21.12.1977
Sameinað þing: 35. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1714 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

137. mál, frestun á fundum Alþingis

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég get ekki verið ánægður með svör hæstv. forsrh. Það er að gefnu tilefni. Í fyrradag fengum við í Ed. fyrst til umr. frv. er hann talar um sem forsendur fyrir áframhaldi að lausn efnahagsvandans. Þá fjallaði ég um það og bar fram nokkrar fsp. svipaðar og hv. 2. þm. Austurl. hefur borið upp. Hæstv. forsrh. sagði að hann mundi gera nokkra grein fyrir þessum vanda í Sþ., sennilega við umr. um þessa till. Ég féllst þá á að stytta mál mitt mjög til að flýta þingstörfum í fullu trausti þess að við fengjum nokkra yfirsýn yfir þann vanda sem við blasir. Ég tók það fram áður en ég lauk máli mínu þá, að ef ég hefði ekki heyrt svör af vörum hæstv. forsrh. mundi ég halda áfram umr. og fjalla um þetta vandamál í löngu máli og það að marggefnu tilefni.

Úr kjördæmi mínu hafa komið margar ályktanir undanfarið og þm. hafa verið boðaðir á fund með fulltrúum atvinnuveitenda, einkum frystihúsamanna. Ég veit ekki betur en birst hafi mynd í blöðunum af fulltrúum frystihúsamanna í viðræðum við hæstv. forsrh., og þessir menn gera það ekki að gamni sínu, til þess að komast á mynd í stjórnarráðinu, að heimsækja forsrh. rétt í binglokin fyrir jólin. Þeir gera það vegna þess að þeir standa frammi fyrir því, að þeir geti ekki látið fyrirtæki, sem þeir eru ábyrgir aðilar fyrir. ganga eðlilega. Mér er einnig kunnugt um að fjöldi þjónustufyrirtækja í aðalatvinnugrein landsmanna, sjávarútveginum, er svo illa kominn núna, að hann fá ekki einu sinni keyptan víxil fyrir vinnulaunum, hvað þá til að leysa út varahluti fyrir flotann sem á að vinna af fullum krafti í janúarbyrjun. Ef menn álíta að ég fari með rangt máli þá er hægur vandinn fyrir hæstv. forsrh. að láta aðstoðarmenn sína hringja í ákveðin fyrirtæki sem ég skal nafngreina, en ekki hér opinberlega, til þess að staðfesta mál mitt. Það er orðið svo alvarlegt ástand, að mennirnir geta ekki hafið skuldbindingar, en á sama tíma liggja á borðinu hjá þessum forsvarsmönnum fyrirtækjanna tilkynningar frá ríkisvaldinu, frá rafmagnsveitum og frá hinum og öðrum, um nauðungaruppboð og stöðvun ef ekki verði gerð skil. Þetta kemur ekki til greina, og það er tilgangslaust að segja: Það er allt of langt mál að gera hér grein fyrir hugmyndum innan ríkisstj. um lausn þessa vandamáls. — Það er tilgangslaust að gefa svona yfirlýsingu. Ef atvinnulífið á ekki að stöðvast, þá verðum við að fá að vita eitthvað eða a.m.k. þessir forsvarsmenn — við í stjórnarandstöðunni erum ekki metnir það hátt að við þurfum að vita eitt eða neitt.

Þegar bréf um verðbólgunefndina kom til þingflokks Alþfl., það mun vera rúmlega ár síðan, taldi ég að rétt væri að taka þátt í störfum þessarar nefndar, þó gegn einu skilyrði: að nefndin starfaði og skilaði áliti innan mjög skamms tíma, því að slíkt hangs. og skrípaleikur eins og þetta er, að fá bara bunka af skjölum, töflum og hinu og þessu, hefur ekkert gildi í þjóðfélagi með jafnöra verðbólguþróun og hér er nú. Þeir ná aldrei á skottið á sér, þessir ágætu menn. Það er alveg sama hvað þeir sitja lengi að störfum. Niðurstaðan verður augljóslega núll með svona vinnubrögðum.

