24.01.1978
Sameinað þing: 38. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

339. mál, könnun vegna fæðingarorlofs

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh, svör hans, Það er ljóst af svörum, að sú könnun, sem reiknað var með í ákvæðum til bráðabirgða, sem samþ, voru á s.l. vori, hefur ekki farið fram á þann hátt sem þar var ákveðið eða sagt til um. Hins vegar er ánægjulegt að vita til þess, að sú n., sem starfar að endurskoðun tryggingalaga, skuli eiga að taka afstöðu til þessa máls og reyna að finna á því lausn. Ég er þó hræddur um að það eigi nokkuð langt í land, því að ég hef um það spurnir frá þessari sömu n., að þetta atriði hafi ekki komið þar mjög til umr. enn þá — þetta atriði varðandi fæðingarorlofið — svo ljóst er að enn þarf að bíða.

Hér er auðvitað spurning um hvaðan þessar greiðslur eiga að koma, eins og hæstv. ráðh. gat um. Ég er ekki í neinum vafa um að rétta leiðin í þessu efni, einkanlega með tilliti til þess að aliar konur hafi hér jafnan rétt, er auðvitað almannatryggingakerfið, en ekki það sem við búum við í dag. Því skal hins vegar ekki neitað, að þetta hafi verið þörf og góð breyting fyrir þær konur sem njóta nú þessara bóta.

Ég tók það fram, þegar um þetta mál var fjallað fyrst, að þó ég styddi það sem þá einu lausn sem þá hafi verið sjáanleg eða fær að dómi stjórnvalda, þá væri meginafstaða mín til málsins í heild að þetta ætti að vera einn þáttur okkar tryggingakerfis þar sem allar konur hefðu sama ótvíræða réttinn til fæðingarorlofs. Þar bættist svo við afgreiðslu þess máls, að ljóst var að þetta mundi valda þeim sjóði, sem þessar byrðar voru lagðar á, allverulegum erfiðleikum, og það hefur komið enn betur í ljós. Ég undirstrika því sér í lagi nauðsyn þess, að að því verði rösklega unnið, eins og hæstv. ráðh. gaf raunar fyrirheit um varðandi þá n. sem starfar að þessum málum, að framkvæmd þessara mála verði komið í viðunandi horf, sem allir hljóta að vilja keppa að.

Ég hef sannfærst um það enn betur, eins og ég sagði áðan, eftir viðtöl við marga glögga menn í úthlutunarnefndum atvinnuleysisbóta víðs vegar um mitt kjördæmi, að mjög skortir á að þær konur, sem e.t.v. öllum öðrum fremur hefðu þörf fyrir þessar bætur og þetta orlof, m.a. vegna ómegðar, njóti þessara laga. Er það eðli málsins samkvæmt, vegna þess að fæðingarorlofið er greitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði og eingöngu koma til greina þær konur sem vinna ákveðinn vinnustundafjölda á ári utan heimilis. Og enn þá eru mörg vandamál á mörkunum sem koma hér upp. Ég held því að full ástæða sé til þess, að það sé ýtt á eftir þessu máli, og ég verð að trúa því eftir orðum hæstv. ráðh., að frv. hér að lútandi hljóti að verða lagt fram á þessu þingi og vonandi þá afgreitt einnig, — frv. sem tryggir þetta meginsjónarmið, að allar konur í landinu hafi rétt til fæðingarorlofs.