30.01.1978
Neðri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1813 í B-deild Alþingistíðinda. (1530)

141. mál, almannatryggingar

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Frv. um breyt. á l. um almannatryggingar er samið af n. er ég skipaði á ofanverðu ári 1975 til þess að endurskoða lög um almannatryggingar. N. til aðstoðar voru tilnefndir þeir Guðjón Hansen tryggingafræðingur og Þorsteinn Magnússon viðskiptafræðingur. Aðdragandi þessarar endurskoðunar er reyndar lengri. Snemma á árinu 1975 fól heilbr.- og trmrn. Guðjóni Hansen tryggingafræðingi að vinna að athugun á tilteknum þáttum löggjafar um almannatryggingar og skyld málefni. N. þeirri, sem ég minntist á hér á undan, var falið það meginverkefni að fjalla um þessa þætti eftir því sem athugun Guðjóns Hansens miðaði áfram. Fyrsta grg. Guðjóns Hansens fjallaði um sameiningu fjölskyldubóta og skattívilnun vegna barna, og voru ákvæði þess efnis lögfest áður en n. var skipuð, sbr. lög nr. 39 frá 1975, þannig að n. fjallaði ekki um þennan þátt. Í októbermánuði 1975 skilaði Guðjón Hansen grg. með tillögum þar sem fjallað var um sameiningu slysatrygginga og annarra greina almannatrygginga. Var því fyrsta verkefni n. að fjalla um þessar tillögur og hóf n. störf með því að óska umsagnar hinna ýmsu samtaka vinnumarkaðarins um tillögur Guðjóns. Jafnframt ræddi n. við fjármálayfirvöld, skattyfirvöld og fleiri um einstök atriði tillagnanna. Vísast um þetta nánar til athugasemda við þetta frv.

N. hefur nú sent frá sér sínar fyrstu tillögur í formi þessa lagafrv. Hún leggur til að slysatryggingar verði lagðar niður að mestu sem sjálfstæð grein almannatrygginga. Það er álit n., að gera þurfi gangskör að þessum breytingum, þar sem ekki þykir fært að bíða eftir því að heildarendurskoðun ljúki. Því er ekki að leyna, að vegna fjölmargra breytinga, sem gerðar hafa verið á núgildandi lögum um almannatryggingar, og vegna þess að allar greinar trygginganna eru í endurskoðun væri æskilegast að lagt yrði fram frv. til nýrra almannatryggingalaga á grundvelli heildarendurskoðunar gildandi laga. Sem stendur er slíkt óframkvæmanlegt, þar sem ljóst er að með breytingu á slysatryggingum verður þörf aðlögunar á öðrum sviðum og slíkt krefst nokkurs tíma. Enn fremur má benda á það, að sem stendur vinnur önnur n. að því að móta framtíðarkerfi lífeyristrygginga, þ.e.a.s. mótun heildarkerfis almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Helstu breytingar, sem hér er lagt til að gerðar verði á gildandi lögum, eru eftirfarandi:

1) Slysatryggingar verði lagðar niður að mestu sem sjálfstæð grein almannatrygginga. Sem sérstakar slysabætur teljist aðeins tvær tegundir bóta, þ.e.a.s. bætur vegna örorku frá 15%–50% samkvæmt 34. gr. almannatryggingalaga og 8 ára bætur til ekkju eða ekkils samkvæmt a-lið 35. gr. Bætur þessar verði á vegum lífeyristrygginga, hér eftir nefndar lífeyris- og slysatryggingar.

2) Lífeyristryggingar greiði þær bætur sem réttur er til samkv. II. kafla almannatryggingalaga, enda þótt bótagreiðsla eigi rót sína að rekja til vinnuslyss.

3) Sjúkrahjálp vegna vinnuslysa verði greidd af sjúkratryggingum eftir þeim ákvæðum sem um síðar nefndu tryggingarnar gilda. Breyting þessi gefur tilefni til nokkurra breytinga á bótaákvæðum sjúkratryggingakafla laganna.

