20.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1661 í B-deild Alþingistíðinda. (1349)

1. mál, fjárlög 1978

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara mörgum orðum um afgreiðslu fjárlagafrv. í heild, ekki bera fjvn, og meiri hl. hennar þungum sökum. Ég hygg að hv. þm. Ellert B. Schram hafi gert ljósa og einfalda grein fyrir mismuninum á störfum fjvn. við umfjöllun og afgreiðslu fjárlagafrv. og svo á störfum fjmrh. við samningu þess. Eins og hv. þm. Ellert B. Schram sagði, þá kemur í hlut fjvn. að þessu sinni eins og þrisvar áður, og þá náttúrlega enn fremur að þessu sinni, að reyna að skipta skynsamlega og heiðarlega af bestu getu allt of litlum fjármunum sem ætlaðir eru til allt of stórra viðfangsefna. Ég nenni ekki heldur að fara að skamma hæstv. fjmrh. Matthías Á. Mathiesen sérstaklega í þessu sambandi. Ég hygg að þar hæfi skel kjafti sem hann fer með embætti fjmrh. í núv. ríkisstj. og minnki þessa ríkisstj, á engan hátt. Að vísu hefur komið í hans hlut að farnast með hverju árinu verr við samningu fjárlagafrv. í fjögur ár, en þó hygg ég að hann hafi unnið þar eins vel og hann gat. Sumir menn eru nú einhvern veginn þannig gerðir að ekki skiptir máli þó að þeir hafi gert eitthvað áður, það eykur ekki líkurnar á því að þeim farnist hefur næst.

Ég vil gera grein fyrir nokkrum brtt. sem ég, flyt við 3. umr. um fjárlagafrv., ýmist einn eða í félagi við aðra.

Ég flyt hér till. um breytingu við 6. gr., þar komi nýr liður: „Að taka lán, allt að 150 millj. kr. til þess að reisa við atvinnurekstur á Þórshöfn á Langanesi, með framláni til frystihúss staðarins.“

Svo sem kunnugt er var hæstv. forsrh. spurður að því í fsp.-tíma hér á Alþ., hvað ríkisstj. hyggðist gera til að hjálpa þeim á Þórshöfn í atvinnuleysi þeirra, þar sem þriðjungur þorpsbúa mátti una atvinnuleysi vegna þess að aflaskip staðarins var bilað. Hæstv. forsrh. sagði þá frá því, fyrir þrem vikum, að ríkisstj. hefði málið til athugunar og til greina kæmi að Síldarverksmiðjur ríkisins keyptu síldarverksmiðjuna á Þórshöfn, sem er eign sama félagslega aðila og frystihúsið og togarinn, og með þeim hætti fengist fé sem nægði til þess að kosta viðgerð á togaranum, sem hefur verið fremur lélegt skip síðan hæstv. ríkisstj. útvegaði þeim Þórshafnarmönnum fleytuna fyrir hálfu öðru ári. Það fór nú svo, að Síldarverksmiðjur ríkisins hafa enn ekki keypt þessa verksmiðju, en það hefur frést að Byggðasjóður muni leggja fram 50–60 millj. í viðgerð á togaranum. Þetta fé hrekkur ekki til að gera togarann þannig úr garði að hann megi heita gott skip, og enn síður hrekkur þessi upphæð til þess að koma rekstri frystihússins og atvinnumálum á Þórshöfn yfirleitt í sæmilegt horf. Þess vegna er það sem ég legg hér til, að bætt verði við 6. gr. þessum lið, að ríkisstj. verði falið að taka lán allt að 150 millj. kr. til þess að reisa við atvinnurekstur á Þórshöfn á Langanesi.

Við Alþb: menn höfum gert grein fyrir því, með hvaða hætti hægt er að skera niður ýmsar aðrar framkvæmdir sem við teljum að ekki standi til þjóðþrifa, en ákveðið hefur verið að taka lán til. Þar á ég náttúrlega fyrst og fremst við Grundartangaverksmiðjuna sem ýmsir hv. þm. hafa enn einu sinni fyrir skemmstu ítrekað hollustu sína við í nafnakalli hér á hv. Alþingi.

