26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1803 í B-deild Alþingistíðinda. (1514)

108. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti, Ég skal aðeins ræða örstutta stund um málið og reyna að tefja ekki umr.

Hér hafa umr. farið talsvert inn á ýmiss konar hugsjónagrundvöll, og heyrðist mér að jafnvel hv, þm. Páll Pétursson væri farinn að túlka gamlar kenningar sem maður hefði haldið að aðrir mundu fremur túlka hér, að allir skyldu fá samkv. þörfum sínum o.s.frv. Allt er þetta gott og fagurt, en það hefur reynst misjafnlega í framkvæmd, eins og við þekkjum, Hann gat þess að vísu, að hann teldi sig íhaldssaman að því leyti, að hann vildi ekki breyta hætti sem á væri og hann teldi ekki mjög slæman. Ég held að það sé orð að sönnu, að hann sé mjög íhaldssamur í þessu efni, kannske nærri því afturhaldssamur, því að nú er hálf öld liðin síðan þessi sjónarmið, sem hér er verið að tala um, voru uppi hjá atvinnurekendum á Íslandi og verslunarfyrirtækjum. Þá varð að setja sérstaka löggjöf, mig minnir að hún sé nr. 28 frá 1930, um greiðslu verkkaups í peningum, einmitt vegna þess að útgerðarmenn, verslunaraðilar og aðrir slíkir héldu fjármunum fyrir hinum vinnandi manni og greiddu honum þá ekki í peningum. Þetta er enn að gerast í landbúnaði, því miður. Það er þess vegna orð að sönnu, að þeir, sem halda þessum sjónarmiðum fram, séu — ég vil ekki segja íhaldsmenn, heldur afturhaldsmenn. Breyting hlýtur að verða á í þessu efni gagnvart bændastéttinni og launum bænda eins og varð fyrir 50 árum gagnvart öllum öðrum sem lögum samkvæmt fá greitt sitt kaup í peningum. og algerlega er óheimilt að skuldajafna og millifæra vegna vinnulauna. Ég held að það sé rétt að þetta komi hér fram, úr því að menn eru að tala hér í nafni einhverrar óskaplegrar hugsjónar, sem mér heyrðist á einum eða tveimur ræðumönnum. En það er stundum dálítið hlægilegt að tala í nafni hugsjónar þegar þarf að beita aðferðum sem kannske eru ekki mjög fagrar þegar þær eru skoðaðar ofan í kjölinn. En við skulum ekki fara lengra út í þá sálma.

Hv. 3, þm. Norðurl. e., Stefán Valgeirsson. sagði að við værum að tala hér um lítilsverða hluti. Ég held að við séum að tala um kjarna málsins. Hann fullyrti að bændur hefðu engan áhuga að fá hetta fé beint. Hvað veit þessi hv. hm. um það? Hann segir í næsta orði: Þetta hefur ekki verið rætt á bændafundum, það þarf að ræða þetta á fundunum, — Og þegar ég spyr hvernig honum komi þessi vitneskja, þá er það bara úr einhverjum einkaviðræðum, Ég er sammála því, að það á að ræða þetta á bændafundum, og það verður líka alveg áreiðanlega gert, bæði á bændafundum og ýmsum fundum öðrum. Og við skulum sjá hvort þeir bændur eru fleiri, sem eru á sömu skoðun og hann, að þetta eigi að vera óbreytt, eða hinir, sem vilja breytingar í þessu efni. Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um það, að þeir eru fleiri sem vilja hér breyta til.

Það þarf ekkert að blanda hér inn í hvort kaupfélagsstjórarnir séu eitthvað betri eða verri menn en aðrir, En við vitum öll ósköp vel að kaupfélagsstjórar eiga í erfiðleikum líka. Þeir þurfa að reyna að reka sín fyrirtæki og reka þau vel. Þess er krafist af þeim. Ég er alveg viss um að stjórnendur kaupfélaganna gera stundum mjög óbilgjarnar kröfur á hendur kaupfélagsstjórunum, vil ég segja, einmitt um að þeir skili sæmilegri afkomu. Þess vegna held ég að þeir, sem eru í þessu daglega stríði, séu ekki betur til þess fallnir heldur en bankastjórar að leysa úr þörfum .fólks sem vantar fjármuni, og þeir eigi ekki að valsa með peninga þessa fjölda fólks að eigin geðþótta og það þurfi að knékrjúpa fyrir þeim. Ég held að við þurfum ekkert að ræða þetta frekar, Ég held að sjái þetta hver einasti maður, og ég skal ekki tefja umr. lengur.