20.12.1977
Efri deild: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1696 í B-deild Alþingistíðinda. (1386)

139. mál, vörugjald

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um breyt. á l. nr. 97 28. des. 1971, um vörugjald. N. mælir með því, að frv. verði samþ. Albert Guðmundsson tekur ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Þetta frv. barst til okkar í dag og fengum við lítinn tíma til að fjalla um það. En þar sem hér er um að ræða tekjustofn fyrir Styrktarsjóð vangefinna og þessar tekjur munu væntanlega gefa þeim sjóði 45 millj. kr., þá viljum við ekki taka á því ábyrgð að þessi sjóður verði af þeim tekjum sem hér er gert ráð fyrir. Hins vegar kom fram í n., og vil ég koma því á fram færi, mikil óánægja með að mál eins og þetta skuli ekki vera fyrr fram komið. Það hefur áður gerst og yfir því verið kvartað, að svo er með ýmis fleiri mál sem hefðu mátt koma mun fyrr fram nú fyrir jólaleyfi. Ég vil koma þessu á framfæri við hæstv. ráðh, og ríkisstj. fyrir hönd n. og mælast til þess, að það verði tekið til alvarlegrar athugunar. Það hljóta að vera takmörk fyrir því, hvað þm. komast yfir að afgreiða nú á þessum síðustu dögum fyrir jól.

Ég vil sérstaklega þakka nm. í fjh: og viðskn. fyrir gott samstarf á þessum síðustu fundum, og ég fullyrði að ef ekki hefði verið gott samstarf milli n. í báðum d. þingsins, eins gott samstarf og raun ber vitni og starfsvilji innan fjh.- og viðskn. hér í d., þá hefði ekki verið unnt að afgreiða mjög stór mál sem nú hafa hlotið afgreiðslu. Vil ég sérstaklega þakka nm. þetta.