20.12.1977
Efri deild: 49. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1682 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

139. mál, vörugjald

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það er mjög leiðinlegt að fá svona mál á síðustu mínútum þingsins fyrir jól. Hér er bæði um það að ræða að halda áfram að nota markaða tekjustofna í ákveðnu skyni, sem margsinnis hefur verið lýst yfir að eigi að draga úr, og hins vegar að tryggja mjög þörfu og nauðsynlegu málefni nægilegt fjármagn. Það er hrein vanvirða við þm. að sýna okkur svona vinnubrögð — hrein vanvirða. Það er afsakað með klaufaskap að þetta skuli hafa borið að nú á þessum síðustu mínútum, en það sýnir bara að margt í okkar kerfi er gjörsamlega óviðunandi. Það er alltaf verið að tala um nýja tekjustofna, ný lög fyrir ríkissjóð og skiptingu tekna og þar fram eftir götunum, en samt sem áður er aldrei hægt að hafa hlutina í lagi. Ár eftir ár skeður það sama. Meira að segja við lánsfjáráætlun í fyrra gleymdist að útvega nokkra milljarða, þeir komu inn með nákvæmlega sama hætti á síðustu mínútum þingsins. Nú kemur frv. frá sjútvrh. sem skiptir — ég veit ekki hvað miklu fyrir suma báta, eftir hvernig framkvæmt verður. Það getur skipt á einni siglingu hundruðum þúsundum. En menn afgreiða þetta bara hér í hliðarsölum þegjandi og hljóðalaust — og umhugsunarlaust. Eins og sagt er á ensku: „no time“. Þetta eru ekki vinnubrögð sem hægt er að taka þátt í lengur. Það eina, sem stjórnarandstaðan ætti að gera, er að ganga úr þingsölum og láta ekki sýna sér svona framkomu. Vonandi væri þá settur punktur aftan við svona háttalag í framtíðinni. Þetta er gjörsamlega óþolandi.

Ég verð þó að taka undir orð hv. 7. landsk. þm., að hér er um þarft og gott málefni að ræða og við verðum að leysa það. En alveg með sömu rökum get ég sagt að efni þess bréfs, sem upp var lesið áðan frá kaupmannasamtökum, á fullan rétt á sér, að athugað sé út í hvað við erum að fara.

Þetta gengur ekki. Það kom fram á nefndarfundi í morgun í fjh.- og viðskn., að menn urðu allheitir í umr. út af því, hve skammur tími okkur er skammtaður til að taka ákvarðanir um stórmál sem takmarkaðar upplýsingar liggja fyrir um. Alþ. er orðið hrein afgreiðslustofnun og ekkert annað. Þá má bara hafa þetta allt á einum pappír og búið og einn stuttan fund. Ég get ekki komist hjá því að gera þessa athugasemd, því þetta er ekki nokkrum mönnum bjóðandi.