21.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1703 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

137. mál, frestun á fundum Alþingis

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þetta verður síðasti starfsdagur hins háa Alþingis á þessu ári. Ég get út af fyrir sig fallist á að fundum Alþ. verði frestað í um það bil mánaðartíma og hæstv. ríkisstj. hafi heimild til útgáfu brbl. í þann tíma ef brýna nauðsyn ber til, enda munu mörg fordæmi vera fyrir slíku. En hitt er annað mál, að ég vil strax í þessu sambandi láta í ljós þá eindregnu ósk, að hæstv. ríkisstj, beiti ekki valdi sínu til útgáfu brbl. nema þá brýna nauðsyn beri til og þá að höfðu samráði við stjórnarandstöðu og samtök vinnumarkaðarins. Tel ég raunar að slík samráð þurfi að koma til, þ.e. samráð við stjórnarandstöðu og samtök vinnumarkaðarins, þó að ekki komi til útgáfu brbl. Vandi sá, sem við blasir í efnahagsmálum, er svo mikill að ólíklegt er að ekki þurfi að grípa til einhverra ráðstafana í þessu þinghléi, annaðhvort með eða án útgáfu brbl. Ég tel með hliðsjón af því, hversu vandinn er mikill og alvarlegur, lýðræðislega skyldu hæstv. ríkisstj. að hafa áður eða við undirbúning þess, sem gert kann að verða, samráð við stjórnarandstöðuflokkana þrjá og við samtök vinnumarkaðarins. Sem dæmi um það, að hér er ekki farið með ýkjur, vil ég leyfa mér að benda á nokkrar staðreyndir um þann mikla vanda sem við blasir og sagt hefur verið um réttilega að aldrei á undanförnum árum hafi verið meiri en einmitt nú.

Ég vil í þessu sambandi fyrst nefna hina mjög alvarlegu stöðu útflutningsatvinnuveganna. Þar tel ég mesta og alvarlegasta vandann sem við blasir á sviði íslenskra efnahagsmála. Ég hef kannað að ekki er ástæða til að rengja þær opinberu frásagnir fulltrúa íslenska frystiiðnaðarins, að að öllu óbreyttu sé fyrirsjáanlegur á frystiiðnaðinum á næsta ári allt að 5 milljarða kr. rekstrarhalli. Það þarf ekki neinar frekari skýringar við, að við svo búið má auðvitað ekki standa, að aðalútflutningsatvinnuvegur landsmanna horfi fram á allt að 5 milljarða kr. rekstrarhalla. Þessu til viðbótar er það að segja, sem þó mun ekki hafa komið fram opinberlega enn, að öldungis má fullvíst telja að staða saltfiskframleiðslunnar sé mjög alvarleg og hún sjái fram á hundruð millj. kr. halla þrátt fyrir stórfelldar greiðslur úr verðjöfnunarsjóði. En í því sambandi er óhjákvæmilegt að taka fram og leggja meira að segja á það sérstaka áherslu, að um langt skeið undanfarið hefur verðjöfnunarsjóðurinn verið stórlega misnotaður. Hann hefur verið notaður í öfugum tilgangi við upprunalegt markmið sitt samkv. gildandi lögum um hann sem nú eru bráðum 10 ára gömul. Ég orðlengi ekki um það, sem öllum hv. alþm. er að sjálfsögðu ljóst, að verðjöfnunarsjóðnum var ætlað það hlutverk að taka við greiðslum í góðæri, en greiða halla útflutningsatvinnuvega þegar á bjátar. Þetta hefur ekki átt sér stað undanfarið. Greiðsluafgangur eða fjármunir í verðjöfnunarsjóði frá góðærum hafa verið notaðir þótt góðæri hafi haldist, jafnvel þótt það hafi farið vaxandi. Um þetta er ekki hægt að hafa önnur orð en misnotkun á sjóðnum, notkun á honum sem er andstæð skýrum ákvæðum í lögum um tilgang hans. Þessar ráðstafanir hafa að sjálfsögðu haft mjög mikil áhrif til verðbólguaukningar í landinu, þótt kosið hafi verið að þegja um þær, en skella í staðinn allri skuldinni á launþegasamtökin og mikla kröfugerð á launamarkaðnum.