4) Sjúkratryggingar greiða sömu dagpeninga í veikinda- og slysaforföllum. Jafnframt hækki sjúkradagpeningar til jafns við núverandi slysadagpeninga, dagpeningar greiðist óskertir, meðan á sjúkrahúsvist stendur, og breytt verði ákvæðum um greiðslu dagpeninga til unglinga.

5) Núgildandi trygging ökumanna bifreiða falli niður, en í staðinn verði slysatrygging ökumanns fyrir tiltekinni fjárhæð við örorku og dauða innifalin í ábyrgðartryggingu bifreiða.

6) Í stað núverandi vikugjalda atvinnurekenda, annars vegar til lífeyristrygginga og hins vegar til slysatrygginga, komi eitt sameiginlegt gjald, reiknað sem hundraðshluti af heildarlaunagreiðslum á árinu. Flokkun eftir áhættu falli niður og sjóðmyndun slysatrygginga hverfi úr sögunni, að undanskildu framlagi til varasjóðs í samræmi við núgildandi ákvæði um varasjóð lífeyristrygginga.

7) Endurkröfuréttur almannatrygginga samkvæmt 59. gr. laganna falli niður. Hér er um að ræða endurkröfur slysatrygginga og sjúkratrygginga.

Eins og hér hefur komið fram, gerir frv. ráð fyrir því, að slysatryggingar verði lagðar niður sem sjálfstæð grein almannatrygginga og jafnframt að slysatryggingadeild Tryggingastofnunar ríkisins verði lögð niður og verkefni hennar verði færð yfir á aðrar deildir stofnunarinnar.

Slysatryggingar eru sú grein almannatrygginga, sem á sér lengsta sögu hér á landi, og jafnframt sú grein, sem mest svipar til einkatrygginga. Fyrstu slysatryggingalögin voru sett árið 1903 og tóku þau einungis til sjómanna á þilskipum og tryggðu einvörðungu dánarbætur. Örorkutrygging bættist við árið 1917 og dagpeningar 1925. Frá árinu 1925 nær tryggingin einnig til verkamanna í landi, og skipting starfa í áhættuflokka var þá tekin upp.

Þáttur slysatrygginga í almannatryggingakerfinu hefur á síðari árum aðallega verið fólgin í eftirfarandi:

a) Þær hafa tryggt mönnum bætur vegna vinnuslysa þótt þeir uppfylltu ekki biðtímaskilyrði lífeyris- og sjúkratrygginga, skilyrði lífeyristrygginga um ríkisborgarrétt eða skilyrði sjúkratrygginga um iðgjaldagreiðslur. Skilyrði þessi eru nú fallin brott að undanskildum biðtímaákvæðum lífeyristrygginga sem enn geta skipt máli.

b) Bætur hafa að ýmsu leyti verið ríflegri en bætur lífeyris- og sjúkratrygginga, og hin gömlu skerðingarákvæði lífeyristrygginga giltu ekki um bætur slysatrygginga.

e) Sérstakur fjárhagur slysatrygginga, skipting starfa og siðar fyrirtækja í áhættuflokka og sjóðmyndun á tryggingafræðilegum grundvelli hefur átt að tryggja að atvinnuvegirnir bæru kostnað af þeirri slysahættu er þeim fylgdi og þeim kostnaði yrði ekki velt yfir á framtíðina.

Vegna þeirra miklu breytinga, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum á almannatryggingalögunum, bæði hvað snertir bótaákvæði og fjárhagsgrundvöll, þótti ástæða til könnunar á því, hvort sama þörf sé fyrir núverandi skiptingu tryggingargreina sem áður. Hér verður að taka tillit til annarrar lagasetningar og kjarasamningsákvæða sem máli kunna að skipta í þessu sambandi. Hér skal einkum bent á þau atriði er snerta ákvæði laga og reglugerða um launagreiðslur í slysaforföllum, sbr. lög nr. 16 frá 1958, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum og um rétt þess og fastra starfsmanna til launa vegna sjúkdóms- og slysaforfalla, sjómannalög, nr. 67 1963, og lög nr. 38 1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Auk þess koma til greina ákvæði kjarasamnings um laun í slysaforföllum, hótagreiðslur sjúkrasjóða stéttarfélaga, greiðslur lífeyrissjóða vegna örorku og fráfalls, ákvæði laga og kjarasamninga um eingreiðslur örorku- og dánarbóta vegna slysa. Í þessu sambandi má nefna siglingalög nr. 66 1963, sbr. lög nr. 108 19I2, en í þeim lögum er raunar kveðið á um bæði eingreiðslur og lífeyrisgreiðslur, einnig má nefna hér rammasamning Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda frá 26. febr. 1974 og að lokum bótakröfur á grundvelli skaðabótaréttar.

