24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Í sambandi við kaup á skipinu á sínum tíma var það lagt fyrir fjvn. og Alþ., eins og þm. eflaust muna. Kaupsamningur var lagður fyrir fjvn., sem sýndi bæði kaupverð og yfirtöku skulda sem á þessu skipi hvíldu. Enn fremur var gerð úttekt á skipinu af sérfræðingum sem stofnunin fékk eða sjútvrn., ég þori ekki að fullyrða hvort var. En örugglega hefur það verið gert í fullu samráði við Hafrannsóknastofnunina, það þori ég að fullyrða. Og að því tilskildu voru þessi kaup gerð.

Það, sem gagnrýnt er hér, er að það sé verið að breyta íbúðum. En það er nú þannig, að þó að hásetar séu færri á skipi eins og þessu, þá vilja yfirmenn, sem á skipinu eru, ekki sætta sig við það að íbúðir þeirra séu minnkaðar. Það er það sem um er að ræða. Hitt kemur svo til viðbótar, að þetta skip er byggt sem fiskiskip, tryggt sem togari, en hér þarf auðvitað að skapa vísindamönnum rannsóknaraðstöðu um borð. Ef við berum saman við hvernig rannsóknaraðstaða er í Bjarna Sæmundssyni t.d., þá getum við auðvitað öll orðið sammála um það, að brýna nauðsyn bar til að skapa þarna rannsóknaraðstöðu. Og ég býst varla við að fiskifræðingar — ég er nú kominn hér í hálfgerða vörn fyrir þá — sætti sig við að vera settir í hásetaklefa á þessu skipi, þegar þeir bera saman við íbúðir þær sem þeir hafa á hinum rannsóknarskipunum. Hins vegar má segja að það, sem hásetar verða að sætta sig við, geti allir aðrir sætt sig við. En einhvern veginn er það nú þannig, að yfirmenn hafa stærri íbúðir en undirmenn, þó að orðið hafi mjög ánægjulegar breytingar á því í íslenskum fiskiskipum á undanförnum árum og áratugum.

Hitt atriði málsins er það, sem er mjög mikið atriði, hvað við eigum að eiga og reka mörg hafrannsóknaskip eða fiskirannsóknaskip. Það er mikið rétt í því sem hv. fyrirspyrjandi sagði áðan, að leiguskip, fiskiskipin, hafa það tímabil, sem ég hef verið sjútvrh., oftast reynst vel, og ég hygg að fyrrv. sjútvrh. séu mér sammála í þeim efnum, Það er ætlunin að hætta rekstri eins rannsóknarskipsins þegar Baldur hefur starfrækslu eins og upprunalega var ákveðið og kom hér fram. Skoðun mín er sú, að í vissum tilfellum sé brýn nauðsyn að taka á leigu skip um stuttan tíma í senu og til ákveðinna verkefna. Leiguskip hafa yfirleitt sýnt góðan árangur, og þá er ég sérstaklega með í huga árangur togarans Runólfs í sambandi við kolmunnaleitina, sem ég tel að hafi margborgað sig, og ég hef mikla löngun til að halda slíkri viðleitni áfram eftir því sem fjármunir leyfa.