24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

315. mál, raforka til graskögglaframleiðslu

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þeim fsp., sem hv. 5. þm. Norðurl. e. talaði hér fyrir áðan, vil ég segja það um þá fyrri, að það var rétt til getið, að svarið var tilbúið fyrir nokkuð löngu, því ég sé að efst á blaðinu stendur 29. nóv. En hann skýrði það, að aðrir hlutir gerðu að verkum að ekki komst í verk þá að svara þessari fsp., en það skal ég gera núna.

Árið 1976 var meðalverð, sem ríkisverksmiðjurnar fjórar greiddu fyrir raforku, kr. 12.65 fyrir hverja kwst. Samkvæmt því var hlutfall raforku í framleiðsluverði köggla 5.93% heildsöluverð rafmagns frá Landsvirkjun er kr. 3.38 á klst. Mismunur á heildsöluverði og smásöluverði er geysimikill. Hann liggur í dreifingarkostnaði, söluskatti, verðjöfnunargjald o.fl.

Á vegum Sambands ísl. rafveitna er unnið að athugun á hinum mikla verðmun milli heild­ söluverðs og smásöluverðs. Þá starfar nú á vegum landbrn. n. við athugun á lækkun rafmagnskostnaðar til atvinnurekstrar í landbúnaði, og nær verkefnið m.a. til þess að fá lækkað rafmagnskostnað vegna grænfóðurverksmiðjanna og þurrheysverkunar yfirleitt. Þessi n. vinnur að þessum málum í samstarfi við ríkisrafveiturnar og iðnrn. Því miður get ég ekki skýrt frá niðurstöðu af verkum hennar nú, en að því er unnið að reyna að ná um þetta heildarsamkomulagi og taka þá einnig til heyblásara í þessu sambandi.

Þetta er það sem ég hef um þetta mál að segja. En um síðara málið, sem er á þskj. 58, hef ég nú því miður ekki upplýsingar hjá mér. En ég vil segja varðandi ráðstafanir þær, sem verið er að vinna að vegna grasmjölsverksmiðjanna vegna þeirrar óeðlilegu samkeppni, sem þær eiga nú í út af niðurgreiðslu á erlendum fóðurbæti, að því verki er ekki fullkomlega lokið enn þá. Það var hugmynd landbrn. að taka skatt af innfluttu kjarnfóðri til stuðnings við grænfóðurverksmiðjurnar, og þá mundi samkeppnisaðstaðan breytast jafnhliða. Hins vegar var það svo eftir ályktun Stéttarsambandsfundar og þess aukafundar, sem haldinn var í haust, að þar var gert ráð fyrir að verja þessu fé á annan veg, og þá drógum við nokkuð í land í því sambandi. Hins vegar hefur það aftur breyst, vegna þess að ekki hefur orðið úr þeim fyrirhugaða skatti sem þar var til umr. Ég hygg að ekki sé áhugi hjá forráðamönnum bændastéttarinnar nú fyrir því. En hins vegar hefur verið haldið áfram að vinna að heykögglaverksmiðjumálunum, og eru nú tilbúin í rn. tvö frv. í sambandi við þau, sem hins vegar hefur ekki verið gengið frá til fulls, ekki með greinargerð og þeim kostnaðarathugunum sem ég teldi nauðsyn bera til að gera áður en ég legði málið fyrir ríkisstj. Það hefur verið rætt þar, en ekki með svo formlegum hætti, að það hafi legið fyrir hvernig þessar ráðstafanir, sem hugsaðar eru, verkuðu í sambandi við ýmsa þætti þessa máls.

Hins vegar er það alveg ljóst, að ekki verður komist hjá því að veita heykögglaverksmiðjunum fjárhagslegan stuðning og ekki heldur hægt að hugsa sér að þær geti selt framleiðslu sína í þeirri samkeppni sem þær eiga nú við að stríða. Það er rn. ljóst, og að því er unnið að reyna að leysa vandann.