20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1628 í B-deild Alþingistíðinda. (1327)

106. mál, fjáraukalög 1975

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða um fjárlagafrv. í heild. Hv. þm. Geir Gunnarsson hefur gert þar mjög skýra grein fyrir afstöðu okkar Alþb.-manna. Ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir fáeinum brtt. sem ég flyt. Þær brtt. eru ekki flokkspólitískar, að því er ég veit best, og eru ekki þannig hugsaðar af minni hálfu.

Á þskj. 245 flyt ég till. sem ég flutti við 2. umr. en dró til baka, um styrk til grænlensks stúdents annars vegar til þess að læra íslensku og Íslendings til að læra grænlensku. Framlög í þessu skyni hafa verið á fjárl. afar lengi, en því miður hefur verðbólgan leikið upphæðirnar þannig, að þessar fjárveitingar koma ekki að neinum notum. Mér finnst að þeir þm., sem telja eðlilegt að Íslendingar hefðu þessi lágmarkssamskipti við Grænlendinga, ættu að fallast á að breyta þessum upphæðum þannig að styrkirnir verði nothæfir. Þetta er afar lítil fjárhæð og raskar ekki á neinn hátt hinu flókna fjárlagadæmi. Ég geri mér vonir um að meiri hl. alþm. og helst alþm. allir geti fallist á þessa litlu till.

3. brtt. mín er í sambandi við Þjóðminjasafn Íslands, Ég hef áður vakið athygli á því hér á þingi, að þessi bygging, sem var gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín í sambandi við lýðveldisstofnun, er þannig, að þar eru lyftugöng, en lyftu hefur aldrei verið komið fyrir og inngangur í húsið er þannig, að fatlað fólk, sem er bundið við hjólastól, á þess engan kost að komast inn í húsið. Þetta er ástand sem er gersamlega ósæmandi fyrir okkur sem þjóð. Ég hef kynnt mér hvað slík lyfta mundi kosta, og hún kostar 10 millj. kr. Það er ekki há upphæð. Ég er hér með till. um 20 millj. kr, í þessu skyni og reikna þá með kostnaði við að koma lyftunni fyrir í húsinu og enn fremur öðrum framkvæmdum sem gera þarf svo að fatlað fólk geti athafnað sig á eðlilegan hátt í þessari byggingu, og þar á ég við breytingu á salernum og smávegis aðrar breytingar, Ég geri því till. um 20 millj. Ég hef ekki útreikninga neinna sérfræðinga á því, að hér sé um nákvæma upphæð að ræða, en mér sýnist alla vega að framkvæmdir muni ekki verða kostnaðarmeiri en þetta.

Ég vil leggja á það mikla áherslu, að þm. átti sig á að þannig er ástatt á Íslandi að um það bil sjöundi hver maður er fatlaður. Við verðum að vera menn til að haga þjóðfélagi okkar þannig, að þetta fatlaða fólk geti athafnað sig á eins eðlilegan hátt og því er fært, Með því að gera þessa breytingu í sambandi við þjóðminjasafnsbygginguna erum við að lyfta fána sem ég tel að við verðum að starfa undir á næstu árum. Það er ósæmandi ástand fyrir nokkurt menningarþjóðfélag að búa þannig að málum í sambandi við byggingar og umferð, að fatlað fólk geti ekki athafnað sig á eðlilegan hátt í þjóðfélaginu. Þetta er afleiðing af gömlum viðhorfum, þegar menn skildu ekki hvað lausn þessa vanda er brýn, en eins og sakir standa nú erum við orðnir miklir eftirbátar annarra Norðurlandaþjóða á þessu sviði. Þarna tel ég að við verðum að taka okkur mjög myndarlega á, og samþykkt á þessari till, mundi sýna þann vilja Alþ. að slíkt yrði gert, og þarna er eins og ég segi ekki um neina háa upphæð að ræða.

