20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1347)

1. mál, fjárlög 1978

Ellert B. Schram:

Virðulegi forseti. Ég hélt því fram í ræðu fyrr í haust, að störf fjvn. væru meira og minna handabakavinnubrögð, en mér er skylt að taka fram, að ekki var átt við vinnubrögð eða starf þeirra einstaklinga sem í n. sitja. Reynsla mín af þessum nefndarstörfum eftir nokkurra vikna dvöl í fjvn. er miklu fremur sú, að þar sé lengur og betur unnið en ég hef átt að kynnast annars staðar í n. í þinginu. Samstarf hefur allajafna verið gott og enda þótt upp úr sjóði í stöku tilvikum, þá er mér ljúft að þakka öllum nm. fyrir samskiptin og þó einkum formanni, sem hefur af ljúfmennsku sinni og lipurð stýrt þessum óstýriláta hópi í gegnum brim og boða. En þegar ég tala um handabakavinnubrögð á ég við, að fjvn. hefur hlægilega litinn tíma til að setja sig inn í mál eða þá yfirsýn yfir alla þá málaflokka sem felast í fjárlagafrv. N. gefast aðeins örfáar mínútur til að fá upplýsingar hjá hverjum og einum forstöðumanni hinna stóru ríkisstofnana, of mikill tími fer í smærri erindi og öll vinnuaðstaða er mjög bágborin. Yfirleitt eru mjög takmarkaðir möguleikar til að móta heildarstefnu í fjvn. Þetta þarf að laga.

Nú er það svo eins og endranær, að fjárlaga- og hagsýslustofnun fjmrn. ásamt með rn. hefur unnið langan tíma að gerð fjárlagafrv. Vitaskuld eru áhrif þeirrar meðferðar undir almennri leiðsögn fjmrh. það sem úrslitum ræður þegar frv. er í fyrstu samið. Þetta er engan veginn óeðlilegt og dregur alls ekki úr þýðingu eða áhrifum Alþ. En þau áhrif eru hins vegar ekki eins umtalsverð í raun vegna þeirrar lélegu aðstöðu og tímaskorts sem hrjáir fjvn. Ég er hins vegar sannfærðari um það en áður, að n. gæti með lengri starfstíma og betri aðstöðu haft miklu meiri jákvæð áhrif. Með því á ég við, að hún gæti orðið fjmrh. til meiri stuðnings við framkvæmd þeirrar stefnu sem hann og viðkomandi ríkisstj, fylgja hverju sinni í fjárhags- og efnahagsmálum. N. gæti styrkt hagsýsluna í þeirri viðleitni að gæta aðhalds og koma í veg fyrir bruðl og óhóf. N. hefði betri aðstöðu til að veita forstjórum og stofnunum lið þegar brýn mál eru á ferðinni sem ekki komast alla leið í gegnum kerfið vegna seinagangs eða skilningsleysis. Ég held sem sagt að fjvn. geti vissulega orðið það stjórntæki og það afl sem stjórnarskráin ætlar Alþ. og trúnaðarnefndum þess að vera.

Ég tek undir þau sjónarmið, að fjvn. fái umboð til starfa allan ársins hring og hún fái að fylgjast með fjárlagagerð mun fyrr á haustin. Þetta tengist þeirri breytingu sem ég tel óhjákvæmilegt að gerð verði á þingstörfum almennt.

Vandi fjvn. var óvenjumikill að þessu sinni. Auk þeirrar 14–15 milljarða kr, hækkunar sem þurfti til að leiðrétta fjárlagadæmið vegna launahækkana og annarra afleiddra ástæðna, þá reyndist svigrúm n. minna af þeim ástæðum, að frv. gerði ráð fyrir að opinberar framkvæmdir drægjust saman um 5% frá fyrra ári og hagsýsludeild fjmrn, hafði við frv: gerðina skorið beiðnir rn. og stofnana niður um hvorki meira né minna en 18 milljarða kr. Þegar rætt er um nauðsyn þess, að Alþ. gæti aðhalds og skeri niður fjárl. þá hafa menn sjaldnast í huga, að niðurskurður í þessum mæli hefur þegar farið fram þegar frv. er endanlega samið og lagt fram á hinu háa Alþ. Að þessu leyti hefur svigrúm fjvn. verið ákaflega lítið og felst helst í því að standa af sér ásókn rn. og stofnana í að koma inn þeim málum sem hagsýslan hefur áður skorið. Ég vek athygli á því, að enda þótt frv. hafi hækkað um 15 milljarða eða svo við meðferð þingsins, þá er meginhluti þeirrar hækkunar af annarra völdum en till. fjvn. N. hefur hækkað frv., eftir því sem ég kemst næst, um 480 millj. kr., og þar af eiga hækkunartill. hennar rætur sínar að rekja í um 200 millj. kr. óhjákvæmilegum leiðréttingum. Þá eru eftir um 280 millj., en það ern tæplega 0.2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Af öllu þessu má sjá, svo að ekki verður um villst, að bæði hjá rn, og hagsýslu og ekki síst hjá fjvn. Alþ. hefur þess verið vel gætt, að fjárl. færu ekki gersamlega úr böndum. Ég tel að hlutur fjvn, sé sérstaklega athyglisverður að þessu leyti og sýni vel og sanni að a.m.k. meiri hl. n. hefur fyrir sitt leyti gert sitt til þess að halda ríkisútgjöldum niðri.

