30.01.1978
Neðri deild: 48. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1821 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

112. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það er búið að fresta alloft að taka þetta frv. til umr., og sannleikurinn er sá, að enn stendur svo á að ástæða væri til að biðja um frestun, vegna þess að fjarstaddir eru áhugamenn um þetta mál, þ. á m. annar flm. sem ég hygg að hafi ætlað að ræða þetta mál. En málið er búið að bíða svo lengi að ég sé ekki ástæðu til að freista þess ekki að koma því til n. nú. Þetta frv. kom fram nokkru fyrir jól, en lenti þá í jólaannríkinu og var aldrei tekið til umr.

Þessu frv., sem ég flyt ásamt hv. þm. Tómasi Árnasyni, 4. þm. Austurl., fylgir mjög ítarleg grg., og í rauninni segir þessi grg. allt það sem segja þarf á þessu stigi um þetta mál.

Það, sem felst fyrst og fremst í þessu frv., er mjög veigamikil breyting á starfsemi Byggingarsjóðs ríkisins. Er lagt til í 1. gr. þessa frv., að 8. gr. laganna en Húsnæðismálastofnun ríkisins verði breytt á þann hátt sem þar segir. Þar er sem sagt lagt til að það verði meðal aðalverkefna Byggingarsjóðs að lána fé til endurnýjunar á gömlu húsnæði og einnig til kaupa á gömlu húsnæði, ef það má verða til að stuðla að hagkvæmri nýtingu þess.

Eins og nú háttar er heimilt að veita lán til kaupa á eldri íbúðum og til endurbóta á eigin húsræði öryrkja og ellilífeyrisþega. Það er því mjög miklum takmörkunum bundið hvað heimilt er að lána til kaupa á eldra húsnæði og til endurgerðar á húsum. En ef þetta frv. yrði að lögum, þá yrðu lán til kaupa á gömlu húsnæði og til meiri háttar endurbóta og endurnýjunar og til viðhalds á gömlu húsnæði, þá yrði þetta allt saman sett á sama bekk.

Þetta er í raun og veru kjarni þessa máls, og þetta er það umhugsunarefni sem ég held að sé mjög nauðsynlegt að við hér á Alþ. förum að leiða hugann að. Og ég held að það sé mjög mikil nauðsyn á því, að það fari að skapast almennar umr., t.d. meðal byggingamanna, um þetta mál, því hér er áreiðanlega um mjög mikið stór mál að ræða. Í rauninni er þetta þjóðhagslega mjög stórt mál, og eru ýmsir, sem um þetta hafa fjallað, að koma auga á það. Víða annars staðar en hér á landi hefur verið rætt um þessi mál af meiri áhuga, og hef ég t.d. haft af þessu veruleg kynni í sambandi við störf mín hjá Evrópuráðinu, en ráðið hefur ekki einungis lagt sig fram og verið í fararbroddi um svokallaða húsafriðun, húsavernd, sem í sjálfu sér er sérstakt menningarmál, — ekki eingöngu verið þar í broddi fylkingar, heldur nú á síðari árum, nokkrum allra síðustu árum, hafa menn þar farið að leiða hugann að hinu, að það mundi vera þjóðhagslega rétt, þjóðhagslega skynsamlegt að beina lánsfjármagni meira til uppbyggingar á gömlu húsnæði og viðhaldi á gömlu húsnæði heldur en verið hefur til þessa.

Húsafriðun sem slík hefur mjög mikið verið rædd hér á Íslandi og umr. um þau hafa farið vaxandi á síðari árum og ýmislegt verið gert til þess að stuðla að húsafriðun og húsavernd, m.a. með endurskoðun þjóðminjalaganna 1969, þegar sérstakur kafli var settur þar inn um húsavernd og húsafriðun. Síðar kom til sérstakur Húsafriðunarsjóður með lögum frá 1975, að ég ætla, og sá sjóður, þó ekki sé mikill að vöxtum, hefur orðið að gagni. Ráðstöfunarfé hans er ekki nema um 14–15 millj. á ári og þó líklega laklega það s.l. ár Eigi að síður hefur á grundvelli þessa litla sjóðs verið hægt að skipuleggja aðgerðir í húsafriðunarmálum af meiri skynsemi en áður var. En þarna þarf áreiðanlega að gera miklu meira, og mér er kunnugt um það sem einum af stjórnarmönnum Húsafriðunarsjóðs, að verkefni sjóðsins eru augljóslega mikil og vant er fjármagns til þessara hluta. Þá kemur það líka til, að nú hefur verið ákveðið að nokkru af tekjum af sölu þjóðhátíðarmyntar verði varið til þessara mála, og er það vel. Að þessu leyti til verð ég að segja að þessum málum er nokkuð á veg komið hér á landi, þó að mjög mikið megi úr bæta.

