26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1802 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er nú verst ef hv. þm. Lúðvík Jósepsson er fjarri, því að ég ætla að gera örlitla aths. við mál hans, og væri mér ljúfara ef hann væri viðlátinn. (Forseti: Ég hygg að hann sé farinn af fundi.) Af fundi? Það verður þá að hafa það.

Það er náttúrlega ekkert óguðlegt við það að bændur fái afurðir sínar greiddar, Það er formið á greiðslunni sem um er að ræða hér. En það er sú fjárhæð, sem greidd er, sem skiptir náttúrlega mestu máli.

Hv. þm. lagði á það megináherslu, að hver yrði að fá það sem hann ætti. Ég vil leggja megináherslu á það, að hver fái það sem hann þarf, og það er þetta sem ber á milli hjá okkur. Ég held að það sé enn þá brýnna að hver fái svona hér um bil það sem hann þarf.

Ég skil ekkert í þessu tali um dyntina í kaupfélagsstjórunum. Þeir kaupfélagsstjórar, sem ég þekki fyrir austan, eru ekki líklegir til þess að vera mjög dyntóttir, og mér kemur það á óvart ef þeir eru miklu dyntóttari en bankastjórar.

Það er ekki réttmætt að bera nákvæmlega saman iðnað og landbúnað að þessu leyti. Fjölskyldufyrirtæki, lítil fyrirtæki, eru miklu almennari í landbúnaði heldur en í iðnaði, og samanburður í þessa veru er út í loftið.

Ég hef heyrt áður allar þær röksemdir sem komu fram hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni. Þær voru um reikningsviðskipti og kosti staðgreiðslufyrirkomulags. En ég hef ekki heyrt þær fyrr en í dag í svo ríkum mæli hjá hv. þm. Lúðvík Jósepssyni, Ég hef heyrt þær á kaupfélagsfundum fyrir norðan, hjá hinum hörðustu einkaframtakspostulum þar.

Og svo er þetta með samhjálpina, hvort hún á að koma frá öðrum eða hvort við eigum að leggja eitthvað af mörkum sjálfir. Ég held að við eigum að leggja samhjálpinni það lið sem við mögulega getum. Ef það dugir ekki til, þá er kannske rétt að beita öðrum ráðum.