Hv, þm. Sighvatur Björgvinsson gerði stefnu ungra sjálfstæðismanna um „báknið burt“ að umtalsefni fyrr í dag. Og hann spurði sjálfan sig og þingheim að því, hvers vegna þessi stefna væri sett fram um þessar mundir, taldi það vera gagnrýni á núv. ríkisstj. Ég vil hins vegar svara því svo, að ég hygg að þessi stefna sé sett fram einmitt á þessum tíma vegna þess, að ungir sjálfstæðismenn gera sér meiri vonir um að ná árangri í baráttunni við „báknið“ við þær aðstæður, sem nú ríkja, en þegar aðrir eru við stjórnvölinn hér á landi. Ég tek líka eftir því, að í nýsamþykktri stefnuyfirlýsingu Alþb. er sérstaklega víkið að þessu máli, Þar er farið allmörgum orðum um nauðsyn þess, að ríkisrekstur sé skorinn niður. Að því leyti er talað í sama anda og ungir sjálfstæðismenn hafa talað, svo mér sýnist að þeir séu ekki í slæmum félagsskap að því leyti.

Ég er í hópi þeirra, sem telja umsvif ríkisins of mikil og að „báknið“ þurfi burt. Mér er kunnugt um að sérstök nefnd er nú í þann mund að skila till. um að fella niður nokkur ríkisfyrirtæki. Hæstv. fjmrh. las upp bréf frá þessari nefnd fyrr við þessa umr., þar sem fram kemur að nefndin hefur nú þegar gert till. um að tvö fyrirtæki verði lögð niður og skilað verður till. um önnur tvö nú alveg á næstunni. Áfram þarf að halda á þessari braut og ná því markmiði, að atbeina ríkisins í rekstri fyrirtækja og þjónustu, sem aðrir geta séð um, sé í algeru lágmarki. Slíkar breytingar mundu verða til mikilla bóta og hreinsunar. Hitt er svo rétt að hafa í huga, að þær mundu ekki lækka svo mjög útgjöld ríkisins eða niðurstöðutölur fjári. Þar þarf því annað að koma til.

Langstærstu útgjaldaliðir fjárl. felast í heilbrigðis- og menntamálum annars vegar og hins vegar í fjölda starfsmanna í þjónustu ríkisins í þessum málaflokkum og öðrum. Það er t.d. óhugnanleg staðreynd, að hjá stærsta fyrirtæki landsins, Pósti og síma, stafa 60% útgjalda af beinum launagreiðslum. Vel má vera að einhverjir, sem heimta „báknið“ burt, vilji draga úr heilbrigðisþjónustu og fræðslu skólanna. En ég er ekki í þeirra hópi. Félagslegt öryggi, fullkomin heilbrigðisþjónusta og öflugt fræðslukerfi eru forsendur velferðar- og menningarþjóðfélags. Hitt er rétt, að í þessum efnum sem flestum öðrum þarf að gæta hagræðingar, ráðdeildar og skynsamlegrar nýtingar á því óhemjufjármagni sem til ríkisrekstrarins rennur. Einnig þarf með einhverjum ráðum að draga úr hinu fasta starfsliði og hinum mikla kostnaði sem felst í yfirbyggingunni sjálfri.

