26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1517)

118. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Vafalaust mun einhverjum þykja borið í bakkafullan lækinn að hefja hér umr. um rekstrar- og afurðalán bænda eftir þriggja klukkutíma umr. um það mál hér á undan í tilefni af þingmáli af þskj. 127. Ég vil samt leyfa mér að mæla fyrir till. sem ber nákvæmlega sama nafn og hin fyrri till., en fjallar um allt annað efni. Fyrri till., sem hér hefur verið til umr., fjallar um það, að rekstrar- og afurðalán landbúnaðarins skuli greidd beint til bænda. Þar er um formbreytingu að ræða sem gerð er till. um, — formbreytingu sem vafalaust á vissan rétt á sér í ákveðnum tilvikum, enda þótt ég sé mjög sammála því, sem fram kom hjá ýmsum í umr. hér áðan, að þetta getur ekki gilt og ekki átt við í öllum tilvikum varðandi rekstrar- og afurðalán. Það yrðu þá fyrst og fremst rekstrarlánin sem gætu tekið þessum breytingum. Ég tel hins vegar að það, hvernig hagað er greiðslu þessara lána, sé ekkert aðalatriði þessa máls, og satt að segja þykir mér illt að umr. um þetta mál skuli svo einhliða snúast um þetta formsatriði, vegna þess að hitt er auðvitað aðalatriðið, að þessi lán eru ófullnægjandi og verða að breytast og verða að hækka. Og mér er nokkur forvitni að vita hvort ýmsir þeir talsmenn landbúnaðarins, sem hér töluðu áðan í hinni fyrri umr. og höfðu uppi heita svardaga um að lánin þyrftu að taka verulegum breytingum, reyndust reiðubúnir að veita till. stuðning sem hér er höfð framsaga um og fjallar einmitt um þetta atriði, að breyta þessum lánum til hins betra og að hækka þau, eða hvort þeir haga sér sem hin fyrri ár, þegar svipaðar till. hafa verið fluttar hér í þinginu, og leggjast á þær af öllum sínum þunga, þannig að þær fái ekki neina afgreiðslu í þinginu.

Við þm. Alþb. höfum nefnilega ekki flutt till. um þetta efni nú í fyrsta skipti. Við höfum flutt till. um þetta mál margsinnis áður og þá ávallt í því formi, að um hefur verið að ræða breytt fyrirkomulag á greiðsluupphæð rekstrarlána til sauðfjárbænda. Þar hefur verið gert ráð fyrir því, að bændum yrði tryggð viðunandi lánafyrirgreiðsla, og miðað við það, að lánin yrðu veitt frá ársbyrjun til ágústloka ár hvert og yrðu þá orðin 75% af væntanlegum afurðalánum. Hér yrði um að ræða stórfellda réttarbót fyrir bændur, enda hefur það verið margsinnis rökstutt, þegar mælt hefur verið fyrir þessari till. hér í þinginu, og kom reyndar skýrt fram í máli flestra ræðumanna áðan varðandi hina fyrri till. sem var hér til umr., að lánin eru alls ófullnægjandi eins og þau eru í dag og hafa raunar farið jafnt og þétt rýrnandi á seinustu tveimur áratugum.

Ég held að það leyni sér ekki, að umr. um þessi mál hafa mjög magnast í seinni tíð, og þarf svo sem engan að undra það, því að verðbólgan hefur aldrei í Íslandssögunni verið jafnofsafengin og geisað jafnstrítt hér á landi eins og einmitt í tíð þessarar ríkisstj., verið að jafnaði 30–50% og allt upp í 60% á hverju 12 mánaða skeiði. Þetta hefur að sjálfsögðu haft mjög mikil áhrif á rekstrarafkomu bændastéttarinnar. Þar að auki hefur það bæst við, að almenn lán hafa orðið miklu óhagstæðari hvað kjör snertir en áður var, þannig að vaxtagreiðslur á algengustu tegundum lána eru nú komin upp í 30%. Það segir sig því sjálft að skortur á rekstrarlánum verður við slíkar aðstæður, bæði þegar verðbólgan er jafngífurleg og raun ber vitni og þegar vextirnir eru orðnir svo háir sem reynslan sýnir. Þá verður skortur á rekstrarlánum eitt allra mesta vandamál bænda.