Samkvæmt 29. gr. núgildandi almannatryggingalaga taka slysatryggingar til launþega sem starfa hér á landi, nemenda við iðnnám samkv. iðnfræðslulöggjöf, stjórnenda aflvéla og ökutækja, útgerðarmanna sem sjálfir eru skipverjar, manna sem vinna að björgun úr lífsháska eða vörnum gegn yfirvofandi meiri háttar tjóni á verðmætum. Starf launþega um borð í íslensku skipi eða íslenskri flugvél jafngildir starfi hér á landi. Í greininni er nánar kveðið á um hvað við er átt með launþegum, heimildir til undanþágu frá tryggingum fyrir þá sem sannanlega eru tryggðir samkvæmt erlendri slysatryggingalöggjöf og heimild til að taka í tryggingu starfsmenn íslenskra fyrirtækja erlendis.

Í 30. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um heimild atvinnurekenda til að taka slysatryggingu, heimild til tryggingar við heimilisstörf og tryggingar heimilisfólks vegna þátttöku í atvinnurekstri fjölskyldunnar.

Ákvæði 40. gr. fjalla um sjúkratryggingar, en samkvæmt henni eru allir landsmenn sjúkratryggðir í sjúkrasamlagi þar sem þeir eiga lögheimili. Með orðunum „öllum landsmönnum“ er átt við alla þá sem lögheimili eiga á Íslandi.

Í kaflanum um lífeyristryggingar eru víða sett skilyrði um þriggja ára lögheimilistíma, og gildir þetta bæði um barnalífeyri og ekkjulífeyri, sbr. 14. og 18. gr. Hins vegar er einskis lágmarkstíma krafist þegar sótt er um örorkulífeyri og hlutaðeigandi hefur haft óskerta starfsorku þegar hann öðlaðist hér lögheimili. Sama gildir um ekkjubætur samkvæmt 17. gr. Með hliðsjón af 1. gr. laga nr. 35 1960, um lögheimili, skal sérhver maður, sem dvelst eða ætlar að dveljast á Íslandi lengur en 6 mánuði, eiga þar lögheimili samkvæmt því sem fyrir er mælt í lögum. Sama gildir um útlendinga sem stunda hér atvinnu þó að dvöl þeirra sé skemmri en 6 mánuðir.

Í 10. gr. er ákvæði um lögheimili námsmanna, sjúklinga, starfsmanna á vegum ríkisins o.fl. sem erlendis dveljast.

Með hliðsjón af því, sem að framan hefur verið sagt, eru þeir, sem slysatryggðir eru hér, nær undantekningalaust jafnframt sjúkratryggðir. Þeir, sem ótryggðir eru hér, eru nánast eingöngu erlendir starfsmenn erlendra fyrirtækja sem hér gerast verktakar. Munu það helst vera erlendir ferðamenn sem gætu orðið fyrir slysum við akstur bifreiða án þess að vera sjúkratryggðir, og einnig gæti komið fyrir slys á ferðamönnum sem tækju þátt í björgun mannslífa eða verðmæta. Þrátt fyrir þessa undantekningu réttlætir það á engan hátt að skilið sé milli slysa- og sjúkratrygginga þar sem sameining þessara greina hlýtur að vera ákjósanleg með hliðsjón af öðrum sjónarmiðum sem þyngra hljóta að vega.

