stuðning þegar um endurnýjun dýrra farartækja er að ræða og þar sem sérstök fjárhagsleg áföll hafa dunið yfir eða skuldabyrði er lítt bærileg að dómi nm. Allir slíkir styrkir eru einu nafni nefndir stofnstyrkir í þessu nál.

Nál. um framlög til flóabáta og fólks- og vöruflutninga frá samvn. samgm. er á þskj. 240. Verður nú í fáum orðum vikið að samgöngum þessum, eins og þeim er hagað í byggðum landsins, eins og venja hetur verið á undanförnum þingum.

Ég nefndi þá fyrst Norðurlandssamgöngur. Þar er Norðurlandsbáturinn Drangur, sem árum saman hefur annast ferðir og flutninga á Eyjafjarðarhafnir, gerður út frá Akureyri, fer um Hrísey, Ólafsfjörð, Siglufjörð og til Grímseyjar. Þessi bátur er nú orðinn 18 ára gamall. Útgerð hans hefur gengið vel, enda þar dugmiklir menn að verki, en eins og að líkum lætur þarf nú að fara að huga að endurnýjun skipsins. Í bréfi frá framkvæmdastjóra segir svo m.a.:

„Á næsta ári hef ég hugsað mér að kaupa allverulegan hluta af þeim varahlutum sem þarf til endurbyggingar vélarinnar. Sjálf endurbyggingin vonast ég til að megi bíða eitthvað. Lestunar- og losunarútbúnaður bátsins er orðinn mjög lélegur. enda báturinn orðinn 18 ára. Í stað spils, sem er orðið mjög slitið, og bómu væri æskilegt að fá krana. Krani með 5 tonna lyftu getur kostað óniðursettur 3.5 millj. kr. Skrúfu bátsins þarf að endurnýja áður en langt um líður. Mun það kosta eftir verðlagi í dag um 2 millj. kr.“

Þetta er sýnishorn af því, hvernig tekið er til orða í þeim bréfum sem okkur hafa borist frá hinum stærri flóabátum. Við töldum því nauðsynlegt að láta útgerð Drangs hafa nokkurn stofnstyrk auk venjulegs hækkandi rekstrarstyrks.

Um Eyjafjörð gengur hin svokallaða Hríseyjarferja milli Dalvíkur og Hríseyjar. Þessi ferja sinnir mikilvægu hlutverki. Hún er einnig, eins og Drangur, komin til ára sinna og þarf að endurnýja hana, eins og vikið er að í fjárlagagerðinni, að ég sá hér í dag. Við höfum því ákveðið nokkurn stofnstyrk í því tilviki einnig.

Þá eru styrktar flugsamgöngur við Grímsey nú sem fyrr. Það þykir sjálfsagt að styrkja þetta nyrsta byggðarlag okkar lands, bæði með ferðum báta og flugvéla.

Þá eru nokkrar snjóbifreiðar á Norðurlandi sem fá styrk, og nefna má einnig hina þróttmiklu flugbjörgunarsveit á Akureyri sem fær nokkurn styrk, þó að flugbjörgunarsveitir eða björgunarsveitir séu yfirleitt ekki styrktar á þessari grein fjárlaga.

Þá vík ég að Austfjarðasamgöngum. Á því svæði er enginn stór flóabátur, en Mjóafjarðarbátur annast reglubundnar ferðir milli Mjóafjarðar og Norðfjarðar og er í raun og veru eina samgöngutækið við Mjóafjörð mestallt árið. Í Mjóafjarðarhreppi mun eiga heima á fimmta tug manna, svo að það þykir sjálfsagt að styrkja þessa einu leið sem Mjófirðingar hafa til sambands við samgöngukerfi landsins. Þar er eins og víðar verið að kaupa nýjan bát í stað gamals báts sem þar var í förum. Við reynum að styrkja þetta nýja samgöngutæki bæði með því að veita rekstrarstyrk og einnig nokkurn stofnstyrk. Við, sem heimsóttum Mjóafjörð s.l. sumar, sjáum ástæðu til að gera okkar til að styðja þetta vinalega byggðarlag.

