23.01.1978
Sameinað þing: 37. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1726 í B-deild Alþingistíðinda. (1456)

Umræður utan dagskrár

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Á aðfangadag jóla birtu dagblöðin í Reykjavík svo hljóðandi fréttatilkynningu frá Landsbanka íslands:

„Fyrir skömmu vöknuðu grunsemdir um misferli í ábyrgðardeild bankans, Málið hefur síðan verið til rannsóknar hjá endurskoðunardeild bankans. Hefur sú rannsókn leitt til þess, að forstöðumaður ábyrgðardeildarinnar, Haukur Heiðar, var í gær kærður til rannsóknarlögreglustjóra ríkisins,“

Sama dag birtu dagblöðin svofellda fréttatilkynningu frá embætti rannsóknarlögreglustjóra ríkisins, með leyfi forseta:

„Í gærkvöldi barst rannsóknarlögreglustjóra ríkisins beiðni stjórnar Landsbanka Íslands um að þegar yrði hafin rannsókn á misferli, sem fram hefði komið að Haukur Heiðar deildarstjóri ábyrgðardeildar bankans hefði gerst sekur um.

Rannsókn var þegar hafin í máli þessu af hálfu rannsóknarlögreglu ríkisins og í framhaldi af yfirheyrslum yfir Hauki hefur honum nú að kröfu rannsóknarlögreglunnar verið gert að sæta gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins til 1. febr. n.k.

Rannsókn þessi beinist að fjármálamisferli Hauks Heiðars í sambandi við starf hans við Landsbanka Íslands.

Að svo komnu máli verða eigi gefnar frekari upplýsingar um rannsókn máls þessa sem er á frumstigi.“

Ég held að óhætt sé að segja, að þessar fregnir hafi komið landsmönnum mjög á óvart. Á þeim dögum, sem síðan hafa liðið, hefur málið verið mikið rætt. Í dagblöðum og víðar hafa ýmsar fregnir af því farið, sumar sannar, aðrar ekki. Í raun réttri er lítið meira vitað um þetta mál frá ábyrgum aðilum en fram kom í fréttatilkynningum Landsbanka Íslands og embættis rannsóknarlögreglustjóra ríkisins sem ég las hér áðan og mega að mínu viti vart knappari vera. Einnig hefur talsvert verið rætt um, hvernig að rannsókninni er unnið, svo og fjallað um, hvernig háttað er eftirliti og endurskoðun hjá bönkum og öðrum opinberum og hálfopinberum stórfyrirtækjum.

Þingflokkur Alþfl. hefur rætt þessi mál. Niðurstaðan er sú, að á fundi sínum í morgun samþykkti þingflokkurinn að hafa frumkvæði að því, að málið yrði tekið til umr. hér á Alþ. með þeim hætti sem nú er gert. Jafnframt samþykkti þingflokkurinn að fela mér að hefja þessar umr. í sínu nafni.

Þessi stofnun, Alþingi, kýs stjórnir ríkisbankanna, bankaráðin. Einnig höfum við alþm. sett með lögum þær reglur sem bönkunum er ætlað að starfa eftir, og til þess að hafa eftirlit með því, að það sé gert, og með fjárreiðum bankanna höfum við alþm. einnig kjörið sérstaka menn, hina svonefndu endurskoðendur bankanna. Með hliðsjón af þessu er það því ótvíræð skoðun okkar þm. Alþfl., að eðlilegt og sjálfsagt sé, geti jafnvel verið skylt, að Alþ. láti til sín taka ef upp koma mál eins og það sem frá sagði í fréttatilkynningu Landsbanka Íslands frá 23. jan. s.l. Hér er um að ræða stóra og mikla stofnun sem starfar að talsverðu leyti á ábyrgð Alþingis og þeirra manna sem hér sitja. Það er rétt að við óskum upplýsinga um það, sem þarna hefur gerst, og ekki aðeins óskum upplýsinga, heldur hugleiðum hvað gert hafi verið og hvað gera þurfi til að koma í veg fyrir að slíkir atburðir geti endurtekið sig.

Í beinu framhaldi af þessu vil ég því í fyrsta lagi beina þeim eindregnu tilmælum til hæstv. bankamálaráðh., að annaðhvort bann sjálfur eða einhver aðili, sem hann óskar eftir, upplýsi okkur alþm. og þjóðina alla eins fljótt og við verði komið um hvað raunverulega hefur gerst í Landsbanka Íslands, hversu umfangsmikið mál er hér um að ræða, með hverjum hætti menn komust á snoðir um hið meinta misferli og hver eru takmörk þessa máls. Ég geri mér að sjálfsögðu fulla grein fyrir því, að á meðan rannsókn stendur yfir er ekki hægt að skýra frá öllum efnisatriðum og að ráðh. hlýtur að sjálfsögðu að taka fyllsta tillit til sjónarmiða þeirra, sem með rannsókn málsins fara, hvað slíkum frásögnum viðvíkur. En hitt er hins vegar ekki síður augljós nauðsyn, eins og máf þetta er í pottinn búið og þegar litið er til þeirrar traustu og virðulegu stofnunar sem í hlut á, að almenningur í landinu fái eins fljótt og við verður komið traustar og réttar upplýsingar um eðli og umfang þessa máls. Ég tel ákaflega óheppilegt að lengi sé dregið að skýra frá slíku. Það er óheppilegt fyrirlandsbanka Íslands, sem þarna á hlut að máli það er óheppilegt með tilliti til mótunar almenningsálitsins og það er óheppilegt fyrir almenn réttarfarssjónarmið.

