26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (1506)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Þegar sams konar till. og sú, sem hér er nú til umr., lá fyrir síðasta þingi, þá ræddi ég nokkuð um till. og lýsti afstöðu minni til hennar. Ég lýsti yfir, að ég væri samþykkur þeirri meginhugsun sem fram kæmi í till., en sagði hins vegar, að mér fyndist till. óþarflega stuttorð og hún segði ekki allt það sem hún þyrfti að segja. Í till. er einfaldlega sagt að gerðar skuli ráðstafanir til þess, að viðskiptabankar greiði rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins beint til bænda, og ekkert meira fylgir þarna á eftir, þó að það hafi komið fram nokkrar frekari útskýringar á því, hvað með þessu sé meint, í framsögu 1. flm. tillögunnar.

Það, sem ég benti á í mínu máli, var það, að ég teldi í fyrsta lagi höfuðnauðsyn að gera þá skipulagsbreytingu, þá formbreytingu á þessum lánveitingum sem till. gerir ráð fyrir, en auk þess þyrfti að standa þannig að þessum málum, að tilteknu markmiði yrði náð. Það, sem ég benti á í þeim efnum, var að þessi lán þyrftu að verða með þeim hætti, að frá byrjun framleiðslutíma og fram að þeim tíma að afurðum er skilað væru þessi lán veitt í nokkrum áföngum eða í nokkrum hlutum, hvort sem það yrði mánaðarlega eða annan hvern mánuð eða jafnvel þriðja hvern mánuð, þá yrðu lánin veitt svo ríkulega, að það mætti segja að þeir, sem að framleiðslunni stæðu, t.d. fjárbændur, sem þarna eiga erfiðastan hlut, fengju út úr þessum lánum nægilegt fjármagn til þess að mæta óhjákvæmilegum launakostnaði á framleiðslutímanum og beinum rekstrarútgjöldum meðan á framleiðslunni stendur. Svo þegar kæmi að því, að bóndinn legði inn afurði sínar á haustdögum, þá ætti hann í öllum aðalatriðum að fá afurðir sínar greiddar. Þegar þetta gerist tekur við annað lánakerfi. Þá er það sem bankarnir verða að veita afurðasölufélögunum, sem hafa tekið við afurðunum af bændum, afurðalán svo þau geti borgað bændum vöruna um leið og tekið er við framleiðslunni. Auðvitað yrðu þau afurðalán til afurðasölufélaganna hæst í október og nóvembermánuði, eða rétt eftir að innlegg færi fram, en færu svo jafnt og þétt lækkandi, þessi afurðalán til afurðasölufélaganna, eftir því sem gengi á birgðirnar, og væru væntanlega búin að mestu leyti þegar nýtt innlegg kæmi. Þarna ætti sem sé að skilja algjörlega á milli eðlilegra rekstrarlána til bænda, sem gerðu þeim kleift að fá kaup sitt greitt með eitthvað líkum hætti og aðrir fá og greiða nauðsynlegustu rekstrargjöld í sambandi við reksturinn. Þá fengju þeir líka afurðir sínar greiddar með eðlilegum hætti. Þetta á að ganga til bændanna beint. Þarna á að skilja á milli þeirra sem framleiðenda og félagssamtaka þeirra.

Það er þetta sem ég álit að þurfi að vera skýrt að sé ætlunin, svona eigi þetta að vera. En að sjálfsögðu kemur inn í þetta dæmi þessi spurning: Leiðir þetta fyrirkomulag, sem ég hef hér verið að lýsa, þá ekki til þess, að bankakerfið í landinu verði að auka lán sín umfram það sem nú er? Það dæmi er ekki gert upp að fullu enn þá, hvort það þarf að auka heildarlánin eða ekki. En ef þessi lán verða aukin hvort sem er, eins og uppi eru kröfur um frá bændafundum og kom m.a. fram hér hjá hv, þm. Inga Tryggvasyni, að það þurfi að auka lánin í því formi sem nú er til afurðasölufélaganna, þá vitanlega hefur það nákvæmlega sama vanda í för með sér og að greiða lánin beint til bænda, ef um sömu upphæðina er að ræða í báðum tilfellum. Það bara fer eftir annarri leið. Þá er aðeins verið að ræða um það, hvað réttmætt sé að lána mikið fjármagn annaðhvort í gegnum afurðasölufélögin eða beint til bænda, hvað sé réttmætt að lána út mikið fjármagn í sambandi við þessa framleiðslu. Ég get vel ímyndað mér að það standi einhverjar deilur um það, hvað eigi að hafa þessi heildarlán mikil. Það er allt annað mál.