Fjmrn. hefur látið í ljós áhuga á breyttri tilhögun slysatrygginga ökumanna og sameiningu þeirra trygginga og ábyrgðartrygginga bifreiða. Bætur slysatrygginga eru samkvæmt núgildandi lögum sjúkrahjálp, dagpeningar, örorkubætur og dánarbætur. Í 32. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um sjúkrahjálp sem veitt er af slysatryggingum, en tilsvarandi ákvæði um sjúkratryggingar eru að finna í 32., 42., 44. og 47. gr. Hvað snertir mikilvægasta þátt sjúkrahjálparinnar, þ.e.a.s. sjúkrahúsvistina, gildir sama regla, þ.e.a.s. kostnaður er greiddur að fullu. Eini mismunurinn, sem getur komið fram, er þegar maður slasast eða veikist erlendis. Munur á læknishjálp utan sjúkrahúsa svo og á lyfjagreiðslum er að slysatryggingar greiða slíkan kostnað að fullu, en hjá sjúkratryggingum greiðir sjúklingur fast gjald fyrir hverja komu til læknis og fyrir hvern lyfjaskammt. Slysatryggingum er ekki skylt að greiða sjúkrakostnað vegna slyss ef slasaði er óvinnufær skemur en 10 daga, en heimilt er að greiða sjúkrahjálp í slíkum tilvikum, sbr. síðustu mgr. 31. gr. núgildandi almannatryggingalaga.

Í 33. gr. almannatryggingalaga er fjallað um dagpeninga slysatrygginga, en 45. gr. fjallar um dagpeninga sjúkratrygginga. Slysadagpeningar greiðast frá og með áttunda degi eftir slys, enda hafi slasaði verið óvinnufær í minnst 10 daga. Biðtími sjúkratrygginga er þrem dögum lengri. Það er skilyrði fyrir greiðslu sjúkradagpeninga, að tryggði sé orðinn 17 ára og njóti hvorki elli né örorkulífeyris, en slík skilyrði gilda ekki um slysadagpeninga. Samkvæmt 56. gr. mega slysadagpeningar og elli- og ekkjulífeyrir fara saman. Öryrki, sem slasast við vinnu, getur hins vegar valið þær bætur sem hærri eru. Slysadagpeningar nema nú 1975 kr. á dag að viðbættum 425 kr, fyrir hvert barn á framfæri. Hvað snertir sjúkradagpeninga, þá kveður 45. gr. almannatryggingalaga á um hámark og lágmark sjúkradagspeninga. Undanfarin ár hefur greiðsla miðast við lágmark, sem nú er 1561 kr, á dag að viðbættum 425 kr. fyrir hvert barn. Er þarna nokkur munur á, auk þess sem sjúkradagpeningar skerðast meðan á sjúkrahúsvist stendur, en slysadagspeningar greiðast óskertir.

Hvað snertir örorku sérstaklega, þá er höfuðmunurinn samkvæmt gildandi almannatryggingalögum á bótum lífeyris- og slysatrygginga fólgin í endurgreiðslu slysabóta ef orkutap nær 15%, en er þó undir 50%. Lífeyristryggingar greiða á hinn bóginn engar bætur ef örorka nær ekki 50% Ef orkutap er milli 50% og 75% eru greiðslur slysatrygginga lögboðnar, en greiðslur lífeyristrygginga fara eftir heimildarákvæðum. Sé örorka 75% eða meiri er bótaréttur sá sami, en réttur til uppbóta, þ.e.a.s. tekjutryggingar, er þá háður skilyrðum lífeyristrygginga. Frv. þetta gerir ekki ráð fyrir að réttur slasaðra til örorkubóta breytist frá því sem er í gildandi lögum.

Við dauðsfall er barnalífeyrir og ekkjulífeyrir hinn sami hjá báðum deildum. Í stað ekkju- og ekkilsbóta, sem lífeyristryggingar greiða í 6 eða 18 mánuði, koma hins vegar 8 ára bætur slysatrygginga og enn fremur inna slysatryggingar af hendi eingreiðslu fjár til foreldra og jafnvel annarra aðstandenda.

Með hliðsjón af framangreindri upptalningu er greinilegt að bætur slysatrygginga eru að meiri hluta til greiðslu sem menn að öðrum kosti ættu rétt á hjá lífeyris- og sjúkratryggingum. Þetta hlýtur að teljast eðlilegt þegar launþegar eiga í hlut og sé litið á málið frá því sjónarmiði, að atvinnureksturinn eigi að standa undir þeim útgjöldum sem slys hafa í för með sér. Þegar hins vegar er um að ræða frjálsa slysatryggingu, þ.e.a.s. samkv. 30. gr. almannatryggingalaga, verður annað uppi á teningnum. Þeir, sem slíka tryggingu taka, eru látnir greiða iðgjöld fyrir tryggingu sem þeir að jafnaði njóta að miklu leyti hvort eð er. Þá eru ökumenn bifreiða í mörgum tilvikum þrítryggðir við akstur, þ.e.a.s. hjá lífeyris- og sjúkratryggingum svo og hjá slysatryggingum í sambandi við starf sitt o,g ökumannstryggingu.

Hvað snertir bætur frá öðrum aðilum, þá halda launþegar nær undantekningarlaust launum í viku eftir slys og flestir miklu lengur. Hjá fjölmörgum stéttarfélögum tekur síðan við réttur til dagpeninga úr sjúkrasjóði sem koma til viðbótar dagpeningum slysatrygginga. Samkvæmt rammasamningi Alþýðusambands Íslands og vinnuveitenda frá því í febrúar 1974 eru allir launþegar, sem sá samningur tekur til, tryggðir fyrir örorku og dauða af völdum vinnuslysa, og hafa ákvæði þessi síðan verið tekin upp í samningum fjmrh. við stéttarfélög. Mörg stéttarfélög hafa í samningum sínum ákvæði er ganga lengra. Og loks er mjög algengt að bótakröfur séu gerðar á hendur vinnuveitenda vegna vinnuslysa.

Til þess hefur verið ætlast, að atvinnurekstur beri kostnað við slysatryggingu sem honum fylgir. Samkvæmt 36. gr. núgildandi almannatryggingalaga er fyrirtækjum skipt í áhættuflokka og iðgjald ákveðið fyrir hvern flokk. Tryggingavikan er sú eining sem lögð er til grundvallar iðgjaldsákvörðun. Nokkrar undantekningar eru frá þeirri reglu. Skipting í áhættuflokka fer eftir fyrirtækjum, þannig að áhöfnum skipa, ökumönnum bifreiða og áhöfnum flugvéla er skipað í sérstaka áhættuflokka. Ljóst er að hinn tvíþætta álagning iðgjalda til almannatrygginga, þ.e.a.s. iðgjalda til lífeyristrygginga, sem eru hin sömu af öllum launþegum, og hinna misháu vikugjalda til slysatrygginga, hefur í för með sér verulega vinnu. Við innheimtu og bókhald þarf síðan að halda gjöldunum aðskildum. Um teljandi fyrirhöfn við innheimtu er þó fyrst og fremst að ræða í sambandi við iðgjöld af ökumönnum bifreiða eftir að bifreiðaskattur hefur verið felldur niður, þannig að slysatryggingaiðgjald stendur nú eitt eftir. Fjmrn. hefur lagt áherslu á að forsendur núverandi kerfis iðgjaldainnheimtu þessarar séu fallnar brott og eðlilegast sé að sameina ökumannstrygginguna ábyrgðartryggingu bifreiða.