Í öðru lagi vildi ég gjarnan að Alþ. yrði skýrt frá því, til hvaða ráða hefur verið gripið tif þess að upplýsa þetta mál. Í því sambandi leyfi ég mér að leggja mjög þunga áherslu á að þeirri rannsókn verði hraðað. Ég vil í því sambandi einnig minna á svonefnt Alþýðubankamál. Mörg ár eru nú liðin frá því að rannsókn hófst í því máli. Þegar rannsóknin var hafin var gert ráð fyrir því, að henni ætti að verða fljótlega lokið, enda virtist um ákaflega afmarkað mál vera að ræða. Eigendur bankans og þáverandi stjórnendur hans stóðu einnig í þeirri trú, að rannsókn mundi ganga greiðlega, enda er það nauðsynlegt í slíkum tilvikum sem þessum. Stjórnendur og eigendur bankans tóku ákvarðanir sínar þá í fullvissu um að svo mundi verða. En því hefur því miður ekki verið að fagna. Rannsóknin hefur dregist óhæfilega mikið á langinn. Eftir því sem ég best veit lauk henni þó fyrir sjö mánuðum og var þá rannsóknin send ríkissaksóknara, sem á að taka ákvörðun um framhaldið. En sú ákvörðun hefur ekki enn verið tekin, þótt sjö mánuðir séu liðnir. Þetta er að sjálfsögðu ófært með öllu. Slíkur dráttur getur ekki gert nema það eitt að skaða bankann og núv. og fyrrv. stjórnendur hans, Þegar menn eru opinberlega bornir sökum er það réttlætis- og mannúðarkrafa, að opinberri rannsókn á slíkum sakargiftum sé hraðað eftir föngum, þannig að málið upplýsist annaðhvort til sektar eða sýknu. Þannig hefur því miður ekki verið haldið á Alþýðubankamálinu og rannsókn þess. Það tel ég mjög óæskilegt.

Til þess eru vítin að varast þau. Ég tel að þetta viti eigi að varast í sambandi við þá rannsókn, sem nú stendur yfir á Landsbankamálinu, og því leikur mér hugur á að fá að vita, til hvaða ráða hefur verið gripið til að upplýsa málið og hvort þessi stofnun, Alþingi, getur á einhvern hátt auðveldað það eða flýtt fyrir því, að þessi rannsókn gangi hratt og auðveldlega.

Í þriðja lagi tel ég svo rétt að Alþ. fái að vita til hvaða ráða hefur verið gripið til að koma í veg fyrir að atburðirnir, sem orðið hafa í Landsbanka Íslands, geti endurtekið sig. Að sjálfsögðu er hluti af slíkum ráðstöfunum á valdi bankastjórnarinnar, og ég efa ekki að þeir mætu menn, sem sitja í bankastjórn

Landsbankans, hafi fyrir sitt leyti þegar brugðið við. En ýmsir aðrir hlutir eru á valdi okkar þm. Mér er t.d. kunnugt um að samið hefur verið frv. að nýrri löggjöf um bankastarfsemi á vegum hæstv. bankamálaráðh., og þar er vonandi að finna betri ákvæði um ýmis stjórnunarleg mál, eins og hvernig á að hátta endurskoðunum á reikningum bankans, eins og bankastjóri Landsbanka Íslands hefur nýlega lýst að vera þyrfti. Mér leikur hugur á að vita hvort það sé ætlun hæstv. ríkisstj. að leggja þetta fram á þessu þingi.

Herra forseti. Tíðindin af fjármálamisferli, gjaldeyrissvikum í sambandi við skipakaup, stórfelldum skattsvikum, ólögmætri gjaldeyriseign, okurlánastarfsemi og skipulögðum fjárdrætti hafa dunið yfir þjóðina á undanförnum vikum. Ég býst við að flestum Íslendingum þyki nóg komið. Menn hlýtur að setja hljóða við slík tíðindi og þau að vekja menn til umhugsunar um á hvaða leið við séum. Réttilega hefur verið á það bent, að verðbólgan á sjálfsagt sinn þátt í nokkrum af þessum málum, en hún er þó engin meginorsök. Þó að þessi mál hafi komist upp á verðbólgutímum eiga mörg þeirra rætur að rekja langt aftur í tímann, á meðan slíkt ástand var alls ekki sem nú er á Íslandi í þeim efnum, Staðreyndin er nefnilega sú, að því miður er það svo, að við Íslendingar höfum uppi ákaflega litlar varnir gegn þeirri tegund afbrota sem hér um ræðir. Löggæsla á þeim sviðum er miklu dýrari en almenn löggæsla og mikið vandaverk, og þar höfum við Íslendingar því miður sparað okkur til tjóns. En það er ekki aðeins að við höfum þar skorið fjármuni við nögl, heldur einnig vanrækt ýmis bein löggjafaratriði, þar sem hægt er að breyta löngu úreltri lagasmið til samræmis við þá tíma sem við lifum á. Fyrirtækjalöggjöf á Íslandi er t.d. mjög úrelt, löggjöfin um starfsemi banka er úrelt, ýmislegt í bókhaldslögum hæfir ekki lengur, en við skulum ekki heldur gleyma því, að flest þessara brota hefðu komist upp miklu fyrr ef um virkari skattalögreglu hefði verið að ræða í landinu. Það er vissulega ástæða fyrir Alþ. til að hugleiða ekki aðeins það einstaka mál eða þau einstöku mál sem ég hef gert hér að umræðuefni, hvernig eigi að leysa fram úr þeim, heldur hitt, hvernig Alþ. sjálft sem stofnun og löggjafarsamkoma eigi að bregðast við þessum óheillatíðindum sem dunið hafa yfir okkur núna vikum saman.