Starfsmenn ríkisstofnana sjálfra, svo og hagsýsludeild fjmrn., gera að sjálfsögðu sitt besta í þessum efnum, og hæstv. fjmrh. hefur sýnt mjög virðingarverða viðleitni í þessa átt. En ég hef þá skoðun að aldrei verði náð neinum tökum á þessu vandamáli né fulls aðhalds gætt nema Alþ., alþm. og almenningur fái sem gleggstar upplýsingar hverju sinni. Í sjálfu sér er eðlilegt að forstjórar stofnana og það fólk, sem vinnur að hverju einu máli, sæki á um hækkaðar fjárveitingar og meiri umsvif. En enginn aðill er betur til þess fallinn en einmitt fjvn. og Alþ. að sinna því hlutverki að fá yfirsýn yfir verkefnin og þarfirnar í heild sinni, að velja og hafna, raða verkefnum og leggja pólitískt mat þar á.

Á þeim stutta tíma, sem fjvn. sat að störfum, reyndist útilokað að fara svo ofan í saumana á stærri málaflokkum að leggja mætti fram ítarlegar till, um breytingar og niðurskurð. En augljóst er að víða þarf að taka til höndum. Í fjárl. eru fjölmargir liðir sem þurfa endurskoðunar við. Hér virðast t.d. lenska að halda því við sem einu sinni hefur verið samþykkt. Vanrækt er mjög víða að hækka tekjur og jafnvel leggja á gjöld fyrir þá þjónustu sem ríkisstofnanir veita. Í skjóli hefðar og sterkra stuðningsmanna er haldið við ýmsum ríkisrekstri sem löngu ætti að vera lagður af.

Eitt það alvarlegasta; sem einkennir fjárlagagerðina, er sú tilhneiging einstakra sveitarfélaga og hagsmunasamtaka að sækja stöðugt um fjárveitingar á fjári. til þess sem Alþ. er búið að fela öðrum aðilum að annast. Þá hef ég einkum og sér í lagi Byggðasjóð í huga. Mér er engin launung á því, að þessi þróun veldur mér nokkrum áhyggjum og hefur augljóslega þau áhrif, að sífellt stærri hlutur fer til hinna dreifðu byggða á kostnað þéttbýlisins. Ef þessir aðilar halda áfram að sækja um fé bæði hjá Alþ. á fjárl. og eins hjá þeim sjóðum sem eiga að annast fjárveitingar til viðkomandi verkefna, — ef þessu heldur fram sem horfir er óhjákvæmilegt að mínu mati að taka til algerrar endurskoðunar stöðu Byggðasjóðs og samspil sjóðsins og fjárl. Í þessu sambandi vil ég taka fram, að ýmsar bær ábendingar og till., sem ég hef gert í fjvn. hér að lútandi og m.a. mundu leiða til lækkunar, hafa ekki náð fram að ganga nema að óverulegu leyti. Það hefur valdið mér vonbrigðum. Ég vil einnig taka fram, að ýmsar þær till., sem n. gerir til breytinga á frv., eru mér ekki að skapi. Slíkt fylgir sennilega nefndarstarfi af þessu tagi.

Ég vil á hinn bóginn þakka n. ýmsar breytingar sem til bóta og framfara horfa. Fjárvelting til æskulýðs- og íþróttamála hefur t.d. hækkað mjög verulega á þessu ári, meira en dæmi eru til um áður. Fjárveiting til Íþróttasambands Íslands hækkar um nær 100% og fjárveiting til Ungmennafélags Íslands hækkar um tæplega 90%. Þessar fjárveitingar eru mikils metnar af íþróttahreyfingunni, æskulýðshreyfingunni og þær munu án efa skila sér í þróttmeira og öflugra starfi fyrir land og þjóð. Framlög til lista og menningarmála hækka einnig mjög myndarlega samkv. till. fjvn.

Aðhaldsstefna og sú stefna ríkisstj. að draga úr opinberum framkvæmdum hefur að sjálfsögðu bitnað á skóla- og sjúkrahúsabyggingum og þeim fjárveitingum sem til þeirra eru ætlaðar. Þetta kann að vera gagnrýni. En það er ekki bæði hægt að halda og sleppa. Ef við viljum hægja á verðbólgunni, draga úr spennunni og halda sköttum í skefjum, þá verður hið opinbera að ganga á undan. Ég fylgi þeirri stefnu. Öll sveitarfélög landsins, sem standa í framkvæmdum, eins og skóla- og sjúkrahúsabyggingum, munu að sjálfsögðu gjalda þessarar stefnu.