Jafnframt þessari áhættuflokkaskiptingu er fjárhagsgrundvöllur við það miðaður, að ár hvert sé séð fyrir öllum fjárhagsskuldbindingum vegna þeirra slysa sem orðið hafa á árinu. Leitast er við að ná þessu markmiði með sjóðmyndun annars vegar fyrir ógreiddum bótum vegna óuppgerðra tjóna og hins vegar með höfuðstólsandvirði lífeyris sem ásamt vöxtum er ætlað að duga fyrir lífeyrisgreiðslum vegna hlutaðeigandi slysa um alla framtíð. Vegna sífelldra bótahækkana miðað við krónutölu, sem taka jafnt til lífeyrisgreiðslna vegna eldri slysa sem bóta vegna nýrra slysa, reynist höfuðstólsandvirði lífeyris að jafnaði ekki nægilegt. Þessi fjárhæð er svo endurskoðuð árlega og viðbótarfé lagt til hliðar. Þannig er markmiðinu með sjóðmynduninni engan veginn náð, og á verðbólgutímum, þegar árlegir vextir eru lægri að hundraðshluta til en árlegar bótahækkanir, er þetta fyrirkomulag dýrara fyrir iðgjaldsgreiðendur en fjárhagsgrundvöllur án sjóðmyndunar, eins og sá sem lífeyris- og sjúkratryggingar eru byggðar upp á.

Á árinu 1973 nam rekstrarkostnaður slysatrygginga 10.8 millj, kr, eða 8.5% af greiddum bótum og er það hlutfallslega langtum hærri kostnaður en hjá öðrum greinum almannatrygginga. Þess ber að geta, að að talsverðu leyti telst þetta áætlaður kostnaður, þ.e.a.s. áætluð þátttaka í sameiginlegum rekstri Tryggingastofnunarinnar. En ljóst er af því, sem hér hefur áður verið sagt, að framkvæmd slysatrygginga hlýtur að vera tiltölulega kostnaðarsöm, ekki eingöngu fyrir Tryggingastofnunina sjálfa, heldur ekki síður innheimtufyrirkomulagið á vegum fjmrn.

Með hliðsjón af þeirri þróun, sem á undanförnum árum hefur átt sér stað í lífeyris- og sjúkratryggingum almannatrygginga að því er varðar bótaákvæði, fjárhagsgrundvöll og skipulag, þá taldi Guðjón Hansen tryggingafræðingur tímabært að þessar greinar tækju að verulegu leyti við verkefnum slysatrygginga og meðferð slysamála yrði stórlega einfölduð frá því sem nú er. Hann benti á að þær athuganir, sem ég hef lauslega greint hér frá, bentu eindregið til þess, að ávinningur af núverandi tilhögun sé vart svo mikill lengur að hann réttlæti framhald á rekstri sjálfstæðra slysatrygginga í sama mæli og hingað til.

Með hliðsjón af till. Guðjóns Hansens tryggingafræðings setti n., sem samdi þetta frv., fram þær tillögur sem hér birtast í frv. Tillögur n., sem tíundaðar eru fyrr í framsögu minni, felast einkum í því, að bætur greiddar í einu lagi samkv. 35. gr. almannatryggingalaga, sbr, d- og e-lið 1. mgr. og 2. mgr. þeirrar gr., falli niður. Hér er um að ræða dánarbætur til barna eldri en 16 ára, hafi barnið verið á framfæri hins látna vegna örorku er slys ber að höndum, og dánarbætur til foreldra falli niður. Eðlilegt er að ákvæði kjarasamninga um dánarbætur vegna slysa verði endurskoðuð með tilliti til þessara brtt., en slík ákvæði eru nú almennt í kjarasamningum. Töluvert svigrúm þarf til að koma slíkum breytingum á. En með hliðsjón af því, að lögunum er ekki ætlað að öðlast gildi fyrr en 1. jan. 1979, ætti að vera auðvelt að framkvæma þetta. Enn fremur þyrfti að breyta 71. gr. umferðarlaga, þar sem miðað við núgildandi bótafjárhæð almannatrygginga getur 3 millj. kr. trygging ökumanns við 100% örorku eða dauða talist hæfileg, þannig að enginn ökumaður, sem rétt ætti til bóta hjá lífeyris- og sjúkratryggingum, teldist lakar tryggður en hann er samkv. núgildandi reglum, en mikill fjöldi ökumanna yrði betur tryggður en áður. Enn fremur yrði að athuga áhrif þess á iðgjöld af ábyrgðartryggingum bifreiða, að endurkröfuréttur almannatrygginga fellur niður.