Á undanförnum missirum hafa verið haldnir bændafundir víðs vegar um land, og þar held ég að þá kröfu, að lánafyrirgreiðsla tif bænda verði aukin, hafi e.t.v. borið hærra en flestar aðrar kröfur.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var á Eiðum 29.–31. ágúst s.l., var m.a. fjallað um lánamál bænda. Fundurinn taldi, svo ég vitni orðrétt í samþykkt fundarins: „það ástand, sem nú ríkir í lánamálum landbúnaðarins, óviðunandi og gerir kröfur til þess, að úrbætur verði gerðar í þeim efnum. Vegna verðbólgu og einnig vegna stóraukinnar tæknivæðingar í landbúnaði hefur þörfin fyrir lánsfjármagn vaxið hröðum skrefum og þær lagfæringar, sem gerðar hafa veríð, hvergi nærri fullnægjandi, og bendir fundurinn þá sérstaklega á rekstrar- og afurðalán og lán til þeirra, sem eru að hefja búskap, í því sambandi.“

Við Alþb: menn flytjum till. með nokkuð breyttu orðalagi og efni að þessu sinni, miðað við þær till. sem við höfum flutt á undanförnum árum og ekki hafa náð fram að ganga, og tökum þar nokkurt mið af ályktun Stéttarsambands bænda og aðalfundar þess.

Í till. okkar er lögð áhersla á það, að ríkisstj. geri ráðstafanir til að tryggja bændum viðunandi rekstrar- og afurðalán, eins og þar segir í 1. málsgr., og síðan er skilgreint í fjórum atriðum hver breytingin skuli vera.

Í fyrsta lagi, að rekstrarlán til sauðfjárbúskapar verði aukin, þannig að þau verði a.m.k. 60% af skilaverði við upphaf sláturtíðar og séu veitt jöfnum höndum eftir því sem rekstrarkostnaður fellur til. Hér göngum við aðeins skemmra en við gerðum í till. okkar í fyrra og í hittiðfyrra, vegna þess að aðalfundur stéttarsambandsins gengur ekki lengra í kröfugerð sinni, jafnvef þótt einstakir bændafundir hafi gert það, og telur að hér væri vafalaust um stórfelldan áfangasigur að ræða ef 60% af skilaverði fengjust veitt sem lán við upphaf sláturtíðar.

Í öðru lagi leggjum við til, að afurðalán miðist við að sölufélögum sé kleift að greiða minnst 90% af grundvallarverði við móttöku afurðanna. Lánin skulu breytast í samræmi við heildsöluverð, eins og það er ákveðið á hverjum tíma. Ég held að þetta sé eins skýrt og verða má og þarfnist ekki frekari skýringa.

Í þriðja lagi er lagt til, að svonefnd uppgjörslán nægi til að greiða bændum grundvallarverð að fullu, eins og það er í maímánuði á ári hverju.

Svo er í fjórða lagi, að svonefnd fóðurbirgðalán, öðru nafni hafíslán, sem tengd eru óttanum við hafísár fyrir Norðurlandi, miðist við að nægar birgðir fóðurvara séu tryggðar á hafíssvæðinu til 6 mánaða frá áramótum.

Ég held að tillögugerðin sé alveg nægilega skýr til þess að hægt sé að spara hv. þm. að hlusta á frekari útskýringar við þessa kröfugerð. Hins vegar er rétt að skoða það að lokum, hver eru rekstrarlán tif atvinnuveganna og þá sérstaklega til landbúnaðarins.