Það er ekki aðeins að frystihúsin séu í mestum vanda allra íslenskra atvinnugreina, sem þó ætti að vera þannig ástatt um að staða þeirra væri tryggust. Það gildir einnig um saltfiskframleiðsluna, eins og ég gat um áður. Og þetta á ekki aðeins við um sjávarútveginn. Ábyrgir fulltrúar íslenskra iðnrekenda, sem ekki eru vanir að fara með fleipur í opinberum málflutningi, hafa lýst væntanlegri stöðu iðnaðarins á komandi ári með mjög alvarlegum orðum sem full ástæða er til að taka tillit til, en stjórnvöld virðast fram að þessu hafa skellt við skollaeyrum og ber mjög að harma það. Það er því ekki aðeins staða sjávarútvegsins, sem er mjög erfið, heldur einnig staða hins aðalatvinnuvegar þjóðarinnar, íslensks iðnaðar.

Og væntanlega ætti hvorki að þurfa að minna hæstv. ríkisstj. né hv, alþm. á þær raddir sem heyrst hafa frá bændafundum víðs vegar um land á undanförnum vikum og mánuðum, þar sem mjög er kvartað undan afkomu landbúnaðarins og afkomu bænda, svo að ekki er vandinn minni á þessu þriðja höfuðsviði íslenskra framleiðsluatvinnuvega.

Það er því sama hvert litið er. Alls staðar blasir við svo gífurlegur vandi að hæstv, ríkisstj. hlýtur að skoða það aðalverkefni sitt að hugleiða á næstu vikum og mánuðum hvernig bregðast skuli við þessum vanda. Ég fyrir mitt leyti get vel unnt henni góðs starfsfriðar til þess að hugleiða, hvernig við vandanum skuli brugðist, og undirbúa ráðstafanir til þess. En ég endurtek, að ég legg áherslu á það, að til þeirra ráðstafana verði ekki gripið nema að höfðu lýðræðislegu samráði við stjórnarandstöðu og samtök vinnumarkaðarins.

Ef við lítum á myndina frá svolítið heildstæðara sjónarmiði, þ.e.a.s. litum á væntanlega afkomu Íslendinga í viðskiptum þeirra við önnur ríki, við útlönd, þá er þess að geta, sem flestum alþm, er væntanlega kunnugt, að Þjóðhagsstofnun hafði áætlað halla í viðskiptum við útlönd í ár um 4000 millj. kr., um 4 milljarða kr., en á þessari stundu er óhætt að fullyrða að hallinn í ár verður meiri. Vandinn hefur því ekki minnkað undanfarna mánuði, frá því að þær áætlanir hafa verið gerðar sem Legið hafa á borðum okkar, og kannske liggja sumar hjá sumum enn. Hallinn verður meiri. Það hefur ekki dregið úr vandanum, heldur hefur hann aukist á undanförnum víkum að dómi hinna sérfróðustu manna.

Gjaldeyrisstaðan átti í ár samkv. spádómum um mitt árið að batna um 6 milljarða, um 600 millj, kr. Nú er það skoðun Seðlabankans, að batinn muni verða minni. Það er í samræmi við fyrri upplýsingar mínar, að á undanförnum víkum og mánuðum hafa horfurnar ekki verið að batna, heldur hafa þær verið að versna. Það er eðlilegt að það fari saman, að hallinn verði meiri en hann var áætlaður annars vegar og gjaldeyrisstaðan muni batna minna en áður var áætlað, en hvort tveggja ber að sama brunni. Í þessu sambandi vil ég minna á að gert er ráð fyrir því, að um þau áramót, sem nú eru að nálgast, verði erlendar skuldir Íslendinga við önnur lönd 129 milljarðar kr. Þetta má segja að sé lokapunkturinn í þeirri því miður dökku mynd sem við Íslendingum, við íslenskum stjórnvöldum og við Alþingi Íslendinga, blasir nú um komandi áramót. Þannig er ástandið samtímis því að verðlag á vörum Íslendinga er óvenju hagstætt erlendis. Í raun og veru hefur það verið hagstæðara undanfarið en það hefur verið nokkurn tíma áður um jafnlangt skeið í senn. Þrátt fyrir þetta varanlega hagstæða verðlag á undanförnum tíma er ástandið eins og ég hef lýst.

