24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1758 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

339. mál, könnun vegna fæðingarorlofs

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er var sú breyting gerð á lögum um atvinnuleysistryggingar í maí 1975, að þær konur, sem forfallast frá vinnu vegna barnsburðar, skuli njóta atvinnuleysisbóta í samtals 90 daga, og þessi lagaákvæði tóku gildi 1. jan. 1976. Framkvæmd þessara lagaákvæða olli verulegum deilum. Þannig neitaði stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs samvinnu við rn. um setningu reglugerðar um greiðslu þessara bóta. Reglugerðin var hins vegar gerð og sett hinn 20. jan. 1976.

Það, sem um er deilt í þessu sambandi, er að sjálfsögðu hvort bætur af því tagi, sem hér um ræðir, eigi að greiðast frá atvinnuleysistryggingum eða frá almannatryggingum, en fjármögnun þessara tveggja trygginga er sem kunnugt er með mjög ólíkum hætti.

Þegar fyrrgreind lagaákvæði um fæðingarorlof voru samþykkt var nýtekin til starfa n. undir forustu formanns tryggingaráðs, Gunnars J. Möllers, til þess að að endurskoða lög um almannatryggingar, og starfar sú n. enn. N. hefur ekki að fullu lokið starfi, enda þótt hún hafi þegar sent frá sér till. til breytinga á ákveðnum þáttum almannatrygginga sem lagðar voru fyrir Alþ. síðasta daginn fyrir jól. Það er gert ráð fyrir því, að þessi n. taki afstöðu til fæðingarorlofsins ásamt öðrum þeim þáttum sem hún á eftir og skili um það áliti með lokatillögum sínum. Ég hef þó nokkrum sinnum rætt við formann n, um að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að ljúka þessum þætti endurskoðunar almannatryggingalaga. Hins vegar mun ekki verða lokið endurskoðun á ellilífeyrisþættinum, vegna þess að önnur og stærri n. starfar í sambandi við lífeyristryggingar almennt og þótti rétt að þar væri einn aðili að. En ég hef lagt áherslu á að þessar till. verði lagðar fram sem allra fyrst og margar aðrar og endurskoðun sjúkratryggingahluta almannatryggingalaga lokið. Á s.l. vori skipaði ég n. til þess að endurskoða gildandi lög um atvinnuleysistryggingar. Formaður þeirrar n. er Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari. Þessi n. mun að sjálfsögðu einnig fjalla um fæðingarorlofið eins og aðra þætti atvinnuleysistrygginganna. Þegar þessar n. hafa báðar skilað störfum mun ríkisstj. væntanlega taka afstöðu til fæðingarorlofsmálsins í heild, bæði þess fæðingarorlofs, sem nú er í gildi, og svo hins, á hvern hátt megi veita öllum konum í landinu sambærilegt fæðingarorlof við það sem atvinnuleysistryggingar greiða nú. Ég vænti þess, að þessar tvær n. geti skilað áliti fljótlega úr þessu.