26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (1511)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Jón Helgason:

Herra forseti. Mér finnst að það séu ómakleg ummæli um kaupfélagsstjóra, sem hv. 2. þm. Austurl. viðhafði hér, þegar hann gaf í skyn að þeim hætti e.t.v. til einhverrar hlutdrægni. Ég tel að það sé ómaklegt að viðhafa þau orð hér um menn þegar þeir eru fjarstaddir og hafa ekki möguleika til sjálfir að bera hönd fyrir höfuð sér, að hafa slík ummæli um heila stétt. (Gripið fram í.) Já, án þess að skilgreina það nánar. Ég hlýt því að mótmæla slíku. Sú reynsla, sem ég hef af þeim mönnum, er önnur og gagnstæð, og því held ég að' þetta hljóti að vera sleggjudómur.

En ég vil nú sérstaklega fara örfáum orðum um svar sem hann veitti við spurningu minni. Að vísu orðaði hann spurninguna nokkuð öðruvísi en ég bar hana fram. Ég spurði eingöngu um rekstrarlánin. Ég veit ekki hvernig orðaskipti hafa farið fram í vinstri stjórninni, hef ekki séð bókanir þar, get því ekki fullyrt um hvernig þeim er háttað. Ég veit hins vegar að Seðlabanki Íslands heyrir undir viðskrh., en hvorki landbrh. né sjútvrh., og ef Lúðvík Jósepsson sjútvrh. hefur getað gefið Seðlabanka Íslands fyrirmæli, þá hefur hann vitanlega gert það sem viðskrh. (LJós: Í nafni ríkisstj., hún gerði samþykkt um það.) Já, og framkvæmt þar samþykkt ríkisstj. sem yfirmaður Seðlabanka Íslands. En ég varpaði fram þessari spurningu vegna þess að hann var að ræða hér um þörfina á auknum rekstrarlánum. Á árunum 1971–1974 voru þessi rekstrarlán til bænda, sem voru þá greidd á sama hátt og nú, 200 kr. á hvern dilk, eins og þau höfðu verið allan stjórnartíma viðreisnarstjórnarinnar. Þau hækkuðu fyrst þegar núv. viðskrh. varð yfirmaður Seðlabanka Íslands. Þá tvöfölduðust þau fyrst og síðan voru þau hækkuð um 50%.