Ég á sæti í orkuráði, og eins og aðrar stofnanir, sem kosið er til á Alþ., gerði orkuráð till. í sambandi við gerð fjárlaga um fjárhag Orkusjóðs. Var fjallað um þær till. í stofnuninni og till. voru unnar sérstaklega að frumkvæði formannsins, hv, þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, og hv. þm. Ingólfs Jónssonar. En við, sem eigum sæti í orkuráði, stóðum að sjálfsögðu allir að þessum till. Þetta eru till. um að styrkja dreifikerfið í sveitum, um jarðhitaleit og lán til hitaveituframkvæmda og um átak í sambandi við sveitarafvæðingu. Þar eigum við, sem betur fer, ekki mjög mikið eftir að ná marki, en verðum að ná því marki, að allir Íslendingar eigi kost á raforku, nema þeir sem eru allra einangraðastir og þurfa að koma upp stöðvum við býli sín. Þetta eru till. sem við, fulltrúar Alþ., vorum sammála um. Þær hafa því miður verið skornar allmikið niður, auk þess sem sá háttur hefur verið tekinn upp á síðasta ári og árinu í ár að láta Orkusjóð taka lán til framkvæmda sem ævinlega voru fjármagnaðar af ríkissjóði áður. Ég tel að þetta sé röng stefna, auk þess sem hún grefur undan fjárhag Orkusjóðs, og ég tel einsætt að flytja sem kjörinn fulltrúi Alþ. í þessari stofnun þær till. sem við unnum sameiginlega að eins vel og dómgreind okkar leyfði. Þessi brtt, mín er sem sé till. okkar sameiginlega, upphaflega send frá okkur, og ég tel eðlilegt að hún verði lögð undir mat Alþingis.

Ég hef þá lokið að mæla fyrir þeim brtt. sem ég flyt einn á þskj. 245. Ég vil leyfa mér að segja nokkur orð um brtt. á þskj. 229, sem við flytjum allmargir þm, undir forustu hv. þm. Alberts Guðmundssonar. Þetta eru óskir sem bárust frá Reykjavíkurborg í sambandi við afgreiðslu fjárl. Við þm. Reykv. fengum allir bréf frá borgarstjóranum í Reykjavík þar sem hann bað okkur að beita okkur fyrir því, að fjárlagaliðir, sem snerta þau atriði sem talin eru upp í brtt., yrðu eins og þar er gert ráð fyrir. Þarna er um að ræða heilbrigðismál og heilsugæslu og skuldagreiðslu til Grensásdeildar. Þarna er um að ræða heilbrigðismál fyrst og fremst. Við skulum minnast þess, að þannig er ástatt í nútímaþjóðfélagi, að vissa þætti heilbrigðismála verður að hafa á tilteknum miðstöðvum. Hér í Reykjavík er sjálfgefin miðstöð til allra meiri háttar aðgerða í sambandi við slys og sjúkdóma, enda fer fólk af öllu landinu í sjúkrahúsin hér. Ég hef dálitið dvalist í sjúkrahúsum að undanförnu og hef sjálfur persónuleg kynni af því, að sjúklingarnir eru á engan hátt bundnir við Reykjavík, sjúklingar af öllu landinu eru að sjálfsögðu á þessum sjúkrahúsum, bæði ríkissjúkrahúsunum og Borgarspítalanum.

Ég vil leggja mikla áherslu á það, sem ég hef gert áður hér í þinginu, að við verðum að setja okkur það mark að verða fyrirmyndarríki á þessu mikilvæga sviði. Það er því miður ákaflega mikið um það að menn veikist, bæði af sjúkdómum og af slysförum, og við verðum að taka sameiginlega á því máli að tryggja heilbrigðisþjónustu sem sé sem allra fullkomnust og beri sem bestan árangur, þannig að sem allra flestir af þeim, sem verða fyrir sjúkdómum eða slysum, geti náð þeim bata að þeir geti aftur horfið til starfa sinna í þjóðfélaginu.

Þetta eru sem sé till. borgarstjórnar Reykjavíkur, einróma frá borgarstjórninni að ég hygg, og fluttar af okkur, sem kjörnir höfum verið á þing af Reykvíkingum úr þremur flokkum. Ég vil leggja á það mikla áherslu. að menn líti á þessar till. og geri sér grein fyrir því, að þarna er verið að fjalla um ákaflega mikilvægt mál. Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti.