25.01.1978
Neðri deild: 47. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1766 í B-deild Alþingistíðinda. (1495)

21. mál, kosningar til Alþingis

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það eru aðeins örfá orð. Þetta mál, sem hér um ræðir, er þegar búið að ræða mjög mikið og ítarlega í þessari hv. d., og ýmsar aðrar hugmyndir um breytingar hafa spunnist þar inn í. Ég vil aðeins að það sjónarmið mitt komi fram, að ég tel mjög nauðsynlegt og eðlilegt að ræða slík mál og gera breytingar í þá veru sem ýmsir hafa rætt um, þó að ég sé ekki sammála því að gera breytingu eins og þá sem í þessu frv. er lögð til. Hins vegar hefði verið æskilegra að þessar umr. hefðu farið fram fyrr á kjörtímabilinu, vegna þess að ég tel að það sé ákaflega hæpið að gera breytingar á kosningalögum og kosningareglum þegar komið er að kosningum og stjórnmálaflokkar hafa þegar gengið frá framboðsmálum sínum að mjög verulegu leyti. Það er með þennan kosningaleik, ef svo má segja, eins og aðra leiki, að það er réttara að leikreglurnar liggi fyrir áður en hafist er handa um leikinn sjálfan. Og það er ákaflega óæskilegt að reglunum sé breytt þegar leikur er hafinn.

Ég tel að þær umr., sem orðið hafa í tilefni af þeim frv.- flutningi sem hér um ræðir, hafi verið mjög jákvæðar. Það hefur komið í ljós nauðsyn á að gera ýmsar breytingar á kosningalögum. En ég vil aðeins ítreka það sjónarmið mitt, að ég tel mjög hæpið að gera slíkar breytingar þegar svo skammt er til kosninga sem raun ber vitni og stjórnmálaflokkar eru þegar búnir að ganga að mjög verulegu leyti frá framboðsmálum sinum eftir þeim reglum sem gilt hafa og gilda enn. Þessi skoðun mín er ekki á þá lund, að ég sé alfarið á móti þeirri breytingu sem hv. þm. leggur til í frv. sínu. Ég er á móti því að gerðar verði þær breytingar, sem ábendingar um hafa komið frá ýmsum öðrum þm. í umr. að gera þurfi. Ég tel að þetta mál hefði átt að taka fyrir fyrr á kjörtímabilinu, en að breytingar, jafnvel þótt góðar og réttlátar séu, sé mjög vafasamt að gera þegar svo stutt er til kosninga.