Með frv. þessu er að því stefnt, að til bóta slysatrygginga teljist einungis þær bætur sem menn eiga ekki rétt á hjá öðrum greinum almannatrygginga. Þessi skipan hefur í för með sér einföldun á bókhaldi og skapar eðlilegri grundvöll fyrir frjálsa tryggingu en núverandi fyrirkomulag. Athugun sýnir að það hefur sáralítil áhrif á heildargreiðslu fyrir sjúkrahjálp þá, sem slysatryggingarnar greiða nú, þótt farið sé eftir ákvæðum sjúkratrygginganna. Í einstökum málum virðist einkum geta orðið verulegur munur ef tannlæknishjálpar væri þörf. Í miklum fjölda mála er munurinn svo hverfandi lítill, að slasaði eða vinnuveitandi hans sjá ekki ástæðu til að fá hann greiddan.

Hækkun sjúkradagpeninga til jafns við slysadagpeninga, ásamt afnámi skerðingar meðan á sjúkrahúsvist stendur, telst nauðsynleg forsenda þess, að sjúkradagpeningar geti komið í stað slysadagpeninga, og auk þess felst í þessari breytingu eðlileg samræming milli hótategunda. Þetta hefur í för með sér að biðtími slysamála lengist um 3 daga, en yfirleitt munu launþegar fá það bætt af vinnuveitanda eða tryggingafélagi, eins og fyrr kom fram í máli mínu. Jafnframt er lagt til að breytt verði ákvæðum um greiðslu dagpeninga til unglinga. Ökumenn eiga að öllum jafnaði rétt á bótum lífeyris- og sjúkratrygginga, eins og áður hefur verið greint frá, þar sem tillit er tekið til fjölskylduástæðna. Verði slysatrygging ökumanna sameinuð ábyrgðartryggingu bifreiða virðist því eðlilegast að hún breytist í tryggingu eingreiðslufjárhæðar við örorku og dauða. Í stað núverandi vikugjalda atvinnurekenda annars vegar til lífeyristrygginga og hins vegar til slysatrygginga er lagt til í þessu frv., að til komi eitt sameiginlegt gjald reiknað sem hundraðshluti af heildarlaunagreiðslum á árinu. Flokkun eftir áhættu falli niður.

Þá er lagt til að sjóðamyndun slysatrygginganna hverfi úr sögunni, en þó með nokkrum undantekningum. Um þetta hefur þegar verið fjallað hér á undan, en á það skal bent, að frá efnahagslegu sjónarmiði er óæskilegt að á verðbólgutímum sé horfið frá sjóðmyndun og þannig dregið úr sparnaði. Hins vegar er hér um að ræða mjög lítinn þátt innan almannatryggingakerfisins og því vart ástæða til að láta slíkt sjónarmið ráða um þann þátt einan. Niðurfelling á endurkröfurétti samkv. 59. gr. almannatryggingalaga mun í raun eingöngu hafa áhrif á viðskipti við bifreiðatryggingafélög, en varðar hins vegar bæði slysa- og sjúkratryggingar. Á það skal bent, að í reikningum Sjúkrasamlags Reykjavíkur fyrir árið 1973 er þessi liður neikvæður upp á rúmlega 3.7 millj. kr„ og í skýringum kemur fram, að árið áður hafa kröfur að fjárhæð tæpar 8 millj. verið færðar til tekna, en árið 1973 nema kröfur, sem tryggingafélög hafa synjað, hærri fjárhæð en nýjar kröfur á árinu. Með hliðsjón af framansögðu þjónar engum tilgangi að hafa slíkan endurkröfurétt í lögum, þar sem m.a. má ætla að niðurfelling hans muni spara nokkra vinnu hjá öllum aðilum, sem hér eiga hlut að máli, og þá að sjálfsögðu leiða til lækkunar iðgjalda ábyrgðartrygginga bifreiða, þar sem að sjálfsögðu þarf að taka tillit til slíks við ákvörðun iðgjalda.

