26.01.1978
Sameinað þing: 40. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

118. mál, rekstrar- og afurðalán til bænda

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ef ekki hefði verið vegna athugasemdar hv, þm. Sigurlaugar Bjarnadóttur, þá hefði ég ekki séð ástæðu til að bæta neinu við, Þessi mál eru öll skýrð í grg. og er út af fyrir sig ekki miklu við það að bæta, því að þessar tölur koma þar allar greinilega fram. En sannleikur málsins er einfaldlega sá, eins og ég sagði áðan, að í tíð fyrri ríkisstjórna var það meginregla, að talsverð skuld myndaðist við Seðlabankann fram eftir ári, en um það bil er skattar voru uppgerðir undir árslok var þessi halli nokkurn veginn jafnaður. Þó vildi oft vera einhver smáupphæð sem stóð eftir, en þarna gat auðvitað aldrei verið um nákvæmt uppgjör að ræða, enda ekki þess að vænta þegar miklir fjármunir eru í veltunni. Í árslok 1971 er skuldin 512 miljónir kr., eins og hér kemur skýrt fram. Í árslok 1972 er hún talsvert minni, 234 millj. kr. Svo kemur eitt óvenjulegt ár, þ.e. árið 1973, þá er skuldin 1440 millj. kr. og hafði slíkt ekki áður gerst. Þetta átti sér hins vegar mjög augljósa skýringu á sínum tíma, sem mér þykir rétt að láta koma hér fram, vegna þess að þetta kann að valda mönnum umhugsun, eins og fram kom hjá hv. þm. Skýringin er einfaldlega sú, að á þessu ári verður Vestmannaeyjagosið og þá er stofnaður svonefndur Viðlagasjóður, og Viðlagasjóður er talinn hér með. Þetta er ríkissjóður og ríkisstofnanir, þ. á m. Viðlagasjóður. Ég þori að fullyrða að þessi skuldaaukning, sem lendir á árinu 1973, að miklu leyti, ef ekki nokkurn veginn öll, vegna skuldar Viðlagasjóðs, sem hann stofnaði til vegna þess sem gerðist í Vestmannaeyjum á þessu ári. Hann var ekki búinn að fá tekjur í hendur til þess að geta staðið aftur skil á þessu við Seðlabankann, og þá myndaðist þarna talsverður hali, Þetta átti sér þessa óvenjulegu skýringu á árinu 1973. Aftur á móti verður það, sem síðan hefur gerst, ekki afsakað með neinum slíkum sérstökum rökum. Hv, þm. benti að vísu á það, að í septembermánuði 1974 hefði verið komin skuld upp á 4600 millj. kr, Það var út af fyrir sig ekkert nýmæli að skuld safnaðist við Seðlabankann af hálfu ríkissjóðs á miðju fjárlagaári, vegna þess að við vitum að ríkissjóður, sérstaklega áður fyrr, fékk tekjur sínar talsvert mikið á síðari hluta ársins, þó að það hafi hægt og þétt verið að breytast. Það var algengt. En ætlunin var, og að því stefna lög, að ríkissjóður geri upp sínar skuldir að fullu við Seðlabankann í árslok. Það hafði hann alltaf gert nokkurn veginn. Það gerði hann raunverulega á árinu 1973 líka, vegna þess að þessi skuld Viðlagasjóðs við Seðlabankann er í raun og veru aukaatriði í málinu. En það, sem hefur gerst í tíð núv. ríkisstj. án þess að á því verði fundnar neinar viðhlítandi skýringar eða afsakanir, er að þarna hefur safnast upp 14000 millj. kr, skuld. Það er allt annars eðlis og verður ekki útskýrt með neinum skiljanlegum afsökunum eða rökum.

Ég er ekkert undrandi á því, að hv. þm. skyldi koma með þessa athugasemd, vegna þess að tölurnar geta valdið misskilningi af þessu tagi, ef menn þekkja ekki fullkomlega þann bakgrunn sem þarna er um að ræða. En svona er nú staðreynd málsins.

Ég vil svo að lokum þakka þeim þm., sem hér hafa talað, fyrir jákvæð viðhorf til þessarar till., þótt ég verði að segja það alveg eins og er, að ég hefði talið það hlutverk og skyldu varaformanns Stéttarsambands bænda, hv, þm. Jóns Helgasonar, sem talaði hér áðan og var í formannssæti á aðalfundi Stéttarsambands bænda þar sem meginefni þeirrar ályktunar, sem við gerum hér till. um, var samþ, sem ályktun Stéttarsambandsins, — mér finnst að slíkur maður hefði getað lotið svo lágt að lýsa yfir stuðningi við till. og óska eftir að hún næði fram að ganga. En það gerði hann ekki, eins og menn heyrðu áðan, heldur þvert á móti taldi það sína einu skyldu í þessum efnum að hreyta skætingi í garð okkar Alþb. manna, sem einir höfum þó flutt þessa till. hér í þinginu, — till. sem þeir Stéttarsambandsmenn hafa óskað eftir að næði fram að ganga.