24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1750 í B-deild Alþingistíðinda. (1479)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessum síðustu orðum hv. þm.

Það kom ekki til tals að selja Baldur. Í fyrsta lagi þurftu lagfæringar að fara fram eftir að þorskastríðinu lauk og Landhelgisgæslan varð að skila skipinu í hliðstæðu ástandi og það var í. Fiskifræðingar og allir þeir í Hafrannsóknastofnun, sem fjölluðu um málið, lögðu á það höfuðáherslu að gert yrði við skipið. Aðrir tala um að smiði á nýju skipi hefði tekið langan tíma. Hönnun þess hefði tekið mjög langan tíma. Mér er það alveg ljóst, að þegar jafnmargir aðilar eiga að fjalla um breytingar eins og þessar, þá tekur það sinn tíma, og síðan þarf aftur að útvega fjármagn til þess að standa undir þeim viðgerðum og endurbótum sem verið er að gera á skipinu.