En það frv., sem hér liggur fyrir, gengur í raun og veru miklu lengra og er kannske miklu áhrifameira en allt annað sem rætt hefur verið í sambandi við húsavernd og húsafriðun, viðhald gamalla bygginga af ýmsu tagi, vegna þess að þar er almennt gert ráð fyrir því, að til viðgerðar, viðhalds og endurgerðar, restoration, sem kallað er á útlendu máli, verði lánað ekki síður en til nýbygginga.

Þetta er í raun og veru það sem þetta frv. fjallar um. Nú gæti ég auðvitað talað miklu meira um þetta og æskilegt að það gætu orðið verulegar umr. um þetta mál, sem ég raunar vona að verði. Ég minntist á það, sem verið er að fjalla um þetta á erlendum vettvangi, og mig langar til að segja frá því, sem raunar kemur fram í grg. minni, að fyrir rúmu ári, í okt. 1976, var haldin á Ítalíu í boði ítölsku ríkisstj. sérstök ráðstefna og til þessarar ráðstefnu var boðið fulltrúum þeirra rn. í ríkjum Evrópu sem fara með skipulagsmál. Þarna voru fulltrúar allmargra landa, bæði innan Evrópuráðs og raunar fleiri landa, ef ég man rétt. Og þar kemur fram að meðal ályktana á ráðstefnunni, eins og nefnt er í grg. okkar flm., var ein sú, að það skyldi vera grundvallaratriði í skipulagsmálum að viðhalda gömlum íbúðarhverfum og taka upp opinbera lánastefnu sem gerði kleift að endurnýja gömul hús. Þar var einnig lagt til — og það er mjög athyglisvert — að lána skyldi til á endurnýjun húsa hlutfallslega jafnmikið og til nýbygginga.

Einnig er rétt að geta þess, að stefnan í sumum hinna stærri landa í Evrópu er mjög að breytast nú þegar í þessum efnum, t.d. í Frakklandi, þar sem afar mikið er til af gömlum húsum sem enn eru í fullum notum eftir kannske 300 – 400 ár. Sama er að segja um Þýskaland og raunar Bretland. Frakkar gera mjög mikið að því nú að benda á það í ræðu og riti, að það muni vera þjóðhagslega hagkvæmara að vinna að endurgerð gamalla húsa heldur en að þenja sífellt út borgir og útborgir með nýbyggingum. Og í Bretlandi er ný stefna uppi, e.t.v. var þó upphafið að menn fóru að útrýma því sem kallað var heilsuspillandi íbúðir, og að sjálfsögðu var það í mörgum tilfellum nauðsynjamál. En því er ekki að neita, að menn eru nú farnir ai5 átta sig á því, að menn hafa að ýmsu leyti ofgert í þessu og það er skynsamlegra að reyna heldur að viðhalda þessum gömlu hverfum, gömlum húsum og hverfunum í heild. Það er á allan hátt betra og skynsamlegra, þegar upp er staðið, þó auðvitað hljóti alltaf að vera innan um hús sem ekki eiga neinn rétt á sér að vera endurgerð eða haldið við. Og þess vegna er það svo nú, að í Bretlandi er orðin föst og ákveðin stefna að vinna að endurnýjun húsa og húsahverfa í áföngum frekar en að útrýma þeim sem heilsuspillandi húsnæði.

Ómurinn af þessu öllu saman berst auðvitað til Íslands, og ég held að umræður séu þegar hafnar mjög verulega hér á landi um þetta, og ætlun okkar flm. þessa frv., okkar hv. þm. Tómasar Árnasonar, er sú, að það megi verða verulegt innlegg í þessar umr. Ég veit að það er verið að endurskoða lög um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Ég veit líka, að það hefur verið rætt við a.m.k. hluta eða forustumenn þeirrar n. um þessi efni, og ég veit að þeim er kunnugt um margt í sambandi við þessi efni að sjálfsögðu. Eigi að síður er ekki vissa fyrir því, að endurskoðunarnefndin gangi eins róttækt til verka og hér er lagt til, og það skal ég viðurkenna, að það getur verið eðlilegt að skoða till þessi mál vel. Þetta mál þarf vissulega við mikillar skoðunar, það viðurkenni ég. En eigi að síður er hér um svo stórt mál að ræða, húsnæðismál og þjóðhagsmál, fyrir utan það að vera mikið menningarmál, að ég held að við megum ekki horfa fram hjá því og við verðum innan ekki mjög langs tíma að taka afstöðu til þess, hvort sú stefna verður tekin upp opinberlega, sem hér er boðuð, eða ekki.