Það sama á við um Reykjavík og önnur sveitarfélög. Eins og ávallt áður er þörf hér í Reykjavík fyrir ýmsar þjónustubyggingar: skóla, sjúkrahús, dagheimili, íþróttamannvirki, mjög mikil. Hún kallar á fé. Sömu sögu er að segja af öðrum byggðarlögum um land allt. Beiðnir og kröfur koma frá þeim öllum um fyrirgreiðslu og fjárveitingar til mannvirkjagerðar. En það er fjarri því, að fjvn. hafi getað sinnt þeim öllum nú fremur en nokkru sinni áður.

Með hliðsjón af aðhaldsstefnu og takmörkuðu svigrúmi leyfi ég mér að halda því fram, að hlutur Reykjavíkur hafi ekki verið fyrir borð horinn. Framlög til skólabygginga í Reykjavík eru nú 238 millj. til grunnskóla, eru 17.4% af heildarfjármagni. Í fjárveitingatill. er gert ráð fyrir því, að fé sé veitt til allra þeirra skóla sem farið var fram á að fá fjárveitingar til. Til fjölbrautaskóla er hlutur Reykjavíkur 236 millj. af 293 millj. kr. sem fjárlagafrv. og till. gera ráð fyrir. Að því leyti er hlutur Reykjavíkur mjög góður, hún fær nánast alla fjárveitinguna.

Íþróttasjóður hafði umleikis nú samkv. fjárlagafrv. 247 millj., en til Reykjavíkur ganga af því 102 millj. eða 41.3%. Dagvistarheimili fá í sinn hlut 180 millj. Til Reykjavíkur ganga 60 millj., eða 33%, og inn eru tekin þau mannvirki, þeir leikskólar, dagheimili, sem lögð var áhersla á af stjórnvöldum borgarinnar.

Um sjúkrahúsmálin er það að segja, að upphaflega hafði heilbrrn. gert till. um 2.3 milljarða á fjárl. Af þeirri upphæð skyldu samkv. till. rn. ganga 230 millj. til Reykjavíkur. Þegar endanlega hafði verið gengið frá frv. hafði þessi upphæð, sem frá heilbrrn. kom, verið skorin niður nm í milljarð, hvorki meira né minna. Af þessum 1.3 milljörðum kr. fara 200 millj. til framkvæmda í Reykjavík. inn er tekin heilsugæslustöð í Breiðholti, í Mjóddinni í Breiðholti, sem borgarstjórn hefur lagt mikla áherslu á.

Að svo miklu leyti sem ekki er hægt að taka fullt tillit til beiðni borgarstjórnar Reykjavíkur, þá hefur það aðallega komið niður á verðbótum, en mjög hefur verið undir hælinn lagt á undanförnum árum, hvort verðbætur hafi verið greiddar. Það má að sjálfsögðu gagnrýna og er ekki til sóma. En í till. fjvn. nú hefur þó verið gengið inn á þá braut að taka tillit til verðbóta að nokkru leyti.

Hlutfall Reykjavíkur í fjárveitingum til heilbrigðismála er um 16% og er allóhagstætt, en skýringar á þessu eru fólgnar m.a. og aðallega í því, að nú er verið að byggja eða hefja byggingar stórra sjúkrahúsa, m.a. á Ísafirði og Akureyri, sem kalla á mikið fé.

Hlutur Reykjavíkur í heilbrigðismálum hefur því miður verið allslakur mjög lengi. Á árabilinu 1970–1977 var framkvæmdakostnaður á heilbrigðismannvirkjum hér í Reykjavík orðinn 892 millj. Af því hafði ríkissjóður greitt 277 millj. kr., en átti með réttu að greiða 732 millj. Hreinar umframgreiðslur hjá borgarsjóði með hliðsjón af nýtingu þessara heilbrigðismannvirkja voru því að mati borgaryfirvalda og heilbrigðisyfirvalda hér í borg 454 millj. Alvarlegasta dæmið í þessum efnum er slysadeildin. Get ég tekið undir það, sem fram kom hjá hv. þm. Albert Guðmundssyni þar að lútandi, þar sem hann rakti hversu aðstaða slysadeildar væri orðin slæm og hversu aðkallandi væri nú að gera þar bragarbót. Slysadeildin er að sjálfsögðu ekki rekin fyrir Reykvíkinga eingöngu, heldur þjónar hún allri landsbyggðinni. Samkv. athugun eru af þeim, sem leita til slysadeildarinnar, um 30–40% sjúklinga utan af landsbyggðinni. Þessi deild hefur sérhæft sig í að taka á móti slösuðu fólki. Þar starfar sérhæft fólk og aðstaða þess er nú orðin sú, að algerlega er óaðgengilegt og óviðunandi. Þess vegna var fullur hugur á því að lagfæra þetta og veita allverulega upphæð til slysadeildarinnar. En þegar til átti að taka var dregið fram bréf, þar sem upplýst var, að við samninga um greiðslu ríkissjóðs og borgarsjóðs vegna B-álmu hafi verið staðfest af báðum aðilum og ekki síst Reykjavíkurborg, að B-álma hefði algeran forgang hvað sjúkrahúsbyggingar í Reykjavík varðar. Þetta breytir ekki því, að sú fjárveiting, sem gengur nú til slysadeildarinnar, er allt of lág eða um 60 millj. kr. og gerir eingöngu kleift að um 40% af hinni nýju hæð slysadeildarinnar sé hægt að taka í notkun.