Samkv. upplýsingum Seðlabankans námu rekstrar- og afurðalán til atvinnuveganna, sem fjármögnuð voru með endurkaupum Seðlabankans í sept, s.l. samtals rúmum 22 milljörðum kr., og þau skiptust þannig, að landbúnaðurinn fékk í sinn hlut rúma 51/2 miljarð, sjávarútvegurinn 141/2 milljarð og iðnaðurinn tæpa 21/2 milljarð. Samtals eru þetta 221/2 milljarður. Til samanburðar við þetta er fróðlegt að skoða hverjar eru bundnar innistæður viðskiptabankanna hjá Seðlabankanum, en þær eru einmitt sérstaklega hugsaðar til að standa undir rekstrar- og afurðalánum til atvinnuveganna. Þær námu á sama tíma heldur lægri upphæð, eða um 20 000 millj. kr, og höfðu aukist um 11 700 millj, kr, síðan á árinu 1974.

Í þessu sambandi er alveg sérstaklega eftirtektarvert, að það eru ekki aðeins þessir þrír atvinnuvegir, meginatvinnuvegir landsmanna, sjávarútvegur, iðnaður og landbúnaður, sem hafa lagst á spena hjá Seðlabankanum og bankakerfinu til þess að fá rekstrarlán til að geta haldið framleiðslunni gangandi með eðlilegum hætti. Þar hefur bæst við fjórði aðili á þessum sama tíma. Sá aðili var þar ekki fyrir nokkrum árum, en hefur nú bæst við og reynst frekari til fjármagns en nokkur hinna þriggja atvinnuvega, og þar á ég við ríkissjóð. Ríkissjóður hefur á sama tíma tekið í sinn hlut tæpar 14 000 millj. kr. En eins og ég sagði, þá er sem sagt skuld ríkissjóðs við Seðlabankann, sem var engin í tíð vinstri stjórnarinnar eða svo lítil að þar var nánast einungis um bókfærsluatriði að ræða, komin upp í um 14 000 millj. kr. nú í sept. 1977, nánar tiltekið 14493 millj. kr. En til samanburðar hefur sá atvinnuvegur, sem mest fær af rekstrarlánum, þ.e. sjávarútvegurinn, 14 562 millj. kr. Þó er það svo, að samkv. lögum um Seðlabankann ber ríkissjóði og ríkisstofnunum að greiða upp skuldir sínar við bankann nokkurn veginn í árslok. Þetta var að sjálfsögðu gert nokkurn veginn áður fyrr, í tíð fyrri ríkisstj. En nú hefur þetta sem sagt gerst, að á sama tíma og atvinnuvegirnir kvarta í vaxandi mæli yfir rekstrarfjárskorti vegna ófullnægjandi lána úr bankakerfinu og frá Seðlabankanum, þá tekur ríkissjóður til sín andstætt lögum upphæð, sem er um það bil 2/3 af öllum þeim rekstrarlánum sem veitt eru til atvinnuveganna í dag. Þetta sýnir að sjálfsögðu, að það hefði verið hægt að auka rekstrarlánin miklu meira en gert hefur verið, og það segir sig sjálft, að að því hlýtur að koma að ríkissjóður hefji greiðslu þessarar miklu skuldar við Seðlabankann, og þá virðist liggja beint við að fjármagnið verði að einhverju leyti hagnýtt til þess að stórauka rekstrarlánin til atvinnuveganna.

Ég tel því að ekki þurfi neinn vafi að leika á um það, að til þess að leysa bændur úr þeirri fjármagnskreppu, sem þeir eru nú í, er fjármagn tiltækt. Þetta er að sjálfsögðu allt of mikið stórmál til þess að nokkur geti leyft sér að afgreiða það með því einu að yppta öxlum. Þetta er mál sem verður að fá afgreiðslu hér í þinginu. En eins og ég hef þegar tekið fram, þá hefur farið svo 2–3 undanfarin ár, að till. okkar Alþb.-manna um þetta efni hafa alls enga afgreiðslu fengið. Ég vænti þess fastlega að þeir þm., m.a. þm. Framsfl., sem hér tóku hvað mest upp í sig áðan um það að hækkun lánanna væri aðalatriði málsins, hitt væri formsatriði og aukaatriði, þeir veiti nú foksins till. af þessu tagi brautargengi hér í þinginu.

Ég vil leyfa mér, herra forseti, að leggja til að þessari till. verði að lokinn þessari umr. vísað til hv. allshn.