24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1733 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

315. mál, raforka til graskögglaframleiðslu

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Það er nú orðið langt síðan fsp. þessi var lögð fram, það var á fyrstu vikum þingsins í haust. Það er spurning í tveimur liðum: „Hvaða verð greiða grasköggla- og grasmjölsverksmiðjur fyrir raforku? — Hvert er hlutfall raforku í framleiðsluverði innlendra grasköggla?“ — Skömmu síðar bárum við hv. þm. Helgi F. Seljan síðan fram aðra fsp. til hæstv. landbrh., einnig varðandi graskögglana, og leyfi ég mér, þar sem mér er ljóst að hæstv, ráðh. muni svara báðum þessum fsp., að gera grein fyrir þessari fsp, nú þegar. Hún hljóðar svo: „Hvaða ráðstafanir hyggst ríkisstj. gera til þess að tryggja hagsmuni graskögglaverksmiðjanna vegna niðurgreiðslu efnahagsbandalagsríkjanna og þá Dana sérstaklega á verði fóðurbætis sem nú er til sölu hérlendis? — Hvað líður birtingu skýrslu um niðurstöður rannsókna á fóðurgildi innlendra grasköggla?“

Þessar fsp voru bornar fram á þeim tíma þegar hæstv. ráðh. var mjög önnum kafinn, komu síðan eigi upp aftur fyrr en undir aðsogið að afgreiðslu fjárlaga hér á þingi fyrir jól, og mér er fyllilega ljóst að það var ekki hæstv. ráðh að kenna a.m.k. að öllu leyti, að svo lengi hefur dregist að svara þessum fsp.

Ég tel að ekki sé minni þörf á því nú heldur en var þegar fsp, voru fram bornar að fá svör við þeim. Því er ekki að leyna, að hagsmunir þessara fyrirtækja, sem framleiða innient kjarnfóður, snerta mjög hag bændastéttarinnar og framtíð íslensks landbúnaðar, og ég hygg að meiri hl. hv. þm. muni vera mér samdóma um það, að óviðunandi sé að landbúnaður okkar, eins og hann stendur, sé látinn taka á sig tímabundin áföll sem stafa af umframframleiðslu á kornvöru í sérstökum góðærum í hinum syðri löndum, sem síðan er reynt að koma út með óeðlilegu undirboði til þeirra landa sem þurfa á fóðurbæti að halda, en eru að reyna að koma sér upp innlendri kjarnfóðurframleiðslu.