Á Austurlandi eru fjallvegir margir og háir, eins og kunnugt er. Telja Austfirðingar þrjár meginheiðar, þ.e. Fjarðarheiði, sem mun rísa 620 m yfir sjó, Oddsskarð, sem mælist 705 m yfir sjó, og Lónsheiði, 389 m yfir sjó. Fjarðarheiði hefur lengi verið talin einn erfiðasti fjallvegur landsins. Um Oddsskarð er það að segja, að þar voru tekin í notkun á þessu hausti göng, en þó er þess að geta, að þau lækka ekki þennan háa fjallveg, sem er einn allra hæsti fjallvegur landsins, nema um tæpa 100 m. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru þau í 607 m hæð Eskifjarðarmegin, 629 m hæð Norðfjarðarmegin, en hæst í miðjunni 632 m yfir sjávarmál. Að öðru jöfnu lítum við nm. í samvn. samgm. svo á, að þegar endurbætur eru gerðar á einhverri leið, þá eigi styrkir að lækka að sama skapi, a.m.k. ef endurbæturnar eiga að skila árangri. En það kann þó að vera, að á þessum leiðum hvíli þungi frá liðnum árum sem rétt er að lyfta nokkuð undir þannig að svipta ekki styrknum af öllum í einu. — Um Lónsheiði er svipaða sögu að segja. Þar hefur vegur verið gerður um Hvalnesskriður, og það ætti að muna eigi litlu, þar sem Lónsheiði er mjög erfiður fjallvegur þótt hún sé ekki hærri en það sem ég áðan greindi. En hvað sem þessu liður hefur verið talið nauðsynlegt að styrkja áfram flutninga og ferðir á öllum þessum fjallvegum, ekki síst þar sem verið er að kosta til nýrra farartækja, eins og raunin er bæði á Fjarðarheiði og Lónsheiði a.m.k.

Ég vík þá aðeins að Suðurlandssamgöngum. Við, sem búum annars staðar á landinu, viljum telja að samgöngur á Suðurlandi séu harla góðar. Þó er það svo, að þar er mikið hafnleysi til sjávarins og um langleiðir að ræða á landi. Því hefur það tíðkast árum saman að veita nokkurn styrk til vöruflutninga til hinna hafnlausu byggða í Skaftafellssýslu, og látum við þar af hendi rakna svipaða fjárhæð og á liðnum árum. Þá er þess að geta, sem snertir Suðurland, að Vestmannaeyjaskipið Herjólfur bættist í hóp flóabáta á s.l. ári og gerir nú heldur betur strik í reikninginn. Gamli Herjólfur var gerður út af Skipaútgerð ríkisins og átti áreiðanlega sinn þátt í þeim hallarekstri sem þar var jafnan. En um hinn nýja Herjólf, þótt það sé glæsilegt skip, er það að segja, að það varð fyrir miklum áföllum í rekstri á s.l. ári. Skipið er smíðað í Noregi, en við ábyrgðarskoðun komu fram gallar á skrúfuöxli sem orsökuðu algera rekstrarstöðvun skipsins frá 7. mars til 20. maí 1977 eða í 21/2 mánuð, og munar um minna þar sem umferð er jafnmikil og frá Vestmannaeyjum til lands. Við höfum því reynt að hlaupa þarna undir bagga, þótt það sé hvergi nærri nógu mikið miðað við þær fjárhæðir, sem þarna er um að tefla.

Þá er að víkja örfáum orðum að Faxaflóasamgöngum. Eins og kunnugt er gerir hlutafélagið Skallagrímur út Akraborg á leiðinni frá Akranesi til Reykjavíkur. Þetta er fjölfarin leið að fornu og nýju. Það er mikið um flutninga að ræða á þessari leið. Geta má þess, að Akraborgin flutti á s.l. ári tæpa 40 þús. bíla og telja því þeir, sem að útgerð hennar standa, að hún hafi létt verulega af þjóðvegum landsins og væri ekki óeðlilegt að hún fengi verulega hækkun á fjárframlagi þegar af þeirri ástæðu. En um annan stuðning en venjulegan rekstrarstyrk til Akraborgar er ekki að ræða á Faxaflóasvæðinu að talist geti.

Breiðafjarðarsamgöngur: Þar er Breiðafjarðarbáturinn Baldur gerður út. Hann á lögheimili og varnarþing í Stykkishólmi, heldur uppi reglubundnum ferðum milli Reykjavíkur og Breiðafjarðarhafna, einnig yfir Breiðafjörð til Flateyjar, um Breiðafjarðareyjar, til Barðastrandar, inn á Gilsfjörð og Hvammsfjörð. Baldur fer fastar áætlunarferðir og póstferðir allt árið um kring yfir Breiðafjörð. Einnig má geta þess, að Baldur hefur hlaupið í skarðið þegar Skipaútgerð ríkisins hefur þurft á að halda. M.a. fer hann iðulega til Vestfjarða. Geta má þess, að hann er m.a. að leggja af stað frá Reykjavík til Vestfjarða núna kl. 6 síðdegis í dag. Einnig hefur hann hlaupið í skarðið þegar Skipaútgerð ríkisins hefur orðið fyrir skakkaföllum, eins og t.d. þegar Herjólfur bilaði og varð úr leik á þessu ári. Á þessu svæði, Breiðafjarðarsvæðinu, er veittur styrkur m.a. til svokallaðs Langeyjarnesbáts, sem gengur frá Stykkishólmi um hinar byggðu eyjar Breiðafjarðar upp í Hnúksnes í Dalasýslu. Nauðsynlegt þykir að þessum tengilið sé haldið þarna áfram svo sem tíðkast hefur í mjög mörg ár. Loks eru veittir nokkrir smástyrkir til vetrarflutninga á Vesturlandi.