Ég er meðflm. að till. ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds um hækkaðar fjárveitingar til fóðurverksmiðju í Hólminum í Skagafirði og fóðurverksmiðju í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Ég mun ekki eyða löngu máli í grg. fyrir þessum till. okkar Ragnars. Þegar hafði verið heitið hátíðlega stuðningi af hálfu þm. stjórnarflokkanna í Norðurl. e. við smíði fóðurverksmiðjunnar í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu. Þm. kjördæmisins voru saman komnir á fundi í Húsavík fyrir tveimur árum, þar sem lögð voru fyrir þá óyggjandi plögg um hagkvæmni þessarar verksmiðju. Ég minnist þess, að útreikningar sýndu okkur að arður þessarar verksmiðju yrði um það bil þrefaldur á við þann arð sem helstu verkfræðilegir og hagfræðilegir sérfræðingar ríkisstj. höfðu reiknað út til handa þörungaverksmiðjunni á Reykhólum, þegar hagur hennar fyrirhugaðrar þótti standa með sem mestum blóma, og tvöfalt meiri en mestur hugsanlegur hagur sem bjartsýnismennirnir reiknuðu út af fyrirhugaðri málmblendiverksmiðju í Hvalfirði. Á þeim fundi minnist ég að þm. kjördæmisins, allir sem einn, hétu eindregnum stuðningi við þetta mál, að komið yrði upp grænfóðurverksmiðju eða graskögglaverksmiðju í Saltvík í Suður-Þingeyjarsýslu.

Loks er ég meðflm., ásamt þeim hv. þm. Helga Seljan, Magnúsi T. Ólafssyni og Jóni Árm. Héðinssyni, að till. um 2 millj. kr. fjárveitingu til Alþýðuleikhússins. Ég vil ekki endurtaka þau sannindi, sem hv. þm. Helgi Seljan bar fram í ræðu sinni áðan um þann menningarauka, sem þegar er orðinn af starfsemi Alþýðuleikhússins, eða um það, með hvaða hætti þetta umferðarleikhús hefur þjónað landsbyggðinni og brotið nýjar brautir raunverulega sem formlega er ætlunin að Þjóðleikhús gangi líka. En hitt er ég viss um, að sá tími er ekki langt undan, að menn munu komast að þeirri niðurstöðu, ef Alþ. sér ekki sóma sinn í því að styrkja Alþýðuleikhúsið til áframhaldandi starfa, að almannarómur mun ljúka því orði á að framkoma Alþ. sé til skammar.

Aðeins í lokin ætla ég að taka undir orð hv. þm. Gils Guðmundssonar sem hann viðhafði áðan um sjóminjasafnið. Ég hefði gjarnan viljað vera meðflm. að þeirri till. sem hann flytur um 5 millj. kr. framlag til sjóminjasafns. Ég er því kunnugur, að það eru ýmiss konar tæki og veiðarfæri, sem forðum og lengst af voru notuð á Íslandi til þess að draga björg í bú úr sjónum, sem nú liggja undir skemmdum og ekki verður hægt að endurnýja eða koma í slíkt ástand að á safni séu sýnandi, ef þetta verður látið dragast öllu lengur. Ég veit um nokkur skip, nokkur för til viðbótar, sem hefðu ákaflega mikla þýðingu í sambandi við slíkt safn og liggja nú undir skemmdum.

Snæfellið á Akureyri, stærsta eikarskipið sem smíðað hefur verið á Íslandi og enn er á floti, liggur nú í Akureyrarhöfn. Í fyrra lá við borð að því yrði siglt á haf út og sökkt þar niður. Skipið er enn þá sjófært og með tiltölulega litlum kostnaði væri hægt að gera það prýðilega sjófært. Þetta var stolt íslenskra skipasmiða á sínum tíma og þá náttúrlega fyrst og fremst skipasmiðaiðnaðar við Eyjafjörð. Þetta skin er falt fyrir sama og ekki neitt, svo sáralítið mundi kosta að koma því í það lag, að það mætti vel varðveita það um ókomna framtíð.

Vestur á Ísafirði stendur Sigurvon, sexæringurinn hans Einars heitins á Dynjanda í Jökulfjörðum, báturinn sem Hannes Hafstein stýrði á sínum tíma. Að vísu var sett í hann nýtt stefni og sett í hann vél. en báturinn er óbreyttur í öllum atriðum, að skutnum undanteknum, frá því sem hann var smíðaður. Þetta er allmerkileg fleyta þarna við Ísafjarðardjúp, en það er ekkert annað en tilviljun að ekki skuli vera búið að draga hann á brennu og brenna hann.

Ég er alveg viss um það, að við gerum rétt í því nú þegar að leggja af mörkum það fé sem við þurfum til þess að renna stoðunum undir sjóminjasafnið, svo að við getum byrjað á því að bjarga þessum minjum, því að eftir nokkur ár verða þær ekki lengur til.