Ég minntist á það, að samflm. minn að þessari till., Tómas Árnason, er ekki hér í dag, en ég hygg að hann hafi haft áhuga á því að greina frá ákveðnum atriðum í sambandi við þetta mál. Þannig er, að á Seyðisfirði, sem er í hans kjördæmi og raunar hans fæðingastaður, er e.t.v. einhver elsta samfellda gamla byggðin á Íslandi sem eru er í notkun og auðvelt er að endurgera svo að hún geti enn verið í notkun í tugi eða hundruð ára. Seyðfirðingar hafa verið mjög vakandi menn í þessu, og þeir hafa unnið þannig að, að þeir hugsa ekki fyrir eingöngu friðun húsa, heldur nánast fyrir friðinn bæjarhverfa og bæjarins í heild, eftir því sem hægt er, og nm þetta liggja fyrir ýmsar áætlanir og niðurstöður sem merkilegt er að kynna sér. Ég vildi minnast á þetta atriði sérstaklega, vegna þess að e.t.v. er þetta eitt skýrasta dæmið um það, hvað eitt bæjarfélag getur orðið sammála og samtaka um að gera stóra hluti í þessum málum.

Ég vil alls ekki gera lítið úr því sem gert hefur verið hér í Reykjavík, því að það verður að seg.ja sem satt er, að borparstjórn Reykjavíkur hefur kannske frá fyrstu tíð verið á ýmsan hátt í forustu um skynsamlega húsafriðun, eða a.m.k. hefur látið þau mál til sín taka þannig að eftir hefur verið tekið, enda er henni málið skylt. Því að Reykjavík er með einni elstu byggð landsins og hér er margt merkilegra hverfa og húsa. En mér virðist þó alveg augljóst að gera þurfi hér stórátak í borginni og að Reykjavíkurborg kunni að geta breytt stórlega um svip og orðið önnur en hún er, ef ekki er haldið uppi umr. um þetta og ef menn komast ekki að réttri niðurstöðu um það, hvernig borgarhverfunum hér verður við haldið, þannig að þau nýtist sem best og séu í raun og veru ætíð eins og ný, því að það geta þau mörg hver orðið.

Við sjáum það þó hér í Reykjavík mætavel, að það hefur átt sér stað sorgleg þróun í þessum málum og er í raun og veru ekki almennilegt að horfa upp á það, hvernig sum bæjarhverfi hér hafa drabbast niður. Raunar get ég sagt nákvæmlega það sama um minn eigin heimastað, Akureyri, sem ekki er síður að ytra útliti mjög fallegur staður. Þar vantar stórlega á það, að viðhaldi húsa hafi verið haldið í því horfi sem æskilegt og nauðsynlegt var, og það er búið að vinna þar þann skaða á húsum, að það mun kosta mikið fé að bæta úr því. En þó vona ég að Akureyringar verði það framsýnir, að þeir fáist til að taka af alvöru undir þessa stefnu að reyna að halda við bæjarhverfum og einstökum húsum, og raunar er þar þegar mjög mikill áhugi á þessum málum og bæjarstjórn Akureyrar hefur haft forgöngu um það að stofna sérstakan húsafriðunarsjóð fyrir bæinn. Sá sjóður er ekki mikill að vöxtum frekar en Húsafriðunarsjóður ríkisins og getur ekki lagt fram fé nema til einstakra húsa og einstakra verka á þessu sviði, en getur aldrei orðið neinn heildarlánasjóður.

Fleiri staði mætti svo sannarlega nefna á Íslandi, þar sem áhugi er að vakna hjá bæjarstjórnunum. Það má nefna Ísafjörð, Siglufjörð og sjálfsagt marga fleiri staði. En ég vildi gjarnan að áhugi á þessu máli breiddist meira út. Og ég legg á það áherslu, vegna þess að það er af einhverjum ástæðum svo, að menn taka þetta sem einhvers konar sérviskumál vissra manna, enda stafar það að nokkru leyti af því, að mönum hefur verið dálítið gjarnt að einblína á einstaka þætti, eins og Bernhöftstorfuna og eitthvað slíkt, en ekki horft á þetta mál í heild sinni og ekki áttað sig á því, að með því að forsóma húseignir erum við að ganga á eign þjóðarinnar og það er þjóðhagslega skynsamlegt að veita fjármagni til þess að húsum sé haldið við. En því miður hefur pólitík okkar á liðnum áratugum farið í öfuga átt. Almenn viðhorf í húsnæðismálum hafa verið svona. Þau eru að breytast, vona ég. Lánapólitíkin hefur orsakað þetta, og jafnvel skattapólitíkin hefur átt sinn þátt í því hvernig þetta hefur farið.

En ég skal ekki, herra forseti, hafa um þetta fleiri orð. Eins og ég segi er í grg. fyrir þessu frv. nokkuð ítarleg skýrsla um ástæður fyrir þessu frv. Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum, en ég legg enn áherslu á það, að ef það verður að lögum er vissulega um stórbreytingu að ræða á starfsemi Byggingarsjóðs, en eigi að síður mjög tímabæra breytingu.

Ég vil svo leyfa mér, hæstv, forseti, að leggja til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og félmn.