20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1685 í B-deild Alþingistíðinda. (1377)

132. mál, ráðstafanir vegna lánsfjáráætlunar 1978

Frsm. minni hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn, d. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls og við hv. þm. Jón Árm. Héðinsson skilum því sérstöku nál. og leggjum til að frv. í óbreyttum búningi verði fellt.

Nú er það ekki svo, að allar greinar þessa frv. séu okkur jafnmikið á móti skapi. Efni frv. er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða ábyrgðarheimildir vegna lántöku og heimildir til lántöku, hins vegar um meðferð lífeyrissjóðanna á ráðstöfunarfé sínu.

Ég hef aldrei verið í hópi þeirra manna sem gert hafa mikinn hávaða út af þeim fjárfestingarlánum erlendum sem við Íslendingar höfum talið okkur óhjákvæmilegt að taka á undanförnum árum til framkvæmda hér á landi. Mér hefur alltaf fundist að það væri heldur yfirborðskenndur tónn í þeim málflutningi sem legði alla áherslu á að berjast gegn erlendum lántökum. Þegar um hefur verið að ræða nauðsynlegar framkvæmdir, nauðsynlegar fjárfestingarframkvæmdir, þá er augljóst mál að við Íslendingar verðum að taka lán og það hljótum við að gera að talsverðu leyti á erlendum lánamörkuðum. Hitt hefur verið aðalmálið, að núv. ríkisstj, hefur tekið hvert eyðslulánið af öðru, tekið lán til þess að jafna viðskiptahallann sem stafað hefur af rangri stjórnarstefnu og af því meginsjónarmiði ríkisstj., að ekki megi á nokkurn hátt takmarka innflutning til landsins. Það eru þessi eyðslulán sem eru stóra hneykslið í sambandi við lánamálin og eiga sinn stóra þátt í því, að erlend skuldabyrði hefur farið vaxandi í krónum talið og jafnvel í dollurum talið, jafnvel þótt hún hafi ekki vaxið neitt sérlega miðað við útflutningstekjur þjóðarinnar og alls ekki í þeim mæli sem Seðlabankinn hefur verið að spá á undanförnum árum. En nóg um það.

Það er hinn þáttur málsins sem er okkur fyrst og fremst þyrnir í augum, að hér er verið að taka fjármagn lífeyrissjóðanna traustataki með löggjöf og ráðstafa því á ákveðinn hátt, Þetta fjármagn og þessir sjóðir eru að nokkru leyti á loðnu til bræðslu. 1686 bein eign verkalýðshreyfingarinnar og að nokkru leyti óbein eign. Verkalýðshreyfingin fékk því framgengt, að þessir sjóðir tóku til starfa og hafa verið byggðir upp, og hún varð á sínum tíma að kosta því til að slá nokkuð af launakröfum sínum, fórna nokkru til þess að þetta spor yrði stigið, Ég tel að í sjálfu sér sé ekkert óeðlilegt að stjórnvöld láti sig miklu skipta á hverjum tíma hvernig þessu fjármagni er varið. En hitt er jafnljóst, að verkalýðshreyfingin lætur sig miklu skipta hvað verður um þetta fjármagn og það er ekki eðlilegt að þetta fjármagn sé af henni tekið nema að undangengnum frjálsum samningum við þá sem raunverulega eiga þetta fjármagn og hafa ráðstöfunarrétt á því lögum samkvæmt. Lágmark væri að þeir samningar gengju út á það, til hvaða þarfa þetta fjármagn verði notað.

Eins og mönnum mun kunnugt hafa verið uppi á undanförnum árum mikil áform um stórauknar félagslegar íbúðabyggingar, enda mikill áhugi á því hér á landi, og fyrir 4 árum voru samþykkt lög hér á Alþ. um byggingu 1000 leiguíbúða og gert ráð fyrir því, að þær yrðu byggðar á tiltölulega skömmum tíma í framhaldi af setningu þeirra laga. En þótt nú séu liðin um 4 ár síðan þessi lög voru sett og loforð gefin um byggingu 1000 leiguíbúða, þá er ekki enn búið að gera ráðstafanir til byggingar nema rétt um helmings af þessum íbúðum. Eins er um margendurtekin loforð stjórnvalda um íbúðarbyggingar til sölu til tekjulágra félagsmanna verkalýðshreyfingarinnar. Það vantar stöðugt fjármagn til að þessi byggingarstarfsemi haldi áfram með eðlilegum hætti.

Auðvitað lægi beinast við að fjármagn lífeyrissjóðanna rynni til þessara nota og því mundi verkalýðshreyfingin vafalaust vilja beita sér fyrir. En hér er gengið svo djarflega til verks, að án nokkurra samninga og ekki einu sinni samningaviðræðna eða tilrauna til samkomulags við verkalýðshreyfinguna á að taka þetta fjármagn traustataki með lagasetningu. Við, sem skipum minni hl, n. erum algjörlega andvígir þessum vinnubrögðum, teljum að þau séu frekleg móðgun við verkalýðshreyfinguna í landinu og munum, ef þessu ákvæði verður ekki breytt, greiða atkv. gegn þessu frv.

Um þetta frv. er að öðru leyti ekki mikið að segja. Eins og ég sagði varð fjhn. ekki sammála um afgreiðslu þess á stormasömum fundi sem haldinn var í morgun, þar sem þung orð féllu og hurðum var skellt. Ég á nú ekki við það, að við stjórnarandstæðingar höfum verið háværir, því að eins og öllum er kunnugt erum við hljóðir og hógværir menn. Sá, sem hæst lét í þetta sinn, var forustumaður stjórnarandstæðinga innan stjórnarflokkanna, sá sem ætlar sér að vera fánaberi stærsta stjórnmálaflokksins í stærsta kjördæmi landsins, en virðist snúast til andstöðu við gerðir flokksins, í svo til hverju einasta máli. Ég er hræddur um að þeir þoki engu fram og að öllu óbreyttu muni kjósendur verða dálítið ringlaðir í því, hvað þeir eru að kjósa, þegar þeir kjósa þennan ákveðna flokk sem hefur svo fagurlega tálbeitu í efsta sæti.