Af öðrum málum, sem varða Reykjavík og hafa þýðingu fyrir þetta byggðarlag, má nefna málefni Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem fengu góða fyrirgreiðslu frá n. N. hefur jafnframt samþykkt mjög ríflegar fjárveitingar til byggingar skólahúss að Lyngási inni í Háaleitishverfi, dómprófastur í Reykjavík hefur fengið góða fyrirgreiðslu og svo mætti áfram telja.

Ég vil sérstaklega nefna í þessu sambandi þau lög sem Alþ. er um þessar mundir að samþykkja, sem fela það í sér að lífeyrissjóðir kaupi verðtryggð skuldabréf fyrir allt að 40% af ráðstöfunarfé sínu. Þessi lög eru að mínu mati gölluð í grundvallaratriðum, því að ekki er geðfellt að þurfa að skylda lífeyrissjóðina til að ráðstafa fé sínu með einum eða öðrum hætti. Lögin hafa þó þann kost í för með sér, að fé lífeyrissjóðanna ætti að geta beinst til ýmissa þeirra sjóða sem styðja atvinnulíf, þ. á m. hér í Reykjavík.

Ég hef talið nauðsynlegt, herra forseti, að gera nokkra grein fyrir þessum málum, sem snúa að Reykjavík, vegna till. sem fram hafa komið um hækkun fjárveitinga til opinberra framkvæmda í Reykjavík. Það er rétt, sem hér kom fram áðan, að haldinn var fyrir nokkru sameiginlegur fundur þm. og borgarfulltrúa. Þar gerði ég skilmerkilega grein fyrir till. fjvn. varðandi Reykjavík, skýrði afstöðu mína og árangur í n. Þegar fullyrt er í þessum umr. að þeir, sem ekki vilja skrifa upp á hækkunartill, sem nema 350 millj., til málefna hér í Reykjavík, vilji ekki standa að till. borgarstjórnar, þá er rétt að taka eftirfarandi fram, a.m.k. hvað mig varðar.

Ríkisstj. sú, sem ég stend að og styð, hefur markað ákveðinn fjárlagaramma. Hún hefur lagt áherslu á að draga úr opinberum framkvæmdum, og ég hef starfað við þau skilyrði og í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið. Ég tel að fjvn. hafi í öllum aðalatriðum veitt fé til Reykjavíkur eins og aðstæður hafa leyft, og bendi á, að fleiri sveitarfélög en Reykjavík þurfa að sætta sig við niðurskurð af framangreindum ástæðum. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort þessar fjárveitingar séu nægar, og ég legg það í dóm hvers og eins. En ég treysti mér ekki til að skrifa upp á till. sem gera ráð fyrir hækkun á fjári. um 350 millj. eða um það bil. Kemur þar tvennt til: Í fyrsta lagi hef ég nú þegar skilað till. sem nm. í fjvn. og mun standa að þeim og samþykkja þær. Í öðru lagi mun ég ekki standa að slíkum hækkunartill. eftir að vera búinn að berjast í því í tvo mánuði að halda útgjöldum ríkisins niðri.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar í fjvn, hafa flutt miklar ræður um ríkisfjármál og efnahagsástand. Þær eru allar almenns eðlis, og enda þótt ég útiloki ekki, að í þeim felist einhver sannleikskorn, þá bera þær keim af málflutningi sem tilheyrir úreltri pólitískri umr. Þar er um að ræð; gagnrýni sem gerir enga tilraun til að viðurkenna orsakir verðbólgu og þann vanda sem stafar af 60% hækkun launa á einu ári. Það er ekki bent á neinar raunhæfar leiðir til lausnar. En sjálfsagt er nauðsynlegt fyrir þessa hv. þm. að flytja slíkar ræður og geri ég ekki mikið mál af því. Ég ræði þetta því ekki frekar.