Ef þetta frv. nær fram að ganga mun það leiða af sér að bótagreiðsla slysatrygginga muni lækka verulega eða nálægt 70% og bótamálum muni fækka hvorki meira né minna en um 90%. Gera má ráð fyrir að samanlögð árleg útgjöld slysa-, sjúkra- eða lífeyristrygginga muni aukast um því sem næst 100 millj. kr., ef miðað er við núgildandi bótafjárhæðir. Á það skal hins vegar bent, að útgjöld slysatrygginga árið 1974 voru 167,9 millj. og árið 1975 214.5 millj. kr. Vísast nánar um þetta til athugasemda með frv., sbr. útreikning á bls. 7. Það yfirlit sýnir í grófum dráttum hvað gerast mundi við samþykkt frv., en þess ber að geta, að tilfærsla hefur á sumum sviðum í för með sér breytt bótaákvæði. Með hliðsjón af biðtíma mundu útgjöld til dagpeninga vegna slysa lækka, svo dæmi sé tekið.

Með samþykkt þessa frv. má draga þá ályktun að í heild verði launþegar að teljast betur tryggðir en áður vegna veikinda og slysa. Framlög til trygginganna í heild mundu hins vegar ekki hækka við samþykkt frv., þ.e.a.s. ef miðað er við aðstæður eins og þær hafa verið undanfarin ár með verulegum framlögum til sjóða slysatrygginga.

N. sú, sem samdi þetta frv., leitaði álits Þjóðhagsstofnunar á því, hverjum breytingum mætti gera ráð fyrir á iðgjöldum vegna hins breytta fjárhagsgrundvallar sem í frv. felst. Telur sú stofnun lauslega áætlun benda til að núverandi slysatryggingagjöld atvinnurekenda, þ.e.a.s. án ökumannstryggingar, nemi um 0.4% af launaupphæðinni á því ári sem gjaldið er lagt á, en 0.50–0.55% af launafjárhæð ársins á undan, ef miðað er við árin 1975–1977.

12. gr. frv. hefst á orðunum: „Fyrir lok maímánaðar ár hvert skal Tryggingastofnunin gera áætlun um útgjöld lífeyris- og slysatrygginga.“ Eru þetta í sjálfu sér eðlileg tímamörk. En fleira þarf til. Ársreikningar Tryggingastofnunarinnar skulu samkv. gildandi lögum jafnan fullgerðir eigi síðar en 1. júlí ár hvert. Ákvæði um fjárhagsáætlanir voru bundin við sömu tímamörk. Enda þótt reynt hafi verið að hafa fjárhagsáætlanir tilbúnar fyrr en þetta eru þó þessi atriði nátengd. Þá eru fleiri atriði sem þarna koma til greina. Reikningar umboðanna þyrftu allir að liggja fyrir a.m.k. tveimur vikum áður en skila þarf fjárhagsáætlun Tryggingastofnunarinnar. Sama er að segja um reikninga sjúkrasamlaganna, en engin ákvæði eru um að þeim skuli skilað í tæka tíð, þó þeir séu nauðsynlegir við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Með þessu er Tryggingastofnuninni gert að skyldu að uppfylla viss ákvæði án þess að tryggt sé að það sé framkvæmanlegt. Þetta tel ég rétt að n., sem fær frv. þetta til meðhöndlunar, taki til alvarlegrar athugunar, og tel ég að nauðsynlegt sé að breyta því eins og það er í frv.

Í niðurfellingu áhættuflokkunar og talningar vinnuvikna í lífeyris- og slysatryggingum felst að sjálfsögðu mikill vinnusparnaður. Eftir sem áður á sér þó stað talning vinnuvikna hvað snertir atvinnuleysistryggingar sem að mínu mati er nauðsynlegt að breyta til samræmis, enda starfar nú n. að því að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar.

Að svo stöddu sé ég ekki ástæðu til að fjalla frekar um efnisatriði frv., enda er mál mitt orðið alllangt, en í stað þess vísa ég til frv. sjálfs ásamt athugasemdum. Vænti ég þess, að þetta frv. hljóti góðar viðtökur hér í hv. þd., og legg til. hæstv. forseti, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr: og trn.