Það er augljóst, miðað við það sem ég hef hér sagt, að þetta form hefur marga stóra kosti umfram það sem nú er í gildi. Í fyrsta lagi yrði þetta til þess, að bóndinn fengi laun sín greidd í líkingu við aðra yfir allt framleiðslutímabilið og hann fengi launin greidd strax og í peningum, ekki með neinu innskriftar- og skuldaskiptafyrirkomulagi. Hann fengi líka fjármagn í sínar hendur vegna þess rekstrar sem hann stendur í, til þess að greiða bein og óhjákvæmileg rekstrarútgjöld, og þá greiðir hann sin rekstrarútgjöld sjálfur, t.d. til kaupfélags síns og annarra þeirra sem hann verslar við. Þá ráðstafar hann eigin peningum eins og sjálfstæður rekstraraðili, skynjar betur tekjur sínar og gjöld og hvað hann má leggja á búið, en er ekki í slíku skuldaskilauppgjöri eins og hann er nú, þar sem í rauninni enginn veit neitt um stöðu dagsins. Þetta væri gífurlega mikið hagsmunamál fyrir bændur, það er enginn vafi á því, og mundi gera hér alla hluti hreinni.

En svo langar mig að víkja að því sjónarmiði í sambandi við þessi mál sem kom einkum fram hjá Inga Tryggvasyni og að nokkru leyti hjá Páli Péturssyni, þó að það væri ekki að mínum dómi eins ákveðið og hjá Inga. Hann setur dæmið upp á þá lund, að bændur vilji hafa afurðasölufélög, þeir telji það hagkvæmt sér, og af því sé eðlilegt að þessi lán til landbúnaðarins gangi í gegnum þau, þessi félög séu bændastéttinni nauðsynleg og hafi staðið sig vel o.s.frv. Undir þetta get ég allt tekið. Það hvarflar ekki að mér að afurðasölufélög bændanna eigi að hverfa eða verkefni þeirra að minnka, síður en svo. Vitanlega taka þau vöruna áfram til sölumeðferðar og hafa með þau mál að gera sem þau hafa haft. Á því þarf ekki að verða breyting. Það er eðlilegt og sjálfsagt að bændur notfæri sér þessi félagssamtök eins og best verður á kosið fyrir þá sem heild. En vitanlega kallar það form, þó menn hafi afurðasölufélag, ekki á það að halda uppi því formi sem nú er á veitingu afurðalánanna.

Ég minntist á það í umr. á síðasta þingi, að við, sem höfum verið tengdari sjávarútvegi, eins og ég, höfum lifað þetta tímabil allt í okkar rekstri. Við eigum enn okkar afurðasölufélög og við höfum þau líka, og þau störfuðu í sama gamaldags, úrelta forminu sem afurðasölufélög landbúnaðarins búa við í dag. Þar var um að ræða marga framleiðendur, smáa oft og tíðum. Og þar var um að ræða umboðssölufélög sem tóku afurðirnar til sölumeðferðar. Nú er búið að breyta þessu öllu, og það hefur tekist með ágætum og mundi enginn, eins og ég sagði síðast þegar ég ræddi um þetta mál, taka í mál í dag að snúa til baka aftur.