Vandinn er raunverulega að þora að horfast í augu við það sem atvinnulífið býr við í dag. Það getur ekki haldið áfram við óbreyttar aðstæður. Það er engin leið. Það er alveg sama við hverja er átt af þessum þremur höfuðgreinum: sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði. M.a. má nefna hér: Hvað eiga menn að gera við fiskinn. sem er ekki nógu góður til frystingar eða í salt? Á að henda honum eða ætla bankarnir að lána út á hann í skreið, eins og ástandið er í dag? Þetta verður ríkisstj. að taka ákvörðun um, því að annars verður að henda fiskinum, vegna þess að skreiðin fer ekki úr landi núna og við vitum ekkert hvað hæstv. ríkisstj. hugsar sér. Bankarnir innheimta vextina með fullu álagi við hverja veðsetningu núna, þannig að ef menn veðsetja frystan fisk, þá er vaxtakvöðin tekin fyrir fram. Þetta eru alveg ný vinnubrögð. Þetta hefur aldrei tíðkast áður hjá nokkurri ríkisstjórn á Íslandi. En þetta er gert í dag og bankarnir hafa hækkað vexti um 87%. Er þetta til þess að leysa efnahagsvandann? Ég fæ alls ekki skilið þessi mál, sama hvernig reynt er að troða þeim inn í höfuðið, það er ekki hægt. Þetta er svo stjórnlaust og vitlaust að engu tali tekur. Og ef menn trúa því ekki, sem ég er að segja, þá er hægur vandinn að sækja þessi skjöl 300 m spöl og leggja þau fram á þinginu. Þetta er stjórnleysi og ekkert nema stjórnleysi. Það er algerlega vonlaust að nokkur maður geti staðið í atvinnurekstri við slík skilyrði.

Það er skylda ríkisstj., þrátt fyrir kröfu Seðlabankans og einhverra annarra, að taka í taumana þegar svona kenningar eru settar á borðið. Frystihúsamenn í mínu umdæmi, sem ég er talsmaður fyrir í þessu tilfelli, hafa sumir gefist upp og eiga þess engan kost að fara af stað aftur, og nú verður veiðibann þannig að flestir hafa ekki fólk í þjónustu sinni nema mjög takmarkað á næstu dögum. Mér segja þessir menn, — og þeir hafa óskað eftir að þm. kjördæmisins kæmu allir saman undir forsæti hæstv. fjmrh. og ræddu þeirra vandamál — þeir segja okkur það, og ekki er ástæða til að vefengja það, að þeir hafa mjög margir og geigvænlega margir ekki minnstu möguleika til að koma atvinnutækjum sínum af stað aftur. Það er ekki nema eðlilegt að við förum fram á að fá að vita, þegar við erum kallaðir á fundi með þessum mönnum, hvernig hæstv. ríkisstj. hugsar sér að leysa þetta alvarlega vandamál. Ég er ekki að saka einn eða neinn sérstakan um að vandamál þetta skuli vera komið upp, en þetta eru staðreyndir fyrir því og það er afar alvarlegt mál. Nú er verðlag á flestum afurðum okkar í sjávarútvegi um það bil helmingi hærra en var fyrir tveimur árum. Hjá bátum var lagt mjög mikið fyrir í verðjöfnunarsjóð eða flestum greinum sjávarútvegs, en ekkert er unnt að leggja fyrir í dag og meira að segja er þessu öfugt farið. Þetta er það alvarlega í málinu. Við getum ekki átt von á því nema að mjög takmörkuðu leyti að verð hækki enn á afurðum okkar, verðið er orðið svo hátt.