Um Vestfjarðasamgöngur er eitt og annað að segja. Þar annast Djúpbáturinn Fagranes ferðir og flutninga um Ísafjarðardjúp og mjólkurflutninga til Ísafjarðar, m.a. frá Dýrafirði og Önundarfirði. En hagur bátsins er þröngur, eins og reyndar Baldurs og fleiri skipa af þessu tagi. Útgerð þessa skips hefur gert glögga grein fyrir sínu máli. M.a. segir svo í bréfi frá framkvæmdastjóra — með leyfi hæstv. forseta — um framtíðarhorfur Djúpbátsins:

„Við núverandi aðstæður er ekki um að ræða nema ca. tveggja mánaða tímabil sem hægt er að reka bátinn hallalausan, þ.e. um ferðamannatímann. Í haust átti ég viðræður við Guðmund Einarsson forstjóra Ríkisskips um hugsanlega samvinnu Ríkisskips og Djúpbátsins að flutningum á vörum. Þær vörur, sem Ríkisskip flytti til Ísafjarðar, flytti Djúpbáturinn síðan á nærliggjandi hafnir. Ef það yrði hagkvæmt yrðu vörurnar að vera sem mest í gámum eða grindum, en Djúpbáturinn er ekki hagkvæmur til þeirra flutninga. Ástæðan er að sléttur fermetrafjöldi lestargólfs er of lítill, eins er lestarlúgan of lítil.“

Þannig eru vandamálin víða. Af þessum ástæðum hefur samvn. samgm. talið nauðsynlegt að veita nokkurn stofnstyrk, bæði til Djúpsbátsins og Breiðafjarðarbátsins. Á Vestfjörðum er einnig veittur styrkur til, að ég ætla, tíu snjóbifreiða sem fara um hina háu fjallvegi að vetrarlagi og annast flutninga á fólki og vörum. Einnig er veittur þar nokkur styrkur til svokallaðs Dýrafjarðarbáts, sem er lítill bátur, sem fer um Dýrafjörð, og svo mætti áfram telja. En ég læt þessu yfirliti lokið um hina einstöku landshluta.

Samvn. samgm. ítrekar fyrri ályktanir sínar þess efnis, að umsækjendur sendi umsóknir sínar í tæka tíð á hausti hverju til n. ásamt glöggri skilagrein um rekstur, hag og horfur, unnin störf og áætlanir í þessum efnum. Svo sem áður er getið vinnur nú sérstök flóabátanefnd að því að gera athugun á rekstri og þjónustu flóabátanna. í skipunarbréfi til nm., sem ég vék að í upphafi máls míns, segir svo m.a.:

„Nefndin skal athuga reikninga bátanna, sérstaklega hvað varðar launagreiðslur og annan útgerðarkostnað, svo og hvort tekjustofnar þessara aðila séu eðlilegir miðað við tilkostnað. Jafnframt er n. falið að kanna möguleika á endurskipulagningu samgangna til og innan einstakra svæða í því skyni að ná sem ódýrastri tilhögun flutninga fyrir samfélagið í heild með eða án opinberra styrkja.“

Að venju er það skilyrði sett fyrir því, að styrkur verði veittur og greiddur, að rekstri flóabátanna og annarra þeirra, er styrkinn hljóta, verði hagað þannig í samráði við rn., að þjónustan við landsbyggðina verði í senn hagkvæm og örugg.

Með hliðsjón af því, sem nú hefur verið greint frá, leggur samvn. samgm. til að heildarfjárveiting til flóabáta, snjóbifreiða, fólks- og vöruflutninga samkv. þessum lið á fjárlagaárinu 1978 verði 244 millj. 890 þús. kr. og skiptist sú fjárhæð eins og greint er á þskj. 241, og mun ég nú í lok máls míns gera grein fyrir þeirri skiptingu. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að fresta máli sínu um stund, vegna þess að ég hafði boðað þingfund kl. 5, ef hv. þm. vildi fresta máli sínu í bili.) — [Frh.]