Sannleikurinn er sá, eins og kom fram m.a. í ræðu hv. þm. Páls Péturssonar, og það vitum við öll sem höfum eitthvað fylgst með þessum málum, að afurðasölufélög landbúnaðarins, sem eru notuð sem millistöðvar í sambandi við þessi lán til bændanna, eru mjög mismunandi. Sum eru hrein afurðasölufélög bændanna og þar koma ekki aðrir til. En langoftast eru þetta almenn kaupfélög sem hafa mjög margvíslegan rekstur. Þau reka frystihús og útgerð skipa eða báta, þau reka margs konar verkstæði, ásamt auðvitað hinni almennu verslun, áhætturekstur í sumum tilfellum. Þau hafa dregist út í það og hafa orðið að sinna þessu. Af þessu hefur leitt það m.a., ásamt með því að rekstrarlánin hafa verið of knöpp og komið of seint, að uppgjör afurðasölufélaganna til bændanna í sambandi við innlegg þeirra er mismunandi. Sum borga miklu fyrr en önnur og sum borga miklu hærri fjárhæðir en hin í sambandi við viss uppgjörstímabíl. Þetta er viðurkennt og þetta liggur líka talnalega fyrir. Og það vill nú fara fyrir kaupfélögum alveg eins og öðrum, að þar neyðast menn oft til þess að blanda saman fjármunum, sérstaklega þegar ekki eru nægir peningar til alls. Það hefur því oft komið að því, að verulegur dráttur verður á því að bændur fái sitt uppgjör, af því að afurðasölufélag þeirra getur hreinlega ekki staðið nægilega vel í skilum. Og auðvitað verður þessi vandi enn meiri, eins og ég sagði, þegar um það er að ræða að lánin eru líka veitt bæði of seint og eru of lág.

Það er skoðun mín, að ef hér yrði tekið upp breytt form yrði þetta ekki aðeins bændunum verulega til hagsbóta með því að þeir fengju allt sitt uppgjör á hreinni grundvelli, heldur yrði þetta fljótlega afurðasölufélögunum eða kaupfélögunum, sem algengast er, einnig til bóta. Það fyrirkomulag sem nú gildir, að bændur skuli yfirleitt vera í reikningsviðskiptum allt árið og geti svo að segja aldrei tekið út fjármuni nema í einhvers konar milliskriftum, á vitanlega að heyra fortíðinni til. Og það þarf ekki að segja mér það, að þegar það stæði bændum til boða að geta fengið þessi afurðalán á þeim grundvelli sem ég hef verið að lýsa, með reglulegum hætti, þá mundu þeir ekki allir taka því. Við skulum setja rammann upp þannig, að þetta standi mönnum til boða og sumir vilji hafa gamla innskriftarfyrirkomulagið áfram, og við skulum þá sjá hvað þeir verða margir sem kjósa innskriftarfyrirkomulagið. Ég er ekki í neinum vafa um að þarna mundi verða á almenn breyting.

Ástæðan til þess, að bændur hafa ekki sett þetta fram sem aðalkröfu sína á þeim kröfufundum sem þeir hafa verið að halda, er einfaldlega sú, að þetta mál hefur ekki legið þannig fyrir. Þeir hafa nú sett það fram sem aðalkröfu, að þessi rekstrarlán yrðu hækkuð þannig að þeir gætu fengið peninga sína á réttum tíma. Auðvitað er það aðalkjarni málsins, að hægt sé að afhenda þeim peningana upp í framleiðsluna, þannig að þeir fái laun sín og geti greitt rekstrarkostnað sinn jafnóðum eins og aðrir, hafi raunveruleg peningaráð. Auðvitað er það aðalatriðið hjá þeim, að þeir fái það fram. Það er því ekkert óeðlilegt, að þeir setji fram þá kröfu að lánin séu hækkuð svo að hægt sé að ná þessu marki. En hitt skiptir líka miklu máli, að menn átti sig á því, að það þarf að verða hér á formbreyting til þess að gera þessi mál öll hreinni, þannig að bændurnir hver og einn hafi sína peninga úr að spila, en þurfi ekki að leggja sig í það, eins og nú er títt, að ganga inn í skrifstofu kaupfélagsstjórans og hreinlega skrifta út af hverju sem er, ef þeir þurfa fjármuni, vegna þess að reikningur þeirra er nær alltaf öfugur í bókhaldinu þar vegna innskriftarfyrirkomulagsins og allra þeirra tafa sem þar verða á. Auðvitað er vel hægt að segja það, þegar menn eru svo heppnir að hafa úrvals kaupfélagsstjóra, að þá séu engin vandræði að ganga fyrir hann og lýsa vanda sínum, og hann leysir hann sem góður maður. En við skulum ekki halda að kaupfélagsstjórarnir séu svo miklu betri en aðrir menn í þessu landi, að þegar þeir eru komnir saman 40–50, þá sé ekki þar misjafn sauður í mörgu fé, eins og þar stendur. Þetta er því engin skemmtiganga fyrir neinn, og það er allsendis óþarfi að búa þetta til.

