24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (1474)

332. mál, Ferðamálasjóður

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég átti á sínum tíma sæti í n. sem hæstv. samgrh. skipaði til þess að athuga rekstur gisti- og veitingahúsa sem urðu að hafa opið að vetrinum vegna þjónustu við ferðamenn. Þessi n. gerði allumfangsmikla könnun og niðurstaða þeirrar könnunar leiddi það í ljós, að flestöll þau veitingahús og hótel, sem höfðu tekið þessi gengistryggðu eða vísitölutryggðu lán, áttu í mjög alvarlegum erfiðleikum.

Það var meginatriði í álitsgerð þessarar n. að það mætti til að hlaupa undir bagga með þessum veitingahúsum og greiða fyrir þeim þannig að þetta lánsfé, sem þau áttu aðgang að, yrði þeim ekki beinlínis fjötur um fót. En því miður virtist okkur að þau veitingahús, sem höfðu með einhverjum ráðum tekist að komast hjá því að taka þetta dýra lánsfé, flytu miklu hefur.

Við bentum m.a. á leiðir til þess að afla þessa fjár, því að auðvitað eru peningarnir í þessu tilfelli afi þeirra hluta sem gera skal og Ferðamálasjóður vanmegnugur að breyta þessum gömlu lánum til þeirrar áttar sem við töldum viðunandi fyrir lántakendur. Nokkrar leiðréttingar hafa verið gerðar á nýjum lánskjörum ag það ber að þakka. En það er ófullnægjandi, því að það eru gömlu lánin sem tútna út og menn eru að berjast með í vanskilum og við mjög erfiðar aðstæður. Þau valda erfiðleikum sem ekki er unandi við.

Ég vil minna á að nú er svo komið, að í Austur-Húnavatnssýslu er hvergi gistihúsaþjónustu að fá á þessum vetri, og lánskjör og kringumstæður eins og Ferðamálasjóður hefur skapað viðskiptavinum sínum er eðlilega til þess að skapa veitingamönnum stóraukinn vanda.