20.12.1977
Efri deild: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1681 í B-deild Alþingistíðinda. (1368)

139. mál, vörugjald

Albert Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Mér barst í hendur afrit af bréfi nú fyrir skömmu sem Verslunarráð Íslands hefur skrifað fjh.- og viðskn. Ed. Alþ. 20, des. Mér þykir hlýða við þessa umr, að ég lesi þetta bréf, til þess að hv. þdm. geri sér betur grein fyrir því, hvað hér er á ferð. Með leyfi forseta, þá hljóðar bréfið svo. Efnið er vörugjald:

„Verslunarráð Íslands vill vekja athygli n. á því, að með frv. til l. um breyt. á l. um vörugjald, nr. 97, frá 1971 og nr. 118 frá 1976, er nú í annað sinn á rúmu ári verið að tvöfalda vörugjald af öll og gosdrykkjum. Vörugjald þetta var 3.80 kr. í árslok 1975 af markverði og á að hækka í 24 kr, úr 10.80 kr. nú. Gjaldið var 6 kr. af gosdrykkjum í árslok 1975 og hækkar nú í 26 kr. úr 13 kr, nú. Þessar fjárhæðir eru miðaðar við 1 lítra. Verði umrætt frv, að lögum renna nær 50% af útsöluverði öls og gosdrykkja í ríkissjóð. Sem dæmi má taka hvítöl og útsöluverð þess eftir áramótin, eftir umrædda vörugjaldshækkun, sem verður þá 128.42 kr. á litra. Útsöluverðið skiptist þannig: 68.20 kr. fara til verksmiðjunnar, 24 kr. eru vörugjald, 14.82 sérstakt 18% vörugjald og 21.40 kr. eru söluskattur. Þetta gerir samtals 128.42 kr. útsöluverð. Til verksmiðjunnar renna 63% af útsöluverði, en ríkissjóður fær 47% eða 60.22 kr. af lítra. Af sínum hluta greiðir ríkissjóður til Styrktarsjóðs vangefinna einungis 10 krónur á lítra sem hækkar um 3 kr. á sama tíma og hækkun gjaldsins nemur 13 kr.

Það má segja að mál þetta sé ekki stórt miðað við þá miklu fjáröflun sem nú á sér stað til að afla ríkissjóði tekna. Hér hefur hins vegar ein vörutegund verið tekin til sérstakrar og ört hækkandi skattlagningar sem er varhugaverð stefna að áliti Verslunarráðs Íslands.“

Ég vil taka undir þessi orð.