20.12.1977
Neðri deild: 44. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1361)

139. mál, vörugjald

Frsm. (Ólafur G. Einarsson):

Hæstv. forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft þetta mál til meðferðar og leggur til að frv. verði samþ. með þeim brtt. sem greinir á þskj. 289. Frv. gerði ráð fyrir að svonefnt tappagjald skyldi hækka um 7 kr. og hefði þá þetta gjald numið 105 millj. kr. Af því skyldu renna 45 millj. til Styrktarsjóðs vangefinna, þ.e.a.s. gjaldið til Styrktarsjóðsins skyldi hækkað úr 7 kr. í 10, en 4 kr. eða samtals 60 millj. skyldu renna í ríkissjóð.

Brtt. n. þýðir það, að gjaldið hækkar eingöngu um 3 kr. og rennur það allt í Styrktarsjóð vangefinna og mun þá nema um 45 millj kr.

Nú vona ég að hæstv. fjmrh. skilji þetta ekki svo, að nm. eða a.m.k. sumir þeirra vilji ekki sjá af þessum 60 millj. í ríkissjóð. Það má ekki skilja það svo, vegna þess að við viljum gjarnan að hann fái þessar 60 millj., en bara ekki með þessum hætti, og mætti gjarnan fá meira, a.m.k. sumra okkar vegna. En ástæðan fyrir því, að við teljum þetta ekki heppilega aðferð til að fá fé í ríkissjóð, er sú, að framfærsluvísitalan er mjög viðkvæm fyrir hækkunum á gosdrykkjum. Sem dæmi get ég nefnt að þessi hækkun um 3 kr. á lítra veldur 0.3 stiga hækkun á framfærsluvísitölunni, sem þýðir aftur 0.04% hækkun á kaupgjaldsvísitölu og þessi eina hækkun, þessi 3 kr. hækkun, þýðir að launagreiðslur ríkisins eins hækka um 15–20 millj. kr. á árinu 1978. Ef samþykkt yrði 7 kr. hækkun eins og frv. gerir upphaflega ráð fyrir, þá þýðir það a.m.k. 35 millj. kr. launahækkun hjá ríkinu á árinu 1978 vegna hækkunar á kaupgreiðsluvísitölunni.

Ég hef ekki undir höndum tölur um það, hverjar hækkanir yrðu hjá atvinnurekstrinum yfirleitt í landinu ef frv. yrði samþ. óbreytt, en okkur í n. þykir sýnt, að það sé ekki skynsamlegt að standa með þessum hætti að því að veita aukið fé í Styrktarsjóð vangefinna. Okkur er hins vegar ljóst að Styrktarsjóður vangefinna þarf á auknum tekjum að halda, og það er ekki tími til þess nú að finna aðrar leiðir en þessa. Kannske er leiðin út af fyrir sig ekki óskynsamleg, en hún er óskynsamleg a.m.k. á meðan reglurnar um vísitölu eru eins og þær eru.

N. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt með þessum brtt. sem ég hef gert grein fyrir og eru á þskj. 289.