20.12.1977
Efri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1354)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. til l. um breyt. á l. um löndun á loðnu til bræðslu er flutt vegna eindreginna tilmæla aðila sjávarútvegs í verðlagsráði, tilmæla frá fulltrúum Landssambands ísl. útvegsmanna, Sjómannasambands Íslands, Alþýðusambands Íslands, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og félags verksmiðja. Frv. felur það í sér, að við 2. gr. laganna bætist:

„Nefndinni“ — þ.e.a.s. loðnunefnd — „er heimilt að stöðva löndun um takmarkaðan tíma á ákveðnum svæðum eða í einstakar verksmiðjur, án tillits til móttökugetu þeirra.“ Þessu til viðbótar var samþykkt í Nd.till., að við mgr. bætist: „Þó er nefndinni skylt að leyfa löndun í einstakar verksmiðjur á ákveðnum svæðum ef öryggi skips eða skipshafnar krefur.“

Breyting sú, sem lagt er til að gerð verði á lögunum, felst í því, að nefndinni er heimilt að stöðva löndun um takmarkaðan tíma á ákveðnum svæðum eða í einstakar verksmiðjur án tillits til móttökugetu þeirra.

Frá því að lögin um löndun loðnu tóku fyrst gildi í byrjun ársins 1973 hefur heimild loðnunefndar til þess að stöðva löndun í einstakar verksmiðjur nánast takmarkast við það að tilkynna flotanum hvenær móttökugeta einstakra verksmiðja er þrotin og hvenær móttaka geti hafist að nýju. En með þessari breytingu á lögunum er nefndinni gefin heimild til þess að stöðva löndun í verksmiðju sem næstar eru veiðisvæðum hverju sinni, þó að þróarrými sé fyrir hendi hjá þeim, og láta veiðiskipin þess í stað flytja loðnu til annarra verksmiðja sem annars væru verkefnalausar.

Ég fyrir mitt leyti taldi rétt að verða við beiðni um að flytja þetta frv., þó að seint sé, en það er auðvitað komið undir velvilja hv. þdm. hvort þetta frv. nær fram að ganga eða ekki.

Nefnd í Nd. hafði samband bæði við fulltrúa loðnunefndar og þá aðila sem hér eiga hlut að máli, og var það samhljóða álit þeirra að nauðsyn væri á því að samþykkja þetta frv. með þessari tilteknu breytingu sem n. í Nd. gerði.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.