Hlutverk fjvn. er ekki að móta efnahagsstefnu, nema að mjög takmörkuðu leyti, heldur að deila út því fé sem til skipta er, líta eftir því að það sé vel nýtt. Þetta er vandasamt og viðurhlutamikið verk, eitt stærsta og veigamesta verkefni Alþ. Ég hef haft reynslu og gagn af störfum mínum í n., og mér er það nú betur ljóst en áður, hversu mikilvægt það er, að sem flest kjördæmi í landinu eigi þar fulltrúa, og hversu fráleitt það er, að stærsta kjördæmi landsins sé sniðgengið í n. En ég geri mér líka fulla grein fyrir því, að menn þurfi þar að hafa til að bera nokkurn þroska til þess að líta til fleiri átta en til eigin kjördæmis. Ég geri mér grein fyrir göllum nefndarstarfs fjvn., en ég geri mér einnig grein fyrir vanda hennar. Sá vandi gerir störf í nefndinni ekki öfundsverð.

Ég hef þá lokið hugleiðingum mínum varðandi fjárlagafrv. og þær till. sem fram hafa komið. Ég vil hins vegar víkja örfáum orðum að till. sem varðar listamannalaun og hugsanlega einstaklinga á þeim lista sem Alþ. skal fylla.

Hér hefur verið rætt um þá leið að fjölga þeim, sem listann skipa, úr 12 í 15. Þetta atriði var ítarlega rætt í menntmn. beggja d. Menn komust þar að þeirri niðurstöðu, að engan vanda leysti þó að fjölgað væri í ár. Við stöndum frammi fyrir sams konar vandamáli næsta ár og næstu ár, enda þótt við fjölgum um 2–3 á þessu ári, vegna þess að það er alltaf svo á hverju ári, að það eru fleiri, sem koma til greina, en hægt er að taka á listann. Það kom líka fram það sjónarmið í n., að hér ætti að vera um fámennan hóp að ræða, þennan lista ættu að skipa afreksmenn á sviði lista og menningar, hann ætti ekki að vera svo fjölmennur að þar kæmust meðalmenn að. Með þessum orðum er ég ekki á neinn hátt að gefa í skyn að þeir, sem hér hefur verið stungið upp á, séu meðalmenn í listgreinum sínum, síður en svo. Ég tel að öll þau nöfn, sem nefnd hafa verið, mundu sóma sér vel á þessum lista. Ég er hins vegar sammála öðrum um að það leysi engan vanda, þó fjölgað sé í ár um þrjá menn, og þessi hópur eigi að vera tiltölulega fámennur. Alþ. á samkv. lögum að úthluta heiðurslaunum til listamanna, og Alþ. hefur valið sér þá aðferð að fela menntmn. beggja d. að gera till. um það. Það er rétt, sem fram kom í ræðu hv. síðasta ræðumanns, það er hvimleitt og frekar ógeðfellt að hér berist till. um einstaka listamenn á borð þm. og síðan sé verið að greiða atkv. um þá. Það er eins og menn séu settir á uppboð. Það er ekki skemmtilegt fyrir þm. að þurfa að taka slíka afstöðu. Ég held að skynsamlegt sé að menn ræði það í n. og komi sér saman um till. og við forðumst þannig opinberar deilur eða opinberan ágreining um þær till. sem við viljum leggja fram. Ég held að sá háttur, sem við höfum haft á undanfarin ár, sé byggilegur. Nm. í menntmn. hafa auðvitað aðstöðu til þess að hafa samband við sína samþm. og átta sig á hvort einn hafi stuðning frekar en annar. Það er líka gert. Og þegar menn eru að bera saman bækur sínar fer það alltaf svo, í þessu sem öðru, að einn verður ofan á og annar undir. En það þýðir ekki að verið sé að hafna mönnum endilega um aldur og ævi. Ég vil því eindregið fara þess á leit, með hliðsjón af því, sem ég hef sagt, og því, sem aðrir hafa sagt um þetta mál og eru sömu skoðunar og ég, að þeir, sem flutt hafa till. um að fjölga á listanum eða bæta við öðrum nöfnum en menntmn. hafa gert till. um, dragi till. sínar til baka.