20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1375)

138. mál, löndun á loðnu til bræðslu

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það gladdi mig stórlega að heyra það af munni hæstv. sjútvrh., að hann ætlaði a.m.k. ekki að beita líkamlegum þvingunum til þess að fá deildina til að samþykkja eitthvað sem hún vildi ekki samþykkja. Það hafði mér raunar ekki komið í hug áður, en allur er varinn góður.

Í sambandi við loðnufrv. hið fyrra, sem hæstv. ráðh. talaði um að dagað hefði uppi hér í d., þá er það náttúrlega mála sannast, að það kom inn hingað líka í aðsogi fjárlagafrv. og síðustu anna, Okkur má vera það minnistætt, sem sitjum í sjútvn., með hvaða hætti það bar að. Síðan, þegar það spurðist út, barst út um byggðirnar hér við Faxaflóa, sjávarplássin, að frv. þetta væri komið hingað inn í skjóli náttmyrkurs, þá streymdu inn mótmæli frá útvegsmönnum í formi símskeyta, og starfandi formaður sjútvn. þá í fjarveru formanns, Steingríms Hermannssonar, Jón heitinn Árnason, mælist til þess að afgreiðslu frv. væri vegna mótmæla þessara manna, sem frv. kom á óvart, frestað svo að sjútvrh, gæfist kostur á að gera á því þær breyt. sem þyrfti til þess að útvegsmenn yndu við það. En hitt viðurkenni ég alveg fúslega, að það kom í ljós á vertíðinni á eftir að frv. hefði betur verið samþykkt.