Einfaldasta skýringin, sem er til á þessu og hæstv. ríkisstj. og fjöldamargir aðrir gefa á þessu, er hin óviðráðanlega verðbólga — verðbólga sem um skeið komst upp í 53–54% og gert er ráð fyrir að verði enn á næsta ári a.m.k. 30%. Auðvitað er verðbólgan ein meginskýringin á því, hvernig þróunin hefur verið og hvernig ástandið er. En hún er ekki eina skýringin, Í því tel ég opinberum málflutningi um efnahagsmál vera mjög ábótavant, að lögð er of einhliða áhersla á verðbólguvöxtinn og verðbólguna sem einu orsök þess vanda sem um er að ræða. Það hefur verið dregið um of úr áhrifum þeirrar alröngu stefnu í fjárfestingarmálum sem ríkt hefur allan þennan áratug og lagt hefur milljarðabyrðar á launþegana á undanförnum árum og gerir enn og auðvitað veldur því, að langan tíma tekur að komast út úr þeim vanda sem hingað til hefur átt sér stað. Þegar menn hafa fylgt rangri stefnu í fjárfestingarmálum í meira en hálfan áratug, í 6–7 ár, svo rangri stefnu að milljörðum, tugum milljarða, jafnvel hundruðum milljarða hefur verið sóað með þeim hætti að féð gefur engan ávöxt — bókstaflega engan ávöxt, þá gefur auga leið að launþegar geta ekki fengið í kjarabót sömu upphæð sem sóað er í ranga og arðlausa fjárfestingu. Þetta er ekki síður orsök þess vanda, sem nú blasir við, en verðbólgan sem að formi til má að sjálfsögðu rekja til mikilla kauphækkana, en á hinn bóginn má með jafnmiklum rétti segja að kauphækkanirnar eigi rót sína að rekja til verðbólgunnar. Þar er um víxláhrif að ræða.

Þegar rætt er um kaupgjaldshækkanir og verðbólgu annars vegar, þá er þar um bein víxláhrif að ræða og mikill vandi að rekja, hvar frumorsökina er að finna, og að sjálfsögðu ekki ástæða til þess í stuttum umr, eins og þessum. En á hitt vil ég endurtekið leggja megináherslu, að af hálfu stjórnvalda hefur verið reynt að draga fjöður yfir hina meginorsök erfiðleikanna, sem er í hinni röngu fjárfestingarstefnu undanfarinna 6-7 ára. Það á sér eflaust sínar stjórnmálalegu skýringar, hversu reynt hefur verið að draga fjöður yfir staðreyndir í þessum efnum. En ég sé ekki ástæðu til að gera þessa stuttu umr. hér að almennum stjórnmálaumr. og læt mér því nægja að benda á þessar staðreyndir með einföldum, en ég vona með skýrum orðum.

Að lokum vil ég endurtaka það sem ég hóf mál mitt með, að ég fyrir mitt leyti get fallist á þingfrestunina og heimild ríkisstj. til útgáfu brbl. En ég vil enda þessi fáu orð mín með því að láta í ljós þá eindregnu ósk við hæstv. ríkisstj., að hún hafi samráð við stjórnarandstöðuna í þinghléinu og samtök vinnumarkaðarins, hvort sem hún telur ástæðu til að gefa út brbl. eða telur sig geta gert ráðstafanir eða ætlar að gera ráðstafanir með öðrum hætti.