Hér hefur verið minnst á það, að erfitt væri að skipta hér um form. Ég get vel ímyndað mér að hankakerfið hér syðra reyni að halda í þetta form í sambandi við bændurna, eins og það gerði í sambandi við útgerðina á sínum tíma. Það er auðvitað miklu þægilegra að veita einhverjum einum aðila á stórum stað lánið í heilu lagi á einn pappír og svo sér hann um að dreifa því. En auðvitað getur bankakerfið með sínum dreifistöðvum auðveldlega annast þetta. Verkið er unnið. Það er unnið af afurðasölufélögunum, það er unnið af kaupfélögunum, þau geta það. Skyldu þá ekki útibú bankanna alveg eins geta gert það? Það er líka auðvelt að láta þá trúnaðarmenn í landbúnaði, sem eru opinberir starfsmenn, starfandi á hverju svæði, gefa upp til bankastofnananna hvað hver einstakur bóndi, t.d. fjárbóndi, eigi von á miklu innleggi á haustdögum. Það er enginn vandi að gera áætlun um þetta, þannig að með sæmilegu öryggi sé, svo að það sé ekki meira fyrir banka að gera þetta en hann gerir í hliðstæðum tilfellum við aðra aðila, þar sem hann verður að gera áætlun fyrir fram í sambandi við þá lánafyrirgreiðslu sem hann er að veita. Það er ofurauðvelt að áætla hinum ýmsu bændum þá fyrirgreiðslu í slíkum rekstrarlánum sem mundi leysa þennan vanda sem ég hef talað um, — þann vanda að bóndinn gæti fengið sín laun greidd með eðlilegum hætti og staðið undir nauðsynlegum beinum rekstrarkostnaði. Eflaust yrði hafður sá háttur á í þessum tilfellum við bændur, eins og hefur verið gert við t.d. útgerðina í landinu, að sá hlutinn af heildarverðmæti framleiðslunnar, sem þarf með eðlilegum hætti að ganga upp í stofnkostnað, yrði látinn mæta afgangi og ekki greiddur fyrr en við endanleg reikningslok. Svona er þetta t.d. hjá okkur í sambandi við hliðstæð sjávarútvegslán.

Ég held, að það sé alveg ástæðulaust að gera mikið úr því, að þetta sé allt of flókið og erfitt, eða eins og hér var sagt: þetta mundi auka skriffinnskuna. Sannleikurinn er sá, að þetta mundi stórkostlega draga úr skriffinnskunni, því að það er veruleg skriffinnska að halda uppi því fyrirkomulagi, að nær allir bændur landsins skuli þurfa að ganga í gegnum innskriftarfyrirkomulag í afurðasölufélagi sínu eða kaupfélagi með alla mögulega hluti. Það er óþarfaskriffinnska sem er bundin við það, og menn eiga að losa sig út úr slíku. Bóndinn á að geta valið og hafnað og ráðstafað fjármunum sinum sjálfur og greitt úttekt sína, og þá væntanlega hagar hann úttekt sinni líka á hverjum tíma í einhverju samræmi við það sem hann sér að tekjur hans eru.

