24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

333. mál, starfsemi Hafrannsóknarstofnunar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það má auðvitað lengi deila um það, hversu hratt peningar streyma úr ríkissjóði, En ég held að það sé ekkert áhorfsmál að þessi skip, bæði þetta skip og systurskip þess, séu góð sjóskip, góð togveiðiskip, og það var samhljóða álit manna þegar skipið var keypt á sínum tíma. Og ef við ætlum að bera það saman við nýtt skip eða nýbyggingu, þá er hér ekki nema um tiltölulega lágt hlutfall að ræða, fyrir utan þann langa tíma sem hefði tekið að hanna nýtt skip.

Ég sem ráðh. vildi alls ekki taka á mig þá ábyrgð að taka við tillögum Hafrannsóknastofnunarinnar án þess að hera þær undir sérfræðinga. Þær komu ekki fyrr en sól var hæst á lofti, og allir vita hvað tekur langan tíma að leita til hinna ýmsu fræðinga. Síðan verður að fara eftir kúnstarinnar reglum í kerfinu og bjóða út, því að annars hefði komið fram réttmæt gagnrýni, að tekið hefði verið einhverju tilboði vina og eitthvað væri óhreint við það allt saman En tíminn lætur ekki bíða eftir sér og skammdegið kom, og ef við hefðum nú látið skammdegið líða og beðið hækkandi sólar, þá hefði vafalaust komið fram mikil gagnrýni á að bíða. Um hitt er ég alveg sammála hv. fyrirspyrjanda, að það er óheppileg öll útivinna í svartasta skammdeginu. En þannig stóð á þessum málum.

Aldrei nefndi ég það, að fiskifræðingar og rannsóknarmenn ættu að hafa þriggja herbergja íbúð og eldhús, eins og framkvæmdastjóri Framkvæmdastofnunarinnar var að tala um áðan. En sennilega væri skynsamlegast að láta þingfararkaupsnefnd fjalla um slík mál í framtíðinni, því að hún stendur sig afburðavel. Alþ. ætti að taka til alvarlegrar athugunar að hún hefði með þessi mál að gera því að hún stendur sig með mikilli prýði.