31.01.1978
Sameinað þing: 41. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1536)

102. mál, starfsemi Húsnæðismálastofnunar ríkisins

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 119 að bera fram svo hljóðandi fsp, til hæstv. félmrh.:

„1. Hvað hefur Húsnæðismálastofnun ríkisins aðhafst í því skyni að auka hagkvæmni í byggingum og lækka byggingarkostnað skv. 3. gr. laga um stofnunina?

2. Hverjar eru helstu áætlanir stofnunarinnar um aðgerðir í þessu efni?“

Fsp. sú, sem hér er fram borin, hefur þann tilgang fyrst og fremst að fá glöggt heildaryfirlit yfir það, þó stutt sé í þessum fyrirspurnartíma að vísu, hvað Húsnæðismálastofnun ríkisins hefur helst aðhafst í þá átt að uppfylla lagaákvæði nm það að stuðla að hagkvæmni í byggingariðnaði og lækkun byggingarkostnaðar skv. 3. gr, laganna og frekari upptalningu þar að lútandi, og eins og það, hvað þar er helst á döfinni. Hér er um eitt höfuðhlutverk stofnunarinnar að ræða að mínu mati, og e.t.v. er hér að finna höfuðröksemdina fyrir tilveru stofnunarinnar, auk þeirrar heildarstjórnar og samræmingar sem hún vinnur að. Ég hef að vísu nokkurn grun um það, að hvorki hafi stofnunin fjárhagslegt bolmagn né raunverulegt vald til þess að aðhafast nokkuð að gagni í þessum efnum og standa fyrir þeim margvíslegu tilraunum sem ótvírætt þarf að gera, svo samanburð einstakra aðferða megi kanna og fullnægjandi árangurs megi vænta. Ör þróun byggingartækni með nýjum aðferðum um margt sem leitt hafa til hagkvæmni og betri vinnubragða, allt þetta hefði átt að hafa í för með sér lækkun kostnaðar við byggingar langt umfram það, sem ég tel að orðið hafi, e.t.v. engan ef grannt er skoðað. Um það væri a.m.k. gott að fá skýr svör.

Íbúðarbyggingar eru svo snar þáttur í efnahag manna og lífsafkomu, að það veltur mikið á því, að þær séu á þann veg skipulagðar og með þeirri opinberri aðstoð og vissri forsjá, að þær verði mönnum ekki ofraun, baggi fjölda ára, sem illkleift er undir að rísa. Þar koma lánamálin mjög inn í, en út í þau er ekki við hæfi að fara hér. En ekki síðra er þá það, að unnið sé að því skipulega og af fullri reisn að auka hagkvæmnina og sem beina afleiðingu af því og nýjum vinnuaðferðum að lækka kostnað hins almenna húsbyggjanda. Hér koma ekki hvað síst til greina nýjar aðferðir við byggingu húsa, sem ég tel að of litla fyrirgreiðslu og of lítinn hljómgrunn hafi fengið. En þar á ég við verksmiðjubyggð hús, sem eiga að tryggja hvort tveggja, að rétt er að staðið, skemmri byggingartíma, sem er afar mikilvægt, og verulega lækkun kostnaðar, ef um raunverulega verksmiðjuframleiðslu er að ræða, eins og tíðkast best erlendis. Tæknideild Húsnæðismálastofnunar hefur nú starfað nokkurn tíma. Við hana voru ýmsar vonir bundnar þessu máli tengdar, og eflaust hefur þar verið upp á ýmsu fitjað sem full ástæða er til að fá upplýsingar um í heild, þó árlega sé um nokkuð af því getið í skýrslu stofnunarinnar.

Ég hef því óskað eftir því, að hæstv. félmrh. geri fyrir þessu nokkra grein í fyrirspurnatíma, þó erfitt sé að gefa það tæmandi, bæði hvað gert hefur verið og hvað framundan er í þeim málum sem lúta að þessari lagaskyldu Húsnæðismálastofnunar ríkisins.