Eins og ég hafði sagt hér áður, breytir þetta á engan hátt stöðu afurðasölufélaganna. Þau taka við afurðunum, fá sín afurðalán frá bankakerfinu út á það afurðamagn sem þau hafa tekið á móti. Það er einnig hægt að halda áfram, ef menn vilja það, því meginkerfi, að þetta sé umboðssölukerfi, þannig að bændurnir fái það sem endanlega fæst fyrir vöruna. En þetta hefur verið leyst hjá öðrum með því að vera með ákveðið útreikningsverð eða áætlunarverð sem allar greiðslur eru miðaðar við og eru þá fastar. Þó að við búum við samvinnufélög í sambandi við útgerðina, þá er algerlega búið að leggja það niður, að sjómenn eða útgerðarmenn leggi inn fisk upp á algerlega óákveðið verð. Þar er fast áætlunarverð, sem innleggið er bókað á. En það tekur ekki fyrir það á neinn hátt, að þegar félag þeirra skilar reikningum undir lokin geti það skilað verðuppbót, ef svo vill verða, sem sagt skilað öllu því söluandvirði sem fengist hefur.

Ég held að sérstaklega þeir fulltrúar bænda og þeir bændur, sem að sjálfsögðu láta sig þessi mál miklu skipta og hafa hugleitt þessi mál, verði að taka þessi mál til nýrrar endurskoðunar. Þeir eru ábyggilega í þessum efnum aðeins fastir í gömlu formi. Það er nú svo, að menn halda stundum að það sé mjög erfitt að skipta um form og gamla formið sé næstum það eina sem geti dugað. En það er búið að sýna það og sanna, að það hefur verið í alveg hliðstæðum greinum verið skipt um form með góðum árangri. Og það er það sem þarf að gera í þessum efnum. Það þarf að breyta forminu á rekstrar- og afurðalánum landbúnaðarins. Það á að veita rekstrarlánin beint til bændanna. Hin eiginlegu afurðalán á aftur að veita til þeirra félagasamtaka sem hafa með söluna að gera og líta á þau sem sjálfstæð félög, sem taka lán út á þær afurðabirgðir sem þau hafa á hverjum tíma. Þetta form þarf að koma, og þá er líka hægt að koma bændum þangað sem aðrir hafa þegar komið sér. En þeir eru svo að segja einir í þjóðfélaginu aftur úr að því leyti, að þeir geti fengið laun sín greidd jafnóðum og þeir geti fengið bankafyrirgreiðslu til að standa undir óhjákvæmilegum rekstrargjöldum.

Ég held að það sé alveg óþarfi fyrir afurðasölufélögin að óttast neitt í þessum efnum, að þau hafi ekki næg verkefni eftir sem áður þó að forustumenn þeirra verði ekki áfram allsherjarrekstrarstjórar yfir fjölda bænda, eins og þeir eru í dag, þeir eigi ekki að vera þar forsjá allra, ráði því raunverulega, hvað þessi bóndi fær mikið og hvað hinn fær mikið á hverjum tíma. Í mörgum tilfellum ráða þeir þessu ekki sérlega vel.

Ég vildi við þessa umr. láta þetta sjónarmið mitt koma fram, að ég legg á það áherslu, að það er þörf á því að gera þessar till. nokkru skýrari um það, að hverju er stefnt, um leið og nýtt form er tekið upp. Það er við það miðað, að bændurnir geti fengið rekstrarlán til að fullnægja því, sem ég hef verið að lýsa, jafnóðum og framleiðslan fer fram. Þá eru þeir settir á hliðstætt stig og aðrir. Þetta atriði þarf að tryggja, og þá hafa þeir líka komist í það að hafa hér einhver peningaráð og losna úr gamla skuldaklafakerfinu sem gilt hefur.