Það er auðvitað rétt sem hæstv. forsrh. segir: það er ekki hægt að verða við kröfum allra hagsmunahópa. — Það ætlast heldur enginn til þess. En menn ætlast til þess að hjól atvinnulífsins fái að snúast eðlilega, og blessunarlega hefur það tekist fram að þessu. En mjög margar þjónustugreinar, sem þjóna sjávarútveginum og eru jafnlífsnauðsynlegar og hann sjálfur, eru komnar í algert þrot. Þau eiga eftir að standa skil á opinberum gjöldum, þau eiga jafnvel eftir að standa skil á orlofi, þau eiga eftir að standa skil á rafmagni, og menn fá ekki fjármagn til að leysa út lífsnauðsynlega varahluti. Þó að einhverjir hagspekingar setji fram sérstakar kröfur um lánsfjárhækkun, þá kemur ekki til greina að hlusta á það. Mennirnir verða að fá sitt rekstrarfé, annars ganga fyrirtækin ekki. Það verður þá að draga úr einhverri annarri þjónustu.

Þetta er svo alvarlegt mál, að full ástæða væri að gefnu tilefni að ræða það í löngu máli, af því að okkur var lofað því, a.m.k. í Ed., að við fengjum nokkurt yfirlit yfir málin hér. Ég lagði til í gær, vegna þess hve frv. komu inn á stuttum tíma, að stjórnarandstaðan bókstaflega gangi út og mótmælti þessum vinnubrögðum með þeim hætti, því það væri ekki hægt að sýna manni svona framkvæmd. Það er allt í lagi, ef við erum metnir þannig, að ekki taki því að sýna okkur eitt eða neitt. Þá má náttúrlega senda Alþ. heim og hafa það eins lengi í fríi og hægt er, en há skulum við ekkert vera að tala um lýðræði á Íslandi lengur. Þá er þetta, eins og ég sagði, hrein afgreiðslustofnun fyrir viðkomandi ríkisstj. og ekkert annað.

Ég vil þó aðeins nefna eitt atriði sem við töldum mjög mikilvægt í stjórnarandstöðunni að fá breytt og hæstv. forsrh. og ríkisstj. féllust á, í sambandi við skyldusparnað. Það var að framlengja möguleika á greiðslu á þessum gjöldum um einn mánuð. Við töldum það afar mikilvægt vegna ákvæðis í frv. um það, að ef menn gátu ekki 100% staðið í skilum, þá skyldu þeir ekki fá vexti eða vaxtabót á sitt fjármagn, þó að þeir hefðu staðið 95% í skilum allt árið. Þá átti að refsa með sekt sem gat numið tugum þúsunda. Þetta var auðvitað svo fáránlegt ákvæði, að það náði ekki nokkurri átt. Þetta er verk embættismanna, og þeir hafa enga tilfinningu gagnvart okkar umbjóðendum. Hæstv. ríkisstj. féllst á þetta og ég vil þakka henni fyrir það, og n. flutti brtt. og hún var samþ. Margt getur því komið upp sem við þm. úr öllum flokkum höfum næmari tilfinningu fyrir að betur má fara en kemur fram í verkum embættismanna úti í bæ, sem hafa mjög takmarkaða tilfinningu fyrir hinu daglega lífi, því er nú verr. Ég verð að segja það eins og er að gefnu tilefni á sumum fundum a.m.k. fjh.- og viðskn. Ed. undanfarið.

Ég stóð hér eingöngu upp vegna þess að ég tel, að ég hafi ekki fengið það svar við fsp. minni sem mér var lofað í Ed. við efnahagsumr. Ég tók það sem ásökun í garð stjórnarandstöðunnar, að við hefðum ekki sinnt þeirri skyldu að ræða efnahagsmálin til hlítar, en það var til þess að flýta fyrir þingstörfum að við gerðum það ekki og féllum frá löngum umr, á deildafundum, a.m.k. í Ed. Við áttum þess ekki kost að ræða málið til hlítar, ella væri þingstörfum þar ekki lokið enn þá og þingfrestun mundi sennilega dragast 1–2 daga í viðbót.