26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1791 í B-deild Alþingistíðinda. (1507)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Jón Helgason:

Herra forseti. Það hefur verið drepið hér á ýmislegt, en einkum er það þó tvennt í sambandi við landbúnaðarmálin sem hefur verið til umr, Annars vegar er það tilhögun á rekstrar- og afurðalánum og hins vegar er það svo hæð þeirra, fjárhæðin. Ég get tekið undir það, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði, að við eigum ekki að vera að bíta okkur í einhver gömul form, að hlutirnir eigi að vera svona af því að þeir hafi verið það áður. Það eru vitanlega engin rök, og vitanlega verður alltaf að athuga hvað er hagkvæmast fyrir þá sem njóta eiga.

Það er dálitið öðruvísi skipulag á afurðasölumálum sunnlenskra bænda heldur en flestra annarra, þar sem afurðasölufélögin eru þar alveg sér. Mér datt í hug, þegar hv. 2, þm. Austurl. var að tala um innskriftar- og forsjárfyrirkomulagið sem bændur yrðu að búa við, að bændur á Suðurlandi fá yfirleitt greiðslur frá sínum afurðasölufélögum. Þeir ráða því, hvert þær ganga. Þeir ráða því, hvort greitt er inn á bankareikning eða hvort þær fara til viðkomandi verslana. En þar sem ég þekki nokkuð vel til rekstrar kaupfélaga við slíkar aðstæður, þá ætti eftir þeirri lýsingu, sem hv. 2, þm, Austurl. gaf hér, ekki að þurfa að vera með neina skriffinnsku. Bændur fá sína peninga frá sinum afurðasölufélögum og ættu þá að geta greitt úttekt sína í kaupfélaginu. Og ég vil fullyrða það, að þeir, sem bera ábyrgð á rekstri kaupfélags og sjá um hann, kysu vitanlega langhelst að það þyrfti ekki að skrifa neitt, það væri því hagkvæmast. En þrátt fyrir það hafa þeir ekki treyst sér til að hætta að færa í reikning hjá bændum. Það er bæði vegna aðstöðu þeirra, en fyrst og fremst vegna þess, að með því móti eru þeir að styðja bændur. Hefur verið rakið hér áður, og ég skal reyna að endurtaka það ekki, hversu veltan í landbúnaði er hæg. Ég held að allir sanngjarnir menn, sem þekkja til í sveitum, hljóti að viðurkenna það, að kaupfélögin hafa átt ákaflega drjúgan þátt í þeirri uppbyggingu, sem fram hefur farið í sveitum, með því að lána bændum í lengri eða skemmri tíma umfram það sem þær afurðir, sem þeir hafa lagt inn eða ætla að leggja inn, gefa tilefni til í augnablikinu, þannig að þetta er ekki alveg einfalt mál.

Hitt eru áreiðanlega allir bændur og þeir, sem vinna að hagsmunum bænda, sammála um, að afurða- og rekstrarlánin þurfa að vera það há að hændur geti greitt sínar rekstrarvörur og fengið sitt kaup jafnóðum. Það er það markmið sem hefur verið margítrekað af bændum. En það hefur gengið dálitið misjafnlega. Rekstrarlánin, sem eiga að gera bændum kleift að greiða sínar rekstrarvörur þangað til þeir geta skilað afurðunum, hafa haldist alllengi og fyrir 1960 voru þau orðin allstór hluti afurðaverðsins. Ég man nú ekki nákvæmlega hvað það hlutfall var hátt. Hins vegar stóðu þau alveg í stað í krónutölu á viðreisnarstjórnarárunum. Það var vitanlega mikið hagsmunamál bænda að fá þau hækkuð, en þrátt fyrir það tókst það ekki. En þar sem hv. 2. þm.

Austurl. var viðskrh. á árunum 1971–1974 og þá um leið yfirmaður Seðlabankans sem veitir rekstrarlánin, þá langar mig að spyrja hann, hvað hann hafi beitt sér fyrir mikilli hækkun þeirra á meðan hann